EM í München: Erna Sóley kastaði 16,41m og hafnaði í 22. sæti

Evrópumeistaramótið hófst í morgun á Ólympíleikvanginum í München. Erna Sóley Gunnarsdóttir þreytti þá frumraun sína á stórmóti þegar hún keppti í undankeppni kúluvarps kvenna.

Erna byrjaði kepnnina með 15,89m í fyrstu umferð. Hún lengdi sig síðan í 16,41m í annarri umferð en gerði ógilt í þeirri þriðju. Hún hafnaði í 22. sæti af þeim 25 sem mættar voru til keppni. Flott frumraun hjá Ernu á stórmóti.

Tólfta kona inn í úrslitin kastaði 17,33m en Íslandsmet Ernu er 17,29m. Hún á því vel heima meðal þeirra bestu í álfunni. Portúgalinn Auriol Dongmo kastaði lengst allra í undankeppninni, 19,32m. Fanny Roos, sem þjálfuð er af Vésteini Hafsteinssyni, kastaði 17,79m og var áttunda inn í úrslitin sem fara fram í kvöld kl. 18:38 á íslenskum tíma.

Heildarúrslit kúluvarpskeppninnar má sjá hér.

Til gamans má geta að Erna er fyrsta íslenska konan til að keppa í kúluvarpi á Evrópumeistaramóti en góða yfirferð Gunnars Páls Jóakimsson um íslenska þátttakendur á EM má sjá hér.