EM í München: Guðni Valur sá þriðji sem keppir til úrslita í kringlukasti á EM

Guðni Valur Guðnason mun keppa til úrslita í kringlukasti á Evrópumeistaramótinu í München í kvöld. Það er því ekki úr vegi að rifja upp þátttöku íslenskra kringlukastara á EM í gegnum tíðina.

Alls hafa sjö Íslendingar keppt í kringlukasti á EM. Guðni hefur gert það oftast eða alls þrisvar sinnum að meðtöldu EM í München. Hann er nú kominn í úrslit í fyrsta sinn. Guðni er þar með kominn í fámennan en góðmennan hóp þriggja Íslendinga sem hafa komist í úrslit í kringlukasti á EM.

Óskar Jakobsson afrekaði það fyrstur Íslendinga á EM í Prag árið 1978. Þá kastaði hann 60,86m í undankeppninni og var fimmti maður inn í úrslitin. Í úrslitunum kastaði hann síðan 59,44m og hafnaði í 11. sæti. Vésteinn Hafsteinsson keppti síðan til úrslita í kringlukasti á EM í Split árið 1990. Í undankeppninni kastaði hann 60,40m og var sjötti inn í úrslitin þar sem hann kastaði 57,36m og endaði tólfti. Síðan þá hefur enginn komist í úrslit fyrr en nú.

Það er þó vert að nefna að Gunnar Huseby hafnaði í 11. sætinu í undankeppni kringlukastsins í Brussel 1950 þegar hann kastaði 43,78m. Þá voru hins vegar einungis átta úrslitasæti í boði en ekki tólf eins og nú. Í Brussel keppti Gunnar einnig í kúluvarpi og varði þá Evrópumeistaratitil sinn þeirri grein.

NafnMótÁrangurSæti
Erlendur ValdimarssonAþena 196949,84m15
Erlendur ValdimarssonHelsinki 1971NM
Guðni Valur GuