Íslendingar munu eiga þrjá keppendur á Evrópumeistaramótinu sem fram fer í München í Þýskalandi síðar í mánuðinum. FH-ingurinn Hilmar Örn Jónsson og ÍR-ingarnir Guðni Valur Guðnason og Erna Sóley Gunnarsdóttir munu öll spreyta sig á móti þeim bestu í álfunni. Guðni Valur var sá eini af þeim þremur sem náði lágmarki á mótið en hin tvö komust inn á mótið vegna góðrar stöðu á heimslistanum. ÍR-ingurinn Hlynur Andrésson náði lágmarki á mótið í maraþoni en ákvað að gefa sætið frá sér.
Evrópumótið hefst 15. ágúst og strax á fyrsta degi mun Erna Sóley keppa í undankeppni kúluvarpsins. Þeir Hilmar Örn og Guðni Valur munu svo keppa í undankeppnum í sínum greinum þann 17. ágúst. Þann 13. ágúst verður Bikarkeppni FRÍ haldin og munu þremenningarnir því missa af henni enda munu þau ferðast út til Þýskalands nokkrum dögum fyrir EM. Auk þess er yfirleitt ekki talið gott að keppa svo stuttu fyrir stórmót þar sem stefnan er að sjálfsögðu að vera í toppformi og úthvíld á stóra sviðinu.
Takmarkar möguleikana á stórmóti á næsta ári
Sú ákvörðun Frjálsíþróttasambandsins að halda Bikarkeppnina aðeins örfáum dögum fyrir EM getur takmarkað möguleika íþróttamannanna á því að komast á stórmót á næsta ári. Ákvörðunin hefur reyndar engin áhrif á Hilmar Örn þar sem ekki er keppt í sleggjukasti karla í Bikarkeppninni þetta árið (sem er önnur en ekki síður mikilvæg umræða sem þarf að taka innan frjálsíþróttahreyfingarinnar). Til að útskýra þetta nánar ætla ég að byrja á því að fara stuttlega yfir það hvernig íþróttafólk kemst inn á stórmót í frjálsum íþróttum.
Áður fyrr var það að ná lágmarki eina leiðin inn á stórmót (fyrir utan svokölluð wildcard sæti). Nú er hins vegar búið er að herða hressilega lágmörkin og fyllist einungis upp í hluta af keppendakvótanum með þeim íþróttamönnum sem ná lágmörkum. Fyllt er upp í restina af kvótanum með þeim íþróttamönnum sem eru hæstir á heimslista af þeim sem ekki ná lágmarki. Staða á heimslistanum skiptir því gríðarlega miklu máli þegar kemur að því að komast inn á stórmót.
Í stuttu máli ræðst staða á heimslista af þeim stigum sem íþróttamenn fá fyrir hvert mót sem þeir taka þátt í. Stigafjöldinn er tvíþættur, annars vegar árangursstig sem ráðast af árangri íþróttamannsins á viðkomandi móti og hins vegar sætastig sem ráðast af því sæti sem íþróttamaðurinn hafnar í á mótinu. Sætastigin eru mismunandi eftir mótum og ráðast af því hversu sterkt viðkomandi mót er. Öll mót eru flokkuð í styrkleikaflokka sem segja til um fjölda sætastiga sem í boði eru. Þannig gefur fyrsta sæti á heimsmeistaramótinu 350 stig en fyrsta sæti á Meistaramóti Íslands gefur 100 stig. Árangursstigin og sætastigin eru síðan lögð saman og þannig fæst sá heildarstigafjöldi sem íþróttamaðurinn fær fyrir viðkomandi mót. Meðaltal fimm stigahæstu móta íþróttamannanna síðastliðið ár er síðan notað til að raða upp heimslistanum. Áhugasöm geta lesið nánar um heimslistann hér.
En aftur að Bikarkeppni FRÍ. Hún er flokkuð í styrkleikaflokk E og gefur fyrsta sætið því 25 sætastig. Af þeim mótum sem haldin eru utanhúss á Íslandi er Meistaramót Íslands það eina sem flokkað er hærra. Ef við gefum okkur að ákveðinn íþróttamaður vinni sína grein í Bikarkeppninni og mótið væri eitt af fimm stigahæstu mótum hans það árið myndu þessi 25 stig gefa honum auka fimm stig á heimslistanum (þar sem meðaltal mótanna fimm gildir). Fimm stig hljóma kannski ekki mikið en heimslistinn er oft á tíðum afar jafn og getur því hvert stig skipt máli. Þegar þetta er ritað er Guðni Valur til að mynda í 34. sæti heimslistans í kringlukasti með 1155 stig. Væri hann með einu stigi meira myndi hann stökkva upp í 30. sæti listans. Af þessu sést að einungis eitt stig getur skilið á milli þess hvort íþróttamaður komist á stórmót eða ekki.

