Hilmar Örn Jónsson keppti í úrslitum sleggjukasts karla á Evrópumeistaramótinu í München í kvöld. Nokkuð erfiðar aðstæður voru til sleggjukasts Ólympíuleikvanginum í München en rétt áður en úrslitin áttu að hefjast gerði þrumuveður og úrhelli og var keppninni frestað um hálftíma vegna þess.
Í fyrsta kasti sínu í keppninni missti Hilmar jafnvægið og steig út úr hringnum. Kastið var því dæmt ógilt. Hilmar náði gildu kasti í annarri umferð og mældist það 70,03m. Eftir umferðina var Hilmar í tíunda sætinu en átta efstu kastarar eftir þrjár umferðir fá þrjú köst til viðbótar. Það var því ljóst að Hilmar þyrfti að lengja sig til að komast í átta manna úrslitin. Þriðja kast Hilmars var hins vegar ógilt og því ljóst að hann fengi ekki fleiri köst. Það fór svo að Hilmar endaði í 12. sætinu en tveir kastarar náðu fram úr Hilmari í þriðju umferðinni.
Það er engu að síður frábær árangur hjá Hilmari að komast í úrslit á sínu fyrsta Evrópumeistaramóti. Hann er jafnframt fyrsti Íslendingurinn sem keppir til úrslita í sleggjukasti á stórmóti líkt og fjallað var um hér á Silfrinu fyrr í dag.
„Ég er pínu svekktur en þetta var bara fyrsta skrefið í áætlun, að komast í úrslit og svo bara held ég áfram,” sagði Hilmar Örn í viðtali við Þorkel Gunnar Sigurbjörnsson á RÚV eftir keppnina í kvöld. Köst Hilmars og viðtalið má sjá hér.
Ólympíumeistarinn Wojciech Nowicki varð Evrópumeistari og varði þar með titil sinn frá því í Berlín. Hann kastaði lengst 82,00m sem er lengsta kastið í heiminum í ár. Ungverjinn Bence Halász varð annar með kasti upp á 80,92m sem er persónulegt met. Norðmaðurinn Eivind Henriksen fékk bronsið en hann kastaði lengst 79,45m. Henriksen hefur nú unnið verðlaun á öllum stórmótum en fyrir átti hann silfur frá Ólympíuleikunum í Tókýó í fyrra og brons frá HM í Oregon fyrr á þessu ári. Fimmfaldi heimsmeistarinn Pawel Fajdek kastaði 79,15m og varð að sætta sig við fjórða sætið.
Heildarúrslit sleggjukastsins má sjá hér.