Site icon Frjálsíþróttavefurinn Silfrið

EM í München: Can bar sigur úr býtum í 10.000m hlaupinu

Keppt var til úrslita í 10.000m hlaupi á EM í München í kvöld. Tyrkinn Yasemin Can sigraði í hlaupinu og varð Evrópumeistari í þriðja sinn en fyrir átti hún gull í 5.000m og 10.000m hlaupum frá EM í Amsterdam 2016. Bretinn Eilish McColgan varð önnur í hlaupinu og eru þetta önnur silfurverðlaun McColgan á Evrópumeistaramóti en hún vann silfur í 5.000m hlaupi á EM í Berlín 2018. Ísraelinn Lonah Chemtai Salpeter fékk bronsið en hún varð Evrópumeistari í greininni í Berlín 2018.

McColgan leiddi hlaupið framan af. Hún hélt uppi góðum og stöðugum hraða í kringum 3:03/km. Einungis Can, Salpeter og heimakonan Konstanze Klosterhalfen náðu að halda í við hana. Þegar um sjö hringir voru eftir af hlaupinu setti Can í annan gír og náði um 20 metra forskoti á hinar þrjár á skömmum tíma. McColgan og Salpeter reyndu hvað þær gátu að halda bilinu sem minnstu en Klosterhalfen náði ekki að svara og dróst aftur úr. Can hélt forystunni allt til enda og kom í mark á tímanum 30:32,57. McColgan reyndist sterkari en Salpeter og sleit sig frá henni þegar um 200 metrar voru eftir. McColgan kom í mark á tímanum 30:41,05 en Salpeter setti nýtt landsmet, 30:46,37. Klosterhalfen endaði fjórða á 31:05,21.

Exit mobile version