Það hefur sýnt sig að góður árangur í Bikarkeppni FRÍ hefur hjálpað íslensku íþróttafólki að komast á stórmót. Hilmar Örn komst til að mynda inn á HM í Oregon í ár vegna góðrar stöðu á heimslista og var Bikarkeppnin í fyrra eitt af þeim fimm mótum sem töldu til stiga hans á heimslistanum. Þá voru þrjú af fimm stigahæstu mótum hans í styrkleikaflokki E.

Bikarkeppnin er því gott tækifæri fyrir íslenskt frjálsíþróttafólk að ná hærri stöðu á heimslista og eiga þannig betri möguleika á því að komast inn á stórmót. En með því að halda keppnina í ár einungis örfáum dögum fyrir EM er búið að taka þetta tækifæri frá okkar besta frjálsíþróttafólki. Þetta getur því haft áhrif á möguleika þeirra á að komast inn á HM í Búdapest á næsta ári.
Hefur einnig áhrif á Bikarkeppnina sjálfa
Bikarkeppnin er annað tveggja stærstu móta sumarsins hér innanlands. Með því að takmarka þátttöku okkar fremsta íþróttafólks á mótinu tapast í leiðinni kjörið tækifæri til að fá aukna fjölmiðlaumfjöllun um frjálsíþróttamót á Íslandi. Ef Bikarkeppnin hefði til dæmis verið haldin 6. ágúst sl. hefði myndast frábært tækifæri til að fá góða umfjöllun um mótið enda hefðu Guðni Valur og Erna Sóley verið að keppa á sínu síðasta móti áður en þau halda út til Þýskalands á EM. Þess í stað kepptu þau á litlu móti á ÍR-vellinum sem fékk litla umfjöllun. Guðni Valur kastaði vel á mótinu eins og við á Silfrinu fjölluðum um.
En það er ekki einungis verið að takmarka möguleika Guðna Vals og Ernu Sóleyjar á að ná hærri stöðu á heimslistanum og glata góðu tækifæri á aukinni fjölmiðlaumfjöllun um frjálsar íþróttir. Þetta hefur einnig áhrif á Bikarkeppnina sjálfa. ÍR-ingar verða án tveggja af þeirra bestu íþróttamönnum og mun það draga úr möguleikum þeirra á að vinna Bikarmeistaratitilinn. Guðni Valur og Erna Sóley hafa náð bestum árangri Íslendinga í sínum greinum í ár og hefðu átt mjög góða möguleika á því að ná í fullt hús stiga fyrir sitt félag í keppninni. Eins og áður segir verður ekki keppt í sleggjukasti karla í Bikarkeppninni í ár og hefði Hilmar Örn því ekki getað unnið stig fyrir FH-inga í sinni bestu grein.
Ef við yfirfærum þetta yfir á aðra íþróttagrein er þetta sambærilegt við það að KSÍ hefði ákveðið að halda bikarúrslitaleik kvenna á sama tíma og Evrópumótið var í gangi í sumar og tveir leikmenn úr öðru bikarúrslitaliðanna væru í landsliðshópnum á EM á meðan hitt liðið gæti teflt fram sínu sterkasta liði. Að sjálfsögðu gerði KSÍ hlé á keppni hér innanlands á meðan EM var í gangi.
Þetta er ekki eina tilvikið á mótaskránni árið 2022 þar sem niðurröðun móta á vegum FRÍ kemur niður á íþróttafólkinu. Meistaramót Íslands 15-22 ára var til að mynda haldið á sama tíma og Ólympíuhátíð Evrópuæskunnar og misstu því fjórir af okkar bestu unglingum af stærsta mótinu hér innanlands fyrir þeirra aldurshóp.
Það getur auðvitað reynst erfitt verkefni að raða upp öllum mótum sumarsins þannig að engir árekstrar verði enda er um ótal mót að ræða og í mörg horn að líta. Það er þó von mín með þessum skrifum að mótaskrá næsta árs verði betur ígrunduð og passað verði upp á að árekstrar sem þessir eigi sér ekki stað aftur. Það er íþróttafólkinu og frjálsíþróttahreyfingunni allri fyrir bestu.
Fyrirvari: Höfundur þessarar greinar er frjálsíþróttamaður í ÍR og situr jafnframt í stjórn frjálsíþróttadeildar ÍR. Þessi grein er þó ekki rituð fyrir hönd frjálsíþróttadeildar ÍR og þær skoðanir sem hér koma fram eru alfarið persónulegar skoðanir höfundar.