Sænska meistaramótið fór fram í Norrköping um helgina. Góður árangur náðist í mörgum greinum enda eiga Svíar marga frambærilega frjálsíþróttamenn. Kringlukastskeppni karla stóð upp úr um helgina en lærisveinar Vésteins Hafsteinssonar virðast vera að finna sitt besta form nú þegar rúm vika er í Evrópumeistaramótið.
Petterson skákaði Ståhl
Þeir Daniel Ståhl og Simon Pettersson voru að sjálfsögðu mættir til keppni í kringlukasti karla. Aðstæður voru frábærar til kringlukasts í Norrköping um helgina og nýttu kapparnir sér þær til fullnustu. Pettersson kastaði 69,84m strax í fyrstu umferð og bætti sitt persónulega met um 36 sentímetra. Þetta var jafnframt bæting á meistaramótsmeti Sthåhls frá árinu 2018 um 12 sentímetra. Ståhl byrjaði keppnina með kasti upp á 68,67m og ljóst varð að þetta yrði hörkukeppni.
Ståhl lengdi sig í 68,97m í þriðju umferð en Pettersson hélt þó forystunni. Í fimmtu umferðinni gerðust svo töfrar. Ståhl, sem var á undan Pettersson í kaströðinni, kastaði 70,29m og tók forystuna. Hann endurheimti jafnframt meistaramótsmetið. Það varði þó ekki lengi því strax í næsta kasti bætti Pettersson um betur og kastaði 70,42m. Það reyndist vera sigurkastið í þessari ótrúlegu kringlukastskeppni en æfingafélagarnir köstuðu samtals fimm sinnum yfir 68 metra.
Þetta er í fyrsta sinn sem Pettersson verður sænskur meistari en hann hefur staðið örlítið í skugganum á Ólympíumeistaranum Ståhl undanfarin ár. Þetta er ennfremur í fyrsta sinn sem hann kastar yfir 70 metrana – draumavegalengd allra kringlukastara.
„Sjötíu metrarnir hafa verið draumur nokkuð lengi en það virtist ekki vera mjög raunsætt markmið þegar ég byrjaði að kasta kringlu. Eftir því sem árin hafa liðið hef ég fengið meiri og meiri trú á því. Og í dag gerðist það!” sagði Pettersson sigurreifur í viðtali við sænska frjálsíþróttasambandið eftir mótið.
Eftir nokkur vonbrigði á HM í Oregon þar sem Ståhl og Pettersson lentu í fjórða og fimmta sæti virðast félagarnir nú vera komnir í toppform. Þeir verða til alls líklegir á EM síðar í mánuðinum þar sem þeir munu m.a. etja kappi við okkar mann, Guðna Val Guðnason.
Roos vann gull daginn eftir að hafa sett landsmet
Þriðji lærisveinn Vésteins, kúluvarparinn Fanny Roos, varð einnig sænskur meistari. Hún keppti á demantamótinu í Silesia í Póllandi í gær, laugardag, þar sem hún lenti í fjórða sæti og bætti eigið landsmet þegar hún kastaði 19,42m. Hún var síðan mætt til Norrköping í dag, sunnudag, og varð sænskur meistari með miklum yfirburðum. Hún kastaði lengst 18,47m, rúmum metra lengra en næsti keppandi. Þetta var níunda skiptið í röð sem Roos verður sænskur meistari.
Roos hafnaði í 11. sæti á HM í Oregon í síðasta mánuði með kasti upp á 18,27m og vill örugglega gera betur á EM þar sem hún mun m.a. mæta okkar konu, Ernu Sóleyju Gunnarsdóttur. Svíinn á góða möguleika á verðlaunum á EM en kast hennar frá því í gær er það þriðja lengsta í Evrópu í ár.
Af öðrum úrslitum af mótinu má nefna að hin tvítuga Maja Åskag vann langstökk kvenna með 6,73m (+4,4) og vann þar með Khaddi Sagniu sem stökk 6,57m (+2,3). Hinn sextán ára William Trulsson vann 200 metra hlaup karla á 20,95s (+0,7). Lisa Lilja vann 200 metra hlaup kvenna á 23,14 sem er fimmti besti tími sem sænsk kona hefur náð í greininni. Thobias Montler vann langstökk karla með 7,87m (+1,4) og Carl Bengström varð sænskur meistari í 400 metra hlaupi á tímanum 46,06s. Ragnar Carlsson vann sleggjukast karla með 74,51m og Grete Ahlberg vann sleggjukast kvenna með 66,50m.
Öll úrslit mótsins má sjá hér.