Líkt og fjallað hefur verið um hér á Silfrinu tryggðu þeir Hilmar Örn Jónsson og Guðni Valur Guðnason sig inn í úrslit í sínum greinum á Evrópumeistaramótinu í München í dag. Fyrr á mótinu hafði kúluvarparinn Erna Sóley Gunnarsdóttir náð 22. sæti á sínu fyrsta Evrópumeistaramóti en hún er fyrsta íslenska konan til að keppa á stórmóti í kúluvarpi. Síðast áttu Íslendingar tvo keppendur í úrslitum á EM árið 2016.
Í Amsterdam árið 2016 komust spjótkastarinn Ásdís Hjálmsdóttir og 800m hlauparinn Aníta Hinriksdóttir í úrslit í sínum greinum. Þær höfnuðu báðar í áttunda sæti. Á mótinu komst Arna Stefanía Guðmundsdóttir í undanúrslit í 400m grindahlaupi og endaði hún í 18 sæti. Þá keppti Hafdís Sigurðardóttir í langstökki og hafnaði í 16. sæti.

Á EM í Berlín árið 2018 áttu Íslendingar fjóra keppendur, þau Ásdísi Hjálmsdóttur (spjótkast), Anítu Hinriksdóttur (800m), Guðna Val Guðnason (kringlukast) og Sindra Hrafn Guðmundsson (spjótkast). Aníta komst þá í undanúrslit en var þar dæmd úr leik eftir stympingar við Svíann Lovisu Lindh. Ásdís hafnaði 13. sæti, einungis einu sætu frá úrslitunum. Þá hafnaði Guðni í 16. sæti og Sindri í 20. sæti.
Íslendingar hafa unnið til alls fimm verðlauna á EM í frjálsum utanhúss. Gunnar Huseby varð Evrópumeistari í kúluvarpi í Ósló 1946 og varði síðan titilinn í Brussel fjórum árum síðar. Í Brussel unnu þeir Torfi Bryngeirsson og Örn Clausen einnig til verðlauna, Torfi vann gull í langstökki og Örn silfur í tugþraut. Þá vann Vilhjálmur Einarsson brons í þrístökki í Stokkhólmi 1958. Bestan árangur íslenskra kvenna á Guðrún Arnardóttir en hún hafnaði í fjórða sæti í 400m grindahlaupi á EM í Búdapest árið 1998.
Gunnar Páll Jóakimsson fór yfir þátttakendur Íslendinga á Evrópumeistaramótum í gegnum tíðina í grein hér á Silfrinu um árið. Greinina má finna hér.
Það verður spennandi að fylgjast með þeim Hilmari og Guðna í úrslitunum. Hilmar mun keppa í úrslitum sleggjukastsins á morgun, fimmtudag, kl. 18:10. Guðni Valur keppir svo í úrslitum kringlukastsins á föstudagskvöld kl. 18:20. Báðar keppnirnar verða í beinni útsendingu á RÚV 2.
Uppfært kl. 20:50
Upphaflega var því haldið fram að Íslendingar hafi unnið til fernra verðlauna á EM í frjálsum. Verðlaunin eru hins vegar fimm talsins en það gleymdist að nefna gullverðlaun Gunnars Huseby í Brussel 1950. Það leiðréttist hér með.