EM í München: Lisowska og Ringer tóku fyrstu gullin

Evrópumeistaramótið í München hófst í dag. Nú þegar hafa tveir Evrópumeistarar verið krýndir en maraþon karla og kvenna fóru fram í morgun. Hlaupið var um götur München-borgar fram hjá mörgum af helstu kennileitum borgarinnar.

Pólverjinn Aleksandra Lisowska sigraði í kvennahlaupinu á tímanum 2:28:36 og heimamaðurinn Richard Ringer kom fyrstur í mark í karlahlaupinu á tímanum 2:10:21. Bæði hlaupin voru afar spennandi.

Lisowska náði nokkurra sekúndna forystu í kvennahlaupinu þegar um tveir kílómetrar voru eftir og hélt forystunni allt til loka. Marea Parlov Kostro frá Króatíu kláraði hlaupið afar vel og náði að saxa á forskot Lisowsku á lokakílómetranum en forskotið reyndist of mikið. Kostro kom önnur í mark einungis sex sekúndum á eftir Lisowsku. Hollendingurinn Nienke Brinkman og heimakonan Miriam Dattke börðust um bronsið allt til loka. Þær komu á sama tíma í mark, 2:28:52, en Brinkman var dæmd sjónarmun á undan. Svekkjandi fyrir Dattke en henni til huggunar fékk hún gull í liðakeppninni með löndum sínum en þær Domenika Mayer og Deborah Schöneborn höfnuðu í sjötta og tíunda sætinu í hlaupinu. Liðakeppnin virkar þannig að samanlagður tími þriggja efstu frá hverju landi gildir en allar þær sem hefja hlaupið frá þeim löndum sem eru í efstu þremur sætunum fá þó verðlaun.

Þetta er ótrúlegur árangur hjá Brinkman, sem er 28 ára gömul en byrjaði að æfa hlaup fyrir aðeins þremur árum. Hún hljóp sitt fyrsta maraþon í Valencia í fyrra og náði tímanum 2:26:34. Hún bætti síðan hollenska metið í Rotterdam maraþoninu fyrr á árinu þegar hún hljóp á 2:22:51 og náði öðru sæti.

Heimakonur hrósuðu sigri í liðakeppni maraþons kvenna. Spánverjar höfnuðu í öðru sæti og Pólverjar í því þriðja. Mynd: Evrópska frjálsíþróttasambandið.

Í karlahlaupinu átti heimamaðurinn Ringer rosalegan endasprett og tók fram úr Ísraelanum Maru Teferi þegar einungis um 50 metrar voru eftir af hlaupinu. Teferi kom í mark einungis tveimur sekúndum á eftir Ringer. Landi Teferi, Gashau Ayale, kom þriðji í mark á tímanum 2:10:29. Teferi og Ayele fengu tvenn verðlaun hvor þar sem Ísraelar unnu liðakeppni karla en landi þeirra Yimer Getahun hafnaði í sjöunda sætinu í hlaupinu.

Þess má geta að Hlynur Andrésson náði lágmarki á EM í maraþoni en hann ákvað að gefa sæti sitt frá sér og hljóp því ekki í dag.