Bikarkeppni FRÍ: FH varði titilinn og Elísabet setti mótsmet

Bikarkeppni FRÍ fór fram á ÍR-vellinum í gær. Fyrirfram var búist við öruggum sigri FH-inga og varð það raunin. FH-ingar urðu bikarmeistarar með 110 stig og vörðu þar með titil sinn frá því í fyrra. ÍR-ingar höfnuðu í öðru sæti með 90 stig og Breiðablik í því þriðja 75 stig. Hafnfirðingar unnu stigakeppnina bæði í karla- og kvennaflokki og urðu þannig þrefaldir bikarmeistarar.

ÍR-ingurinn Elísabet Rut Rúnarsdóttir vann sleggjukast kvenna með miklum yfirburðum og nældi þar með í sex stig fyrir lið sitt. Hún kastaði 60,94m strax í fyrstu umferð og bætti þar með mótsmet Vigdísar Jónsdóttur frá árinu 2019 um tæpa tvo metra. Elísabet lét þetta eina kast duga og sleppti síðustu fimm umferðunum. Elísabet hefur átt frábært tímabil og bætti m.a. eigið Íslandsmet þegar hún kastaði 65,35m á móti í Þýskalandi í júní. Álfrún Diljá Kristínardóttir úr HSK/Selfoss hafnaði í öðru sæti í sleggjukastskeppninni með kasti upp á 44,13m og FH-ingurinn Hera Christensen varð þriðja á nýju persónulegu meti, 41,25m.

FH-ingurinn Irma Gunnarsdóttir var sú eina sem vann tvær einstaklingsgreinar á mótinu. Hún vann langstökk kvenna með stökki upp á 5,82m og kúluvarp kvenna með kasti upp á 12,92m. Hún halaði þar með inn heilum 12 stigum fyrir FH-inga.

Irma Gunnarsdóttir í langstökkinu. Mynd: FRÍ.

Dagbjartur Daði Jónsson úr ÍR vann spjótkast karla örugglega með kasti upp á 76,61m. Gömlu kempurnar Örn Davíðsson úr HSK/Selfoss og Guðmundur Hólmar Jónsson úr FH urðu í öðru og þriðja sæti. Örn kastaði lengst 67,15m og Guðmundur 59,68m. Virkilega gaman að sjá þessa kappa keppa.

FH-ingurinn Kolbeinn Höður Gunnarsson vann 100m hlaup karla á 10,72s (+0,3). Sæmundur Ólafsson úr ÍR varð annar á 11,33s og Daði Lár Jónsson úr B-liði FH þriðji á 11,37s. Júlía Kristín Jóhannesdóttir úr Breiðabliki vann 100m hlaup kvenna á 12,65s (+0,6). Melkorka Rán Hafliðadóttir úr FH varð önnur á 12,79s og ÍR-ingurinn Silja Björg Kjartansdóttir þriðja á 12,96s.

Sæmundur og Kolbeinn höfðu sætaskipti í 400m hlaupinu. Sæmundur vann á tímanum 49,03s sem er stór bæting en hann átti best 49,70s fyrir hlaupið. Kolbeinn varð annar á 50,17s og Aron Ingi Sævarsson úr Breiðablik þriðji á 52,19s sem er persónuleg bæting. Ísold Sævarsdóttir úr FH vann 400m hlaup kvenna á 56,89s sem er bæting hjá henni um rúma sekúndu utanhúss. ÍR-ingurinn Ingibjörg Sigurðardóttir varð önnur á 59,84s og Sara Kristín Lýðsdóttir úr B-liði FH varð þriðja á 64,28s.

Sæmundur og Kolbeinn í 400m hlaupinu. Mynd: FRÍ.

Sindri Magnússon vann 800m hlaup karla á tímanum 2:01,27 sem er persónulegt met. Vel gert hjá Sindra sem æfir fyrir tugþraut og er ekki þekktur fyrir að hlaupa 800m. FH-ingurinn Hlynur Ólason varð annar á 2:02,26 og ÍR-ingurinn Jökull Bjarkason þriðji á 2:02,98 sem er bæting. Elín Sóley Sigurbjörnsdóttir úr FH vann 800m hlaup kvenna á 2:17,46. Sara Mjöll Smáradóttir úr ÍR varð önnur á 2:24,28 og Þórhildur Hafsteinsdóttir úr HSK/Selfoss þriðja á nýju persónulegu meti, 2:35,97.

Karen Sif Ársælsdóttir úr Breiðablik vann stangarstökk kvenna. Hún stökk hæst 3,55m sem er bæting hjá henni um 5 sentímetra. Hilda Steinunn Egilsdóttir úr FH varð önnur með 2,73m og Dóra Fríða Orradóttir úr ÍR þriðja með 2,43m.

Af öðrum úslitum má nefna að FH-ingurinn Valur Elli Valsson vann 3000m hlaup karla á 9:24,64 og Helga Guðný Elíasdóttir úr ÍR vann 3000m hlaup kvenna á 11:12,92. FH-ingurinn Guðmundur Heiðar Guðmundsson vann 110m grindahlaup karla á tímanum 15,64. Hann var einungis sjö þúsundustu úr sekúndu á undan ÍR-ingnum Árna Hauki Árnasyni. María Rún Gunnlaugsdóttir úr FH vann 100m grindahlaup kvenna á tímanum 14,79. Þá vann Mímir Sigurðsson úr FH kringlukast karla með kasti upp á 55,56m og Daníel Ingi Egilsson, einnig úr FH, vann þrístökkið með 14,40m. Liðsfélagi þeirra, Elías Óli Hilmarsson, stökk hæst allra í hástökki karla, 1,88m.

Síðustu greinar mótsins voru 1000m boðhlaup karla og kvenna. Yfirleitt er mikil spenna fyrir boðhlaupin en FH-ingar höfðu tryggt sér bikarmeistaratitilinn fyrir hlaupin og því um lítið að keppa annað en heiðurinn. Það fór svo að ÍR-ingar unnu boðhlaupið karlamegin en FH-ingar kvennamegin.

Hér að neðan má sjá úrslit stigakeppninnar.

Heildarstigakeppni

 1. FH-A 110 stig
 2. ÍR 90 stig
 3. Breiðablik 75 stig
 4. HSK/Selfoss 50 stig
 5. FH-B 43 stig
 6. Ármann 33 stig

Kvennaflokkur

 1. FH-A 55 stig
 2. ÍR 44 stig
 3. Breiðablik 37 stig
 4. HSK/Selfoss 29 stig
 5. FH-B 19 stig
 6. Ármann 13 stig

Karlaflokkur

 1. FH-A 55 stig
 2. ÍR 46 stig
 3. Breiðablik 38 stig
 4. FH-B 24 stig
 5. HSK/Selfoss 21 stig
 6. Ármann 20 stig

Til gamans má geta að sérfræðingar Silfursins spáðu rétt fyrir um úrslit heildarstigakeppninnar og kvennakeppninnar. Í karlakeppninni spáðu þau HSK/Selfossi fjórða sætinu og FH-B því fimmta. Spá sérfræðinganna má sjá hér.