EM í München: Schilder og Mihaljevic Evrópumeistarar í kúluvarpi

Fyrsta degi Evrópumeistaramótsins í München er nú lokið. Keppt var til úrslita í kúluvarpi kvenna og karla í mikilli stemningu á Ólympíuleikvanginum.

Hollendingurinn Jessica Schilder varð Evrópumeistari í kúluvarpi kvenna eftir frábæra keppni og bætti þar með gulli við bronsið sem hún hlaut á HM í síðasta mánuði. Schilder setti nýtt hollenskt met þegar hún kastaði 20,24m í annarri umferð. Þetta er í fyrsta sinn sem Schilder brýtur 20 metra múrinn og kastið er jafnframt það lengsta í Evrópu í ár. Sú sem komst næst Schilder í keppninni var Portúgalinn Auriol Dongmo. Hún setti einnig landsmet þegar hún varpaði kúlunni 19,82m í annarri umferð keppninnar. Landa Schilder, Jorinde van Klinken, varð þriðja með kasti upp á 18,94m og kom það einnig í annarri umferð. Þetta var bæting hjá henni um 24 sentímetra. Van Klinken keppti í undankeppni kringlukastsins fyrir úrslitin í kúluvarpinu þar sem hún átti sjöunda lengsta kastið og komst áfram í úrslitin. Það virtist þó ekki hafa áhrif á hana í kúluvarpinu. Svíinn Fanny Roos varð að láta sér fjórða sætið að góðu en hún kastaði lengst 18,55m.

Í kúluvarpi karla bar Króatinn Filip Mihaljevic sigur úr býtum með kasti upp á 21,88m. Lengsta kast hans kom í síðustu umferð en hann hafði þegar tryggt sér Evrópumeistaratitilinn. Króatinn átti einnig annað lengsta kast keppninnar en það kom í fjórðu umferð og mældist 21,53m. Serbinn Armin Sinancevic vann silfur með 21,39m og Tékkinn Tomas Stanke bronsið með 21,26m.