Guðni Valur: „Ég veit að ég á löng köst inni“

Evrópumeistaramótið heldur áfram á Ólympíuleikvanginum í München á morgun. Þá munu þeir Guðni Valur Guðnason og Hilmar Örn Jónsson keppa í undankeppnum í sínum greinum. Guðni mun keppa í undankeppni kringlukastsins og við fengum að heyra í honum fyrir keppni morgundagsins.

„Tilfinningin er mjög góð að vera að fara að keppa í München. Þetta er auðvitað minna af tveimur stórmótunum sem voru í ár en það var alltaf planið að fara á EM og gera eitthvað gott þar. Kringlan er ein af þeim greinum þar sem mestmegnið af bestu kösturum heims koma frá Evrópu svo það er í raun jafn erfitt að vinna EM sem og HM eða ÓL,“ sagði Guðni sem er að fara að keppa á sínu þriðja Evrópumeistaramóti. 

Tímabilið fór vel af stað hjá Guðna en hann kastaði 64,87m á Selfoss Classic mótinu strax í maí. „Tímabilið byrjaði þokkalega vel en síðan fékk ég Covid í byrjun júní. Ég veiktist í raun ekki mikið, var bara veikur í um tvo eða þrjá daga en síðan héldu einkennin áfram í einhverjar vikur eftir það og komu og fóru eins og þeim hentaði. Í framhaldi af því kastaði ég bara frekar illa. Núna er ég nýfarinn að kasta stöðugt vel bæði á æfingum og mótum en það var bara ein og ein æfing í júní sem datt inn á að vera góð.“

Guðni komst ekki inn á HM sem fram fór í Oregon í júlí. „Það voru mjög mikil vonbrigði að komast ekki á HM. Sérstaklega þar sem ég náði ekki að komast á HM U20 í Eugene 2014 og var mikið búið að hlakka til að komast til Eugene í ár. En það hafðist ekki.“

Guðni er hins vegar klár í slaginn fyrir EM. „Æfingarnar hafa gengið mjög vel og ég er vel stemmdur fyrir EM. Formið er allt að koma til og ég hef loksins verið að kasta vel núna í lok júlí og byrjun ágúst,“ sagði Guðni sem náði sínu lengsta kasti á árinu til þessa í byrjun júlí þegar hann kastaði 65,27m á móti í Kaplakrika. Hann kastaði síðan 64,37m á móti á ÍR-vellinum þann 6. ágúst sl. 

Síðasta stórmótið sem Guðni keppti á voru Ólympíuleikarnir í Tókýó. Þar voru engir áhorfendur leyfðir vegna faraldursins en sú verður ekki raunin í München. „Það verður gaman að keppa aftur á stórmóti með áhorfendum þar sem mér finnst þeir vera stór partur af pressunni og adrenalíninu sem er svo skemmtilegt á stórmótum.“

Guðni í hringnum í Tókýó. Mynd: Getty/Patrick Smith.

Guðni Valur á 14. lengsta kast Evrópubúa á árinu en tólf komast áfram í úrslitin á morgun. Hann á því góða möguleika á að komast áfram ef allt gengur upp. „Markmiðið er að kasta miðað við form og fara inn í úrslit, síðan gera mitt besta til að stríða efstu mönnum. Ég veit að ég á löng köst inni og ég verð bara að sýna það, ég er í góðu formi og vonandi verður þetta góður dagur líka,“ sagði Guðni um möguleika sína á mótinu. 

Guðni er sjöundi í kaströðinni í kasthópi B og hefst keppni kl. 11:35 á íslenskum tíma. Keppnin verður í beinni útsendingu á RÚV og hefst útsending kl. 7:30.

Silfrið óskar Guðna góðs gengis á morgun!