EM í München: Perkovic vann sjötta gullið, Ingebrigsten varði titilinn og Tentoglou setti mótsmet

Annar dagur Evrópumeistaramótsins í München er nú að kvöldi kominn. Dagurinn var hrein skemmtun frá morgni til kvölds. Sandra Perkovic vann sín sjöttu gullverðlaun í kringlukasti, Jakob Ingebrigsten varði titil sinn í 5.000m hlaupi og Miltiadis Tentoglou bætti meistaramótsmetið í langstökki.

Heimamenn áttu frábæran dag og unnu til alls fernra verðlauna. Gina Lückenkemper vann gull í 100m hlaupi kvenna og Niklas Kaul vann gull í tugþraut. Þá unnu Kristin Pudenz og Claudine Vita silfur og brons í kringlukasti kvenna.

Perkovic engri lík

Kringlukastskeppni kvenna var afar spennandi og skiptist forystan oft á milli kvenna. Eftir fyrstu umferðina var Hollendingurinn Jorinde van Klinken í fyrsta sætinu með kasti upp á 64,03m. Van Klinken vann brons í kúluvarpi í gær og stefndi því á sín önnur verðlaun á mótinu. Í annarri umferð tók kringlukastsdrottningin Sandra Perkovic forystu með 65,77m og heimakonan Kristin Pudenz skaust upp í annað sætið með 65,05m. Í þeirri þriðju tók Pudenz forystuna af Perkovic þegar hún kastaði 66,93m. Landa Pudenz, Claudine Vita, kastaði 65,20m og fór fram úr van Klinken upp í þriðja sætið.

Í fimmtu umferð endurheimti Perkovic forystuna með kasti upp á 67,95m. Pudenz svaraði vel strax í næsta kasti þegar hún setti persónulegt met, 67,87m, en vantaði einungis átta sentímetra upp í fyrsta sætið. Van Klinken lengdi sig einnig, hún kastaði 64,43m en sat sem fastast í fjórða sætinu. Í sjöttu og síðustu umferðinni náði engin þeirra að lengja sig og vann Perkovic því gullið. Heimakonurnar Pudenz og Vita hlutu silfur og brons við mikinn fögnuð heimamanna en van Klinken varð að sætta sig við fjórða sætið.

Pudenz, Perkovic og Vita fagna verðlaunum sínum. Mynd: Evrópska frjálsíþróttasambandið.

Á EM í Berlín 2018 varð Perkovic sú fyrsta í sögunni til þess að vinna fimm gull á EM í einni og sömu einstaklingsgreininni. Nú er hún sú fyrsta til að vinna sex gull. Frábær árangur hjá Króatanum sem er einungis 32 ára gömul og gæti átt nokkur góð ár eftir.

Ingebrigsten sýndi styrk sinn

Jakob Ingebrigsten vann tvenn gullverðlaun á EM í Berlín 2018. Hann var þá sá yngsti í sögunni til að vinna bæði 1500m og 5.000m hlaupin. Hann stefnir á að endurtaka leikinn núna í München og í kvöld var komið að 5.000m hlaupinu.

Hlaupið byrjaði nokkuð rólega og voru flestir hlaupararnir í einum hnapp framan af. Þegar um þrír hringir voru eftir af hlaupinu byrjaði Norðmaðurinn að keyra upp hraðann. Hann keyrði hraðann hægt og rólega upp og sleit hópinn í sundur. Spánverjinn Mohamed Katir var sá eini sem hélt í við Ingebrigsten og þeir voru jafnir þegar 200 metrar voru eftir. Ingebrigsten reyndist sterkari á lokametrunum og kom fyrstur í mark á 13:21,13. Hann á því enn möguleika á því að vinna tvennuna í annað sinn.

Katir kom í mark á tímanum 13:22,98 og fékk silfur. Bronsið hlaut Ítalinn Yemaneberhan Crippa en hann kom í mark á tímanum 13:24,83. Svíinn Andreas Almgren gerði vel og kom fjórði í mark á nýju persónulegu meti, 13:26,48.

Tentoglou í algjörum sérflokki

Í langstökki karla sigraði Ólympíumeistarinn Miltiadis Tentoglou með miklum yfirburðum. Hann gerði ógilt í fyrstu umferð en tók forystuna í þeirri annarri með stökki upp á 8,23m. Hann lengdi sig síðan í 8,35m í þriðju umferð og aftur í 8,52m í þeirri fjórðu. Hann bætti þar með meistaramótsmet Þjóðverjans Christian Reif sem staðið hafði frá árinu 2010 um fimm sentímetra. Enginn komst nálægt Grikkjanum og hann varði þar með titil sinn frá Berlín.

Svíinn Thobias Montler nældi í silfur með stökki upp á 8,06m í síðustu umferð. Þetta eru fyrstu verðlaun Svíans á EM utanhúss en hann á tvenn silfurverðlaun frá EM innanhúss. Frakkinn Jules Pommery fékk bronsið, hann stökk einnig 8,06m en átti styttra annað legnsta stökk en Montler. Þetta eru fyrstu verðlaun Frakkans á stórmóti.

Hér að neðan má finna fleiri fréttir frá EM í München.