EM í München: Lückenkemper vann á heimavelli og Jacobs jafnaði mótsmetið

Öðrum degi Evrópumeistaramótsins í München er nú lokið. Keppt var til úrslita í fimm greinum auk þess sem úrslitin réðust í tugþrautinni. Hápunktur kvöldsins voru 100m hlaup karla og kvenna.

Þýskur sigur á heimavelli

Í 100m hlaupi kvenna átti Bretinn Daryll Neita besta tímann í undanúrslitunum (10,95s). Svisslendingurinn Mujinga Kambundji átti annan besta tímann (11,05s) og heimakonan Gina Lückenkemper þann þriðja besta (11,11s). Bretinn Dina Asher-Smith, sem átti titil að verja, var ekki mjög sannfærandi í undanúrslitunum en vann engu að síður sinn riðil á 11,15s.

Í úrslitahlaupinu snérist röð þeirra þriggja efstu úr undanúrslitunum við. Lückenkemper vann óvænt á tímanum 10,99s (+0,1), Kambundji varð önnur einungis fimm þúsundustu úr sekúndu á eftir Þjóðverjanum og Neita endaði þriðja á 11,00s. Gífurlega jafnt og spennandi hlaup. Kambundji leiddi nánast allt hlaupið og virtist ætla að sigra örugglega þegar um 20 metrar voru eftir. Neita og Lückenkemper enduðu hlaupið hins vegar mjög vel, sú þýska henti sér best fram á marklínunni og stal gullinu.

Þetta er fyrsta gull Lückenkemper á EM en fyrir átti hún silfur í 100m og brons í 4x100m frá Berlín 2018 og brons í 200m og 4x100m frá Amsterdam 2016. Að vonum brutust út mikil fagnaðarlæti á Ólympíuleikvanginum í München þegar ljóst var að heimakonan hafði tekið gullið. Kambundji, sem átti fyrir brons í 100m frá EM í Amsterdam 2016, átti hins vegar erfitt með að leyna vonbrigðum sínum eftir hlaupið. Það sama átti við um Neitu sem vann sitt annað brons á tímabilinu en hún varð einnig þriðja á Samveldisleikunum fyrr í mánuðinum eftir að hafa hlaupið hraðast allra í undanúrslitunum líkt og í München.

Asher-Smith meiddist því miður í hlaupinu og kom síðust í mark. Þetta er þriðja stórmótið í röð sem hún meiðist en hún þurfti að draga sig úr keppni á Ólympíuleikunum í fyrra auk þess sem hún meiddist í boðhlaupinu á HM í Oregon. Vegna meiðslanna mætti hún ekki til keppni á Samveldisleikana. Hún virðist ekki hafa verið búin að ná sér að fullu af meiðslunum sem hún hlaut í Oregon enda einungis um þrjár vikur síðan.

Jacobs kom, sá og sigraði

Ólympíumeistarinn Lamont Marcell Jacobs hefur verið að glíma við meiðsli aftan í læri í allt sumar og neyddist til að draga sig úr keppni á HM í síðasta mánuði. Hann var þó mættur til München og virtist vera orðinn góður af meiðslunum. Hann hljóp hraðast allra í undanúrslitunum í kvöld á sínum besta tíma í ár (10,00s). Bretarnir Zharnel Hughes (10,03s) og Reece Prescod (10,10s) komu þar á eftir.

Í úrslitahlaupinu héldu Jacobs engin bönd og hann kom í fyrstur í mark á tímanum 9,95s (+0,1). Hann jafnaði þar með meistaramótsmet Hughes frá því í Berlín 2018. Þetta var jafnframt í fyrsta sinn á tímabilinu sem Jacobs hleypur undir 10 sekúndur en Evrópumet hans frá því á ÓL í fyrra er 9,80s. Umræddur Hughes varð annar í hlaupinu á 9,99s og landi hans Jeremiah Azu, sem var sjöundi inn í úrslitin, nældi í bronsið á persónulegu meti, 10,13s. Prescod sem hafði hlaupið hraðast allra Evrópubúa á tímabilinu (9,93s) kom sjöundi í mark á 10,18s.

Þetta er fyrsti Evrópumeistaratitill Jacobs sem vantar nú einungis heimsmeistaratitil utanhúss til að fullkomna verðlaunasafn sitt en hann á nú gull frá EM utanhúss, EM innanhúss, HM innanhúss auk tvennra gullverðlauna frá ÓL.

Hér að neðan má finna fleiri fréttir frá EM í München.