Bikarkeppni FRÍ fer fram á ÍR-vellinum í Mjóddinni á morgun, laugardag. Búast má við skemmtilegri keppni en sex lið munu berjast um bikarmeistaratitilinn. Silfrið fékk tíu sérfræðinga til að spá í spilin fyrir keppnina og ef marka má spá þeirra munu FH-ingar og ÍR-ingar berjast um titilinn líkt og síðustu ár.
FH-ingar unnu þrefaldan sigur í Bikarkeppninni í fyrra, þ.e. í karla- og kvennaflokki og í heildarstigakeppninni. Gangi spá sérfræðinganna eftir munu FH-ingar verja alla þrjá titlana. ÍR-ingum er spáð öðru sætinu í karla- og kvennaflokki sem og í heildarstigakeppninni. Þá er Breiðablik spáð þriðja sætinu í bæði karla- og kvennaflokki og einnig í heildarstigakeppninni. Þó má búast við því að HSK/Selfoss geti blandað sér í baráttuna um þriðja sætið. Spá sérfræðinganna má sjá hér að neðan.
Kvennaflokkur
- FH-A 60 stig
- ÍR 50 stig
- Breiðablik 35 stig
- HSK/Selfoss 24 stig
- FH-B 20 stig
- Ármann 16 stig
Karlaflokkur
- FH-A 59 stig
- ÍR 51 stig
- Breiðablik 37 stig
- HSK/Selfoss 29 stig
- FH-B 18 stig
- Ármann 10 stig
Heildarstigakeppni
- FH-A 119 stig
- ÍR 101 stig
- Breiðablik 72 stig
- HSK/Selfoss 53 stig
- FH-B 38 stig
- Ármann 26 stig
Ath. stigin sem hér eru gefin upp eru ekki vænt stig liðanna í keppninni. Stigin ráðast af þeim sætum sem sérfræðingarnir spáðu liðunum í stigakeppninni en ekki í einstaka greinum.
Sérfræðingar Silfursins að þessu sinni voru:
- Agnes Erlingsdóttir, fyrrum landsliðskona í sprett- og grindahlaupum og millivegalengdum.
- Andri Fannar Gíslason, silfurverðlaunahafi á MÍ 2020 og 2021 í tugþraut.
- Ásdís Hjálmsdóttir, þrefaldur Ólympíufari og Íslandsmethafi í spjótkasti.
- Fjóla Signý Hannesdóttir, fyrrum landsliðskona í sprett- og grindahlaupum og sjöþraut.
- Glódís Edda Þuríðardóttir, landsliðskona í sprett- og grindahlaupum og sjöþraut.
- Ísak Óli Traustason, landsliðsmaður í tugþraut.
- Kári Steinn Karlsson, Ólympíufari í maraþoni og Íslandsmethafi í 5000m hlaupi innanhúss.
- Sigurbjörn Árni Arngrímsson, fyrrum landsliðsmaður í millivegalengdum.
- Tóta Erlingsdóttir, fyrrum landsliðskona í spretthlaupum.
- Þorkell Stefánsson, Íslandsmethafi í 400m hlaupi í 35-39 ára flokki.
Fróðlegt verður að sjá hvort spá sérfræðinganna muni ganga eftir á morgun. Keppnin hefst með 110m grindahlaupi karla kl. 13:00 og lýkur með 1000m boðhlaupi kvenna sem er á dagskrá kl 16:00. Í kjölfarið verða bikarmeistarar árið 2022 krýndir. Tímaseðil, keppendalista og úrslit má finna hér.
Silfrið hvetur að sjálfsögðu öll til þess að mæta í Mjóddina á morgun til að fylgjast með þessari spennandi keppni.