EM í München: Murto þríbætti eigið landsmet og tók óvænt gull – Bol hálfnuð með tvennuna

Þriðja degi Evrópumeistaramótsins í München er nú lokið. Dagurinn byrjaði frábærlega þegar þeir Hilmar Örn Jónsson og Guðni Valur Guðnason komust báðir áfram í úrslit í sínum greinum líkt og við höfum fjallað um hér á Silfrinu. Í kvöld var síðan keppt til úrlista í sex greinum. Afar óvænt úrslit urðu í stangarstökki kvenna.

Murto stórbætti sig og varð Evrópumeistari

Grikkinn Aikaterini Stefanidi, sem átti titil að verja, leiddi stangarstökkskeppni kvenna lengst af. Hún fór yfir allar hæðir til og með 4,75m í fyrstu tilraun. Stefanidi hafði hæst stokkið 4,70m á tímabilinu og var því að gera gott mót. Einungis Finninn Wilma Murto og Slóveninn Tina Sutej fóru einnig yfir 4,75m. Það gerðu þær í fyrstu tilraun en höfðu fellt á fyrri hæðum. Murto bætti þar með eigið landsmet um þrjá sentímetra og var öllum að óvörum orðin örugg með verðlaunasæti en hún hafði hæst stokkið 4,60m á tímabilinu.

Murto gerði sér svo lítið fyrir og fór yfir 4,80m í fyrstu tilraun og bætti finnska metið öðru sinni. Bæði Stefanidi og Sutej felldu og var Murto því komin með aðra hönd á gullmedalíuna. Stefanidi ákvað að sleppa hinum tveimur tilraununum á 4,80m en Sutej, sem hafði stokkið hæst allra Evrópubúa í ár (4,80m), ákvað að halda áfram að reyna við hæðina. Hún felldi hins vegar þrívegis og endaði með bronsið.

Bæði Stefanidi og Murto felldu í fyrstu tilraun á næstu hæð, 4,85m. Stefanidi, sem var á undan í stökkröðinni, felldi síðan öðru sinni og var því úr leik. Því var orðið ljóst að Murto væri orðin Evrópumeistari. Hún var þó hvergi nærri hætt og reyndi öðru sinni á 4,85m. Hún fór yfir og haka allra viðstaddra datt í gólfið. Bæting á finnska metinu í þriðja sinn, samtals um fjórtán sentímetra, staðreynd. Murto jafnaði auk þess hún meistaramótsmet Stefanidi frá því í Berlín 2018. Hún lét það gott heita og fagnaði Evrópumeistaratitlinum með tárin í augunum.

Bol með sín fyrstu verðlaun á EM

Hollendingurinn Femke Bol vann 400m hlaup kvenna á tímanum 49,44s og vann þar með sín fyrstu verðlaun á Evrópumóti utanhúss. Hún er einungis 22 ára gömul en á nú verðlaun frá öllum stórmótum (þ.e.a.s. EM inni og úti, HM inni og úti og ÓL). Tíminn var bæting á hennar eigin landsmeti um 31 hundraðshluta og jafnframt sá besti í Evrópu í ár. Einungis heimsmeistarinn Shaunae Miller-Uibo hefur hlaupið hraðar í ár (49,11s). Pólverjarnir Natalia Kaczmarek (49,94s) og Anna Kielbasinska (50,29s) unnu silfur og brons.

Bol var ánægð með sigurinn. Mynd: Evrópska frjálsíþróttasambandið.

Frábært hlaup hjá Hollendingnum sem stefnir á að verða sú fyrsta í sögunni til að vinna 400m/400m grind tvennuna á EM. Hún mun keppa í undanúrslitum 400m grindahlaupsins í fyrramálið en úrslitin eru á dagskrá á föstudagskvöld. Hún mun síðan vera í sveit Hollendinga sem á góða möguleika á gullinu í 4x400m. Ef einhver getur unnið tvennuna þá er það Bol, hún virðist aldrei þreytast og stenst alltaf pressuna. Það sama á reyndar við um Karsten Warholm sem reyndi við tvennuna í Berlín árið 2018 (ef frá er talið HM í Oregon). Honum mistókst ætlunarverk sitt, vann gullið í 400m grind en endaði áttundi í 400m.

Hudson-Smith varði titilinn

Bretinn Matthew Hudson-Smith varði Evrópumeistaratitil sinn í 400m hlaupi. Hann kom í mark á tímanum 44,53s, hálfri sekúndu á undan Svisslendingnum Ricky Petrucciani. Alex Haydock-Wilson frá Bretlandi og Liemarvin Bonevacia frá Hollandi komu á sama hundraðshlutanum í mark í þriðja og fjórða sætinu (45,17s). Bretinn var átta þúsundustu á undan Hollendingnum og fékk því bronsið.

Enn mjórra var á munum í 110m grindahlaupi karla. Spánverjinn Asier Martínez og kom einungis einum þúsundusta úr sekúndu á undan ríkjandi meistara, Frakkanum Pascal Martinot-Lagarde, í mark. Þeir fengu báðir tímann 13,14s. Spánverjinn bætti þar með gulli við bronsið sem hann hlaut á HM í síðasta mánuði. Just Kwaou-Mathey frá Frakklandi varð þriðji á tímanum 13,33s.

Heimsmeistarinn Pedro Pichardo vann þrístökk karla. Hann stökk lengst 17,50m en Ítalinn Andrea Dallavalle kom næstur þar á eftir með 17,04m. Frakkinn Jean-Marc Pontvianne varð þriðji með 16,94m.

Rúmeninn Bianca Florentina Ghelber kom, sá og sigraði í sleggjukasti kvenna. Ewa Rózanska frá Póllandi hafnaði í öðru sætinu með 72,12m sem er persónulegt met. Vel gert hjá Pólverjanum en níu konur í úrslitunum höfðu kastað lengra en hún á árinu. Ítalinn Sara Fantini fékk brons með 71,58m.