Það verður söguleg stund þegar sleggjukastarinn Hilmar Örn Jónsson stígur í kasthringinn á Ólympíuleikvanginum í München í kvöld. Þetta verður í fyrsta sinn sem Íslendingur keppir til úrlista í sleggjukasti á stórmóti. Hvernig sem fer í kvöld er því ljóst að Hilmar Örn mun ná besta árangri sem Íslendingur hefur náð í sleggjukasti á stórmóti.
Hilmar Örn er þriðji Íslendingurinn sem keppir í sleggjukasti á Evrópumeistaramóti. Þórður B. Sigurðsson var fyrstur til þess í Bern árið 1954. Þá kastaði hann 48,98m og hafnaði í 24. sæti. Erlendur Valdimarsson keppti í sleggjukasti á EM í Aþenu árið 1969. Hann kastaði 51,04m og hafnaði í 19. sæti.
Íslendingar hafa átt tvo keppendur í sleggjukasti á heimsmeistaramóti. Bergur Ingi Pétursson keppti á HM í Berlín árið 2009. Hann kastaði lengst 68,62m og hafnaði í 32. sæti. Þá keppti Hilmar Örn á HM bæði í London árið 2017 og í Oregon fyrr á þessu ári. Í London kastaði hann lengst 71,12m og hafnaði í 27. sæti. Í Oregon kastaði hann 72,72m sem setti hann í 24. sætið.
Bergur Ingi er eini Íslendingurinn sem hefur keppt í sleggjukasti á Ólympíuleikum. Það gerði hann í Peking árið 2008. Hann hafnaði í 25. sæti með kasti upp á 71,63m.
Engin íslensk kona hefur keppt í sleggjukasti á stórmóti en það var ekki fyrr en á EM í Búdapest árið 1998 sem byrjað var að keppa greininni í kvennaflokki á stórmóti. Keppt var í sleggjukasti kvenna í fyrsta sinn á HM í Seville 1999 og síðan á Ólympíuleikunum í Sydney árið 2000.
Nafn | Mót | Árangur | Sæti |
Þórður B. Sigurðsson | EM Bern 1954 | 48,98m | 24 |
Erlendur Valdimarsson | EM Aþenu 1969 | 51,04m | 19 |
Bergur Ingi Pétursson | ÓL Peking 2008 | 71,63m | 25 |
Bergur Ingi Pétursson | HM Berlín 2009 | 68,82m | 32 |
Hilmar Örn Jónsson | HM London 2017 | 71,12m | 27 |
Hilmar Örn Jónsson | HM Oregon 2022 | 72,72m | 24 |
Úrslitakeppni sleggjukastins hefst kl. 18:10 í kvöld og verður í beinni útsendingu á RÚV 2. Útsendingin hefst kl. 17:55.