EM í München: Hilmar Örn fyrsti Íslendingurinn sem keppir til úrslita í sleggjukasti á stórmóti

Það verður söguleg stund þegar sleggjukastarinn Hilmar Örn Jónsson stígur í kasthringinn á Ólympíuleikvanginum í München í kvöld. Þetta verður í fyrsta sinn sem Íslendingur keppir til úrlista í sleggjukasti á stórmóti. Hvernig sem fer í kvöld er því ljóst að Hilmar Örn mun ná besta árangri sem Íslendingur hefur náð í sleggjukasti á stórmóti.

Hilmar Örn er þriðji Íslendingurinn sem keppir í sleggjukasti á Evrópumeistaramóti. Þórður B. Sigurðsson var fyrstur til þess í Bern árið 1954. Þá kastaði hann 48,98m og hafnaði í 24. sæti. Erlendur Valdimarsson keppti í sleggjukasti á EM í Aþenu árið 1969. Hann kastaði 51,04m og hafnaði í 19. sæti.

Íslendingar hafa átt tvo keppendur í sleggjukasti á heimsmeistaramóti. Bergur Ingi Pétursson keppti á HM í Berlín árið 2009. Hann kastaði lengst 68,62m og hafnaði í 32. sæti. Þá keppti Hilmar Örn á HM bæði í London árið 2017 og í Oregon fyrr á þessu ári. Í London kastaði hann lengst 71,12m og hafnaði í 27. sæti. Í Oregon kastaði hann 72,72m sem setti hann í 24. sætið.

Bergur Ingi er eini Íslendingurinn sem hefur keppt í sleggjukasti á Ólympíuleikum. Það gerði hann í Peking árið 2008. Hann hafnaði í 25. sæti með kasti upp á 71,63m.

Engin íslensk kona hefur keppt í sleggjukasti á stórmóti en það var ekki fyrr en á EM í Búdapest árið 1998 sem byrjað var að keppa greininni í kvennaflokki á stórmóti. Keppt var í sleggjukasti kvenna í fyrsta sinn á HM í Seville 1999 og síðan á Ólympíuleikunum í Sydney árið 2000.

NafnMótÁrangurSæti
Þórður B. SigurðssonEM Bern 195448,98m24
Erlendur ValdimarssonEM Aþenu 196951,04m19
Bergur Ingi PéturssonÓL Peking 200871,63m25
Bergur Ingi PéturssonHM Berlín 200968,82m32
Hilmar Örn JónssonHM London 201771,12m27
Hilmar Örn JónssonHM Oregon 202272,72m24
Íslenskir sleggjukastarar á stórmótum og árangur þeirra.

Úrslitakeppni sleggjukastins hefst kl. 18:10 í kvöld og verður í beinni útsendingu á RÚV 2. Útsendingin hefst kl. 17:55.