Demantamótaröðin heldur áfram og í gærkvöldi var komið að Mónakó. Mótið er yfirleitt einn af hápunktum hvers tímabils enda er öllu tjaldað til og margar af stærstu stjörnum frjálsra íþrótta eru fastagestir á startlistanum. Mótið býður yfirleitt upp á góðan árangur enda er hlaupabrautin á leikvanginum, sem kenndur er við Loðvík II prins, talin ein af þeim hröðustu í heimi. Engin breyting var þar á í gærkvöldi en mæðurnar Faith Kipyegon og Shelly-Ann Fraser-Pryce skinu skærast.
Heiðarleg heimsmetstilraun Kipyegon
Kipyegon gaf það út fyrir mótið að hún ætlaði sér að slá heimsmet Genzebe Dibaba í 1500 metra hlaupi. Heimsmetið er 3:50,07 en fyrir mótið hafði Kipyegon hlaupið hraðast á 3:51,07 sem er fimmti besti tími sögunnar. Hún náði þeim tíma einmitt á sama móti í fyrra.
Kipyegon fylgdi tveimur hérum eftir fyrstu 900 metra hlaupsins. Þær fóru í gegnum fyrstu 400m á 59,89s og 800m á 2:01,64. Kipyegon fór síðan í gegnum 1200m á 3:04,73 og það var því ljóst að hún var í góðum séns á að slá met Diböbu. Hún hljóp síðasta hringinn á 61,27s og kom í mark á tímanum 3:50,37, einungis 30 hundraðshlutum úr sekúndu frá heimsmetinu sem er nú orðið sjö ára gamalt. Frábært hlaup hjá Kipyegon sem var grátlega nálægt markmiðinu. Tíminn er sá annar besti í sögunni en Kipyegon er tvöfaldur heims- og Ólympíumeistari í greininni og vilja mörg meina að hún sé sú besta sem hlaupið hefur vegalengdina frá upphafi.
Önnur í hlaupinu var Bandaríkjakonan Heather MacLean á tímanum 3:58,89. Landa hennar, Elise Cranny, varð þriðja á tímanum 3:59,06. Voru þær báðar að bæta sinn persónulega árangur.
Fraser-Pryce á besta tímabil sögunnar
Fraser-Pryce vann 100 metra hlaup kvenna örugglega. Hún hljóp vegalengdina á 10,62s (+0,4) sem er besti tíminn sem náðst hefur í greininni í ár. Fraser-Pryce hefur átt sitt besta tímabil til þessa en hún hefur alls hlaupið sex sinnum undir 10,7s í ár og er sú fyrsta í sögunni til að afreka það. Þetta var jafnframt í þriðja sinn á fimm dögum sem hún hleypur undir 10,7s. Shericka Jackson varð önnur í hlaupinu á nýju persónulegu meti (10,71s) og Marie-Jose Ta Lou þriðja á nýju Afríkumeti (10,72s). Hlaupið í gær var gífurlega hratt en þær sjö sem hlupu komu allar í mark á undir ellefu sekúndum. Tamara Clark varð sjöunda á 10,96s.
Frábær árangur á hlaupabrautinni
200 metra hlaup karla var stjörnum prýtt. Heimsmeistarinn Noah Lyles, heimsmethafi U20, Erriyon Knighton, heimsmeistarinn í 400m, Michael Norman, og bandaríski háskólameistarinn, Joseph Fahnbulleh, voru allir mættir á startlínuna. Það fór svo að Lyles vann hlaupið á tímanum 19,46s. Knighton varð annar á 19,84s og Norman þriðji á 19,95s.
Heimsmeistarinn Shaunae Miller-Uibo vann 400 metra hlaup kvenna á tímanum 49,28s. Jammaíkukonan Candice McLeod varð önnur á 49,87s og nýbakaður Samveldismeistari, Sada Williams, þriðja á 50,10s.
Thierry Ndikumwenayo frá Búrúndí vann óvænt 3000 metra hlaup karla. Hann kom í mark á tímanum 7:25,93 sem er bæting á hans besta tíma um heilar níu sekúndur. Tíminn er jafnframt landsmet og Demantamótaraðarmet. Berihu Aregawi varð annar á 7:26,81 sem er einnig bæting. Aregawi, sem gaf það út fyrir hlaupið að hann ætlaði að reyna við heimsmetið í greininni, byrjaði hlaupið afar hratt en náði ekki að halda út og missti Ndikumweayo fram úr sér á síðustu 100 metrunum. Bandaríkjamaðurinn Grant Fisher varð þriðji á nýju landsmeti, 7:28,48.
Heimsmeistarinn Grant Holloway vann 110 metra grindahlaup karla á 12,99s (+0,6), sem er besti tími hans á árinu. Silfurverðlaunahafinn á HM, Trey Cunningham, varð annar á 13,03s og Ólympíumeistarinn Hansle Parchemnt þriðji á 13,08s.
Af öðrum úrslitum má nefna að Mutaz Barshim vann hástökk karla með 2,30m. Yulimar Rojas vann þrístökk kvenna með 15,01m og Maykel Masso vann langstökk karla með 8,35m. Nina Kennedy vann stangarstökk kvenna með 4,66m og Kelsey-Lee Barber vann spjótkast kvenna með 64,50m.
Öll úrslit mótsins má nálgast hér.