EM í München: Klosterhalfen krækti í gull á heimavelli og Ingebrigsten bætti 28 ára gamalt mótsmet

Fjórði dagur Evrópumeistaramótsins í München er nú að kvöldi kominn. Hilmar Örn Jónsson keppti í úrslitum sleggjukasts karla þar sem hann hafnaði í 12. sætinu eins og lesa má um hér. Keppt var til úrslita í fjórum öðrum greinum í kvöld auk þess sem úrslit réðust í sjöþrautinni.

Ingebrigsten vann tvennuna í annað sinn

Norðmaðurinn Jakob Ingebrigsten varð Evrópumeistari í 1500m hlaupi. Hann er því tvöfaldur Evrópumeistari en fyrr á mótinu hafði hann unnið gullið í 5000m hlaupi. Ingebrigsten endurtók því leikinn frá því í Berlín 2018 þegar hann vann sömu tvennuna.

Norðmaðurinn leiddi hlaupið allt frá upphafi til enda og kom í mark á nýju meistaramótsmeti, 3:32,76. Meistaramótsmetið var í eigu Spánverjans Fermin Cacho og hafði staðið frá árinu 1994 (3:35,27). Bretinn Jake Heyward kom í mark á tímanum 3:34,44 og fékk silfur. Mario García varð þriðji á 3:34,88.

Ingebrigsten fagnar sigrinum í kvöld. Mynd: Evrópska frjálsíþróttasambandið.

Klosterhalfen vann á heimavelli

Í 5000m hlaupi kvenna voru gull- og silfurverðlaunahafarnir frá 10.000m hlaupinu mættar til keppni, þær Yasemin Can og Eilish McColgan. Heimakonan Konstanze Klosterhalfen, sem var fjórða í 10.000m hlaupinu, var einnig mætt á startlínuna auk þeirrar sem hafði hlaupið vegalengdina hraðast í Evrópu í ár, Karoline Bjerkeli Grøvdal.

Grøvdal leiddi hlaupið til að byrja með en um miðbik hlaupsins keyrði Can upp hraðann líkt og hún gerði í 10.000m hlaupinu. Can náði upp um 15 metra forskoti og virtist ætla að leika eftir sigurinn í 10.000m hlaupinu en Klosterhalfen og McColgan reyndu að fylgja henni eftir. Grøvdal, sem hefur verið að glíma við bakmeiðsli undanfarið, dróst vel aftur úr og endaði á því að hætta í hlaupinu.

Vel studd af áhorfendum náði Klosterhalfen að saxa hægt og rólega á forskot Can. Þjóðverjinn var komin á hæla Can þegar tveir hringir voru eftir og fór svo fram úr henni þegar um 600 metrar voru eftir. Hún leit aldrei til baka eftir það og kom fyrst í mark á tímanum 14:50,47. Can kom önnur í mark á 14:56,91 og McColgan endaði þriðja á 14:59,34.

Þetta eru fyrstu gullverðlaun Klosterhalfen á stórmóti en hún á einnig bronsverðlaun í 5000m frá HM í Dóha árið 2019, silfurverðlaun í 3000m frá EM innanhúss 2019 og silfurverðlaun í 1500m frá EM innanhúss 2017.

Grøvdal leiddi hlaupið til að byrja með en þurfti síðan að hætta vegna bakmeiðslanna. Mynd: Evrópska frjálsíþróttasambandið.

Vuleta og Tamberi eyðulögðu partýið

Heimamenn áttu einnig góða möguleika á verðlaunum í langstökki kvenna og hástökki karla. Malaika Mihambo hafði stokkið lengsta allra kvenna í langstökki fyrir EM og var talin sigurstranglegust auk þess sem þeir Tobias Poyte og Mateusz Przybylko áttu möguleika á verðlaunum í hástökkinu.

Það var hins vegar Serbinn Ivana Vuleta sem tók forystu í langstökkskeppninni með stökki upp á 7,06m strax í fyrstu umferð. Mihambo gerði allt sem hún gat til að stökkva lengra en tókst það ekki. Hún stökk lengst 7,03m og varð að sætta sig við silfrið að þessu sinni. Bretinn Jazmin Sawyers stökk 6,80m í sjöttu umferð og fór upp fyrir Marynu Bekh-Romanchuk í þrijða sætið og tók bronsið. Þetta er annar Evrópumeistaratitill Vuletu utanhúss en hún vann einnig í Amsterdam árið 2016.

Þrír menn stukku yfir 2,27m í fyrstu tilraun í hástökkskeppninni. Það voru Ítalinn Gianmarco Tamberi, heimamaðurinn Tobias Poyte og Úkraínumaðurinn Andriy Protsenko. Einungis Tamberi náði þó að stökkva yfir næstu hæð, 2,30m. Poyte átti færri föll á lægri hæðir og tók því silfrið og Protsenko bronsið. Przybylko, sem átti titil að verja, endaði sjötti með 2,23m. Þetta er annar Evrópumeistaratitill Tamberi en hann vann einnig í Amsterdam árið 2016, líkt og Vuleta.

Tamberi var ánægðu með gullið og má líka vera það. Mynd: Evrópska frjálsíþróttasambandið.