Samveldisleikarnir: Amusan þaggaði niður í efasemdarrödunum

Tobi Amusan frá Nígeríu varð heimsmeistari í 100m grindahlaupi á HM í Oregon í síðasta mánuði. Hún hljóp frábærlega og bætti heimsmetið í greininni um átta hundraðshluta í undanúrslitunum þegar hún hljóp á tímanum 12,12s. Hún hljóp síðan aftur undir heimsmetinu í úrslitunum en þá var meðvindur of mikill til að tíminn væri gildur sem heimsmet.

Amusan bætti sinn persónulega árangur um alls 29 hundraðshluta á HM. En hún var ekki sú eina sem bætti sig mikið. Alls bættu tólf af 24 hlaupurum sinn besta árangur í undanúrslitunum og þar af settu fimm landsmet. Ein af þeim sem setti landsmet var hin breska Cindy Sember. Hún sagði í viðtali eftir hlaupið að hún hafi talið sig vera að hlaupa hægt þar til hún sá tímann. Allar þessar staðreyndir gerðu það að verkum að efasemdarraddir byrjuðu að heyrast um lögmæti heimsmets Nígeríukonunnar, þ.á.m. frá fyrrverandi heimsmethafanum í 200m og 400m hlaupum, Michael Johnson. Töldu mörg að eitthvað hefði jafnvel verið að tímatökubúnaðinum í Oregon. Við fórum vel yfir málið hérna á Silfrinu.

Amusan í ham í Birmingham

Í gær var Amusan mætt aftur á hlaupabrautina. Hún keppti á Samveldisleikunum í Birmingham þar sem hún var í miklum ham. Hún vann úrslitahlaupið örugglega á tímanum 12,30s og varði þar með titil sinn frá því fyrir fjórum árum. Þetta er frábær tími hjá Amusan, sérstaklega með það í huga að hlaupabrautin á Alexander leikvanginum í Birmingham er ekki talin sérstaklega hröð. Hlaupabrautin á Hayward Field, leikvanginum þar sem HM var haldið, er hins vegar talin ein af þeim hröðustu í heimi. Þá var mótvindur upp á 0,2 m/s í hlaupinu á Samveldisleikunum en í Oregon var meðvindur upp á 0,9 m/s. Oft er sú þumalputtaregla notuð að vindur upp á 0,1 m/s í bakið gefi um 0,01s betri tíma. Ef við notum regluna á hlaup Amusan þá jafngildir tíminn í Birmingham 12,18s í meðvindi upp á 0,9 m/s.

Þær Devyenne Charlton og Cindy Sember, sem báðar settu landsmet í Oregon, nældu í silfur og brons í Birmingham. Þær hlupu einnig mjög vel en Charlton var einungis tólf hundraðshlutum frá landsmeti sínu og Sember einungis níu hundraðshlutum frá sínu.

Það má því segja að úrslitin í Birmingham hafi í raun staðfest hröðu tímana í Oregon og að Amusan hafi þaggað niður í efasemdarröddunum. Nú getur fólk því endanlega hætt að velta sér upp úr því hvort eitthvað undarlegt hafi verið á seyði í Oregon.

Amusan varð tvöfaldur Samveldismeistari um helgina. Hér er hún með sigursveit Nígeríu í 4x100m. Mynd: Getty Images.

Nokkuð um óvænt úrslit

Samveldisleikunum er nú lokið og það má segja að nokkuð hafi verið um óvænt úrslit. Ástralinn Oliver Hoare varð til að mynda Samveldismeistari í 1500m hlaupi og sigraði hann bæði nýkrýndan heimsmeistara, Jake Wightman, og Keníumanninn Timothy Cheruiyot. Heimamaðurinn Matthew Hudson-Smith þurfti að gera sér silfrið að góðu í 400m hlaupinu en Muzala Samukonga frá Zambíu vann gullið. Keely Hodgkinson varð einnig að sætta sig við silfur á heimavelli í 800m hlaupinu en þar sigraði Mary Moraa frá Keníu. Silfursafn Hodgkinson stækkar því með hverju mótinu en hún á einnig silfur frá ÓL og HM.

Síður óvænt úrslit áttu sér stað í 200m hlaupunum þar sem Elaine Thompson-Herah og Jereem Richards unnu gull. Þá vann Laura Muir gull í 1500m og Katarina Johnson-Thompson vann gull í sjöþraut kvenna.

Nálgast má öll úrslit leikanna hér.