EM í München: Eltingaleikur Kaul við Ehammer

Einn af hápunktum annars keppnisdags á Evrópumeistaramótsins í München var 1500 metra hlaup í tugþraut karla. Sem betur fer var ekki þak á leikvanginum því að það hefði líklega fokið af þegar að heimamenn hvöttu sinn mann, Niklas Kaul til sigurs í tugþrautinni með því að hlaupa af sér Svisslendinginn Simon Ehammer sem hafði leitt þrautinni frá fyrstu grein. En byrjum á byrjuninni.

Ehammer hóf þrautina á því að hlaupa 10.56 sekúndur í 100 metra hlaupi á meðan að Kaul bætti sinn besta árangur og hljóp á 11.16 sekúndum. Heimsmeistarinn frá Frakklandi, Kevin Mayer komst ekki í gegn um fyrstu greinina og hætti eftir 100 metra hlaupið vegna meiðsla.

Ehammer kom svo með risastökk í langstökki þar sem að hann sveif 8.31 metra sem er meistarmótsmet á Evrópumóti. Ehammer hélt áfram í góðum takti á fyrri deginum með því að bæta sig í hástökki, hann stökk 2.08 metra. Kaul endaði fyrri daginn á því að bæta sig í 400 metra hlaupi (47,87 sekúndur).

Samt sem áður var Kaul 477 stigum á eftir Ehammer í sjöunda sæti þegar að fyrri dagurinn í þrautinni var allur. Ehammer var fyrstur með 4661 stig, Dario Dester frá Ítalíu annar með 4327 stig og Norðmaðurinn Sander Skotheim þriðji með 4324 stig.

Ehammer átti gott grindarhlaup (13,75 sekúndur) og stangarstökk (5.20 metra) en slaka krinlgu þar sem hann kastaði 34.92 metra. Þessar greinar hjá Kaul voru þó ekkert sérstaklega góðar og þegar að tvær greinar voru eftir í þrautinni var 520 stiga munur á þeim. EN þetta er tugþraut, ekki áttþraut og tvær sterkar greinar eftir hjá Kaul.

Kaul gaf sér góða von í spjótinu með því að kasta 76.05 metra, nýtt meistarmótsmet í tugþraut á EM. Fyrir spjótið var Kaul í sjöunda sætinu. Ehammer kastaði 53.46 metra og munurinn fór því úr 520 stigum niður í 178 stig. En það var ennþá verkefni fyrir Kaul til að vinna í 1500 metra hlaupinu.

Kaul hljóp því næst harðasta og hugrakkasta 1500 metra hlaup sem undirritaður hefur séð í þraut. Tíminn á Kaul 4:10.04 mín sem er bæting um 3.77 sekúndur Ehammer kom í mark eins og sprungin blaðra á 4:48.72 mín.

Þróun stigamunarins í þrautinni eftir hverja grein fyrir sig há efstu mönnum

Kaul sigraði þrautina með 8545 stig, Ehammer varð annar á landsmeti, 8468 stig. Eistinn Janek Oiglane fékk brons með góða þraut upp á 8346 stig. Svíinn Marcus Nilson hljóp hann næstum því uppi í 1500 og endaði með 8327 stig í fjórða sæti sem er bæting.

Lokastaðan í þrautinni

Þvílíkur endir á tugþrautarkeppninni, Arthur Abele ríkjandi Evrópumeistari var að keppa í sinni síðustu þraut vel studdur af heimamönnum.