Erna Sóley: „Það væri mjög gaman að koma með annað gott 17 metra kast“

Evrópumeistaramótið í München hefst á morgun, mánudag. Strax á fyrsta degi eigum við Íslendingar einn keppenda, ÍR-inginn Ernu Sóleyju Gunnarsdóttur, sem mun keppa í undankeppni kúluvarps kvenna. 

Þrátt fyrir að vera enn ung að árum er Erna besti kúluvarpari sem við Íslendingar höfum alið og á hún Íslandsmet kvenna í kúluvarpi bæði innan- og utanhúss. Hún er gífurlega efnileg og vann til að mynda brons á Evrópumeistaramóti 19 ára og yngri árið 2019 og gull á Norðurlandamóti 22 ára og yngri í ár. Þetta verður fyrsta stórmót Ernu í fullorðinsflokki og við fengum að heyra í henni hljóðið fyrir keppni morgundagsins. 

„Ég er mjög ánægð að geta fengið að vera með á svona flottu móti. Markmiðið í byrjun tímabilsins var að komast á þetta mót og það er frábært að enda tímabilið hérna,“ sagði Erna aðspurð um hvernig tilfinningin væri að vera komin á EM.

Erna hefur átt frábært tímabil í ár en hún bætti eigið Íslandsmet um rúman hálfan metra á Texas Relays mótinu í mars þegar hún kastaði 17,29m. Hún varð þá fyrsta íslenska konan til að varpa kúlunni lengra en 17 metra og hefur nú gert það alls fimm sinnum. „Ég er ánægð með hversu stöðug ég var yfir 17m og sátt með að hafa náð yfir 17 metra fimm sinnum. Mér finnst ég samt eiga inni stóra kastið og hef aldrei lent í því áður að eiga lengra kast á æfingu heldur en á móti.“

Erna Sóley varð Norðurlandameistari 22 ára og yngri fyrr í sumar. Mynd: FRÍ.

Erna stundar nám og keppir fyrir Rice-háskólann í Houston, Texas. „Mér finnst frábært að vera úti í Bandaríkjunum. Þar er mjög góð æfingaaðstaða og gott utanumhald,“ sagði Erna sem hefur átt langt og strangt tímabil eins og oft vill verða hjá íþróttafólki sem keppir fyrir háskóla í Bandaríkjunum. „Ég byrjaði innanhússtímabilið í lok janúar og er eiginlega búin að vera stanslaust að keppa síðan þá. Ég reyndi að keppa ekki of oft en það er erfitt að keppa ekki þegar maður er í góðu formi. Það getur verið erfitt að halda fókus og ég var nokkuð líkamlega búin á því í júní. En andlega er þetta tímabil búið að vera mjög gott. Á næsta ári mun ég passa mig á að keppa ekki of oft og halda mér góðri fyrir sumarið.“

Erna hefur glímt við leiðinleg meiðsli í úlnlið í sumar en er búin að jafna sig að mestu á þeim og er tilbúin fyrir keppni morgundagsins. „Æfingar hafa gengið nokkuð vel og lyftingar búnar að ganga mjög vel. Líkamlega formið er mjög gott og ég er loksins farin að jafna mig á meiðslunum í úlnliðnum.“

Erna komst inn á EM vegna góðrar stöðu á Evrópulistanum en hún situr þar í 32. sæti. „Ég geri mér alveg grein fyrir því að ég er með síðustu manneskjum að komast inn á mótið og næstum allar eiga lengra kast en ég. En ég veit alveg að ég mun komast á svona mót aftur og reynslan að geta keppt er ómetanleg,“ sagði Erna um möguleika sína á mótinu. Hún er 22 ára og verður meðal yngstu keppenda í kúluvarpinu á EM. Einungis Pinar Akyol frá Tyrklandi og Axelina Johansson frá Svíþjóð eru yngri. „Stóra markmiðið er að halda haus, hafa gaman, negla á það og gera mitt allra besta. Það væri líka mjög gaman að koma með annað gott 17 metra kast.“ 

Erna Sóley fagnar bronsinu á EM U20 í Borås 2019. Mynd: FRÍ.

Þetta verður síðasta mót Ernu á tímabilinu og mun hún fá kærkomið frí eftir mótið. Kúluvarparinn efnilegi er þó hvergi nærri hætt. „Ég klára tímabilið núna og mun sakna þess að keppa. Ég elska ennþá þessa íþrótt og get ekki beðið eftir að gera þetta aftur á næsta ári.“

Eins og áður sagði mun Erna keppa í undankeppni kúluvarpsins á morgun, mánudag. Keppnin hefst kl. 9:20 á íslenskum tíma og er Erna 7. í kaströðinni í kasthópi B. RÚV mun sýna beint frá keppninni og hefst útsending kl 8:25 í fyrramálið.

Silfrið óskar Ernu góðs gengis á mótinu og hvetur öll til þess að fylgjast með keppninni á morgun.