Site icon Frjálsíþróttavefurinn Silfrið

EM í München: Guðni Valur ellefti og jafnaði besta árangur Íslendings í kringlukasti á EM

Guðni Valur Guðnason keppti í úrslitum kringlukasts karla á Evrópumeistaramótinu í München í kvöld. Aðstæður voru nokkuð erfiðar á Ólympíuleikvanginum í München í kvöld en rigning gerði mörgum köstum erfitt fyrir.

Guðni gerði fyrstu tvö köstin sín ógild. Það fyrsta fór í netið í kastbúrinu og svo missti hann jafnvægið í öðru kastinu og datt út úr hringnum. Eftir aðra umferðina var Grikkinn Apostolos Parellis í áttunda sætinu með kasti upp á 63,32m. Það var því ljóst að Guðni þurfti að kasta lengra en það í þriðju umferð til að komast í átta manna úrslitin.

Guðni gaf allt í sitt þriðja kast, það var gilt og mældist 61,00m. Það setti Guðna í 9. sætið og því ljóst að hann fengi ekki þrjú köst til viðbótar. Í þriðju umferðinni fóru Þjóðverjinn Henrik Janssen og Austurríkismaðurinn Lukas Weißhaidinger fram úr Guðna sem endaði því í 11. sæti.

„Það er mun betra að labba hér í burtu með allavega eitt gilt en ekki þrjú ógild eins og á seinustu kannski þremur mótum eða eitthvað. Það er hægt að byggja upp á þessu, ég er með fjögur köst sem eru í kringum 61 metra á þessu móti og í rauninni ekkert kast sem er eitthvað yfirburðar frábært þannig ég á það ennþá inni á stórmóti,“ sagði Guðni í viðtali við Þorkel Gunnar Sigurbjörnsson á RÚV eftir keppnina í kvöld. Viðtalið í heild má sjá hér.

Þetta er jöfnun á besta árangri íslensks kringlukastara á Evrópumeistaramóti en Óskar Jakobsson hafnaði í 11. sætinu á EM í Prag 1978. Guðni er þriðji Íslendingurinn sem keppir til úrslita í kringlukasti á EM en Vésteinn Hafsteinsson varð tólfti á EM í Split 1990.

Vésteinn þjálfar nú tvo kringlukastara sem voru báðir með í úrslitunum í kvöld, Svíana Simon Pettersson og Daniel Ståhl. Pettersson endaði fjórði og Ståhl fimmti og höfðu þeir þannig sætaskipti frá því á HM í Oregon. Engin verðlaun þetta árið hjá Svíunum sem unnu tvöfalt í Tókýó í fyrra.

Mykolas Alekna frá Litháen varð Evrópumeistari. Hann kastaði lengst 69,78m og bætti þar með tveggja daga gamalt meistaramótsmet Kristjan Ceh frá því í undankeppninni. Ceh endaði annar í kvöld með 68,28m. Bretinn Lawrence Okoye varð nokkuð óvænt þriðji með kasti upp á 67,14m sem er hans besta á árinu.

Alekna fagnar gullinu. Mynd: Evrópska frjálsíþróttasambandið.
Exit mobile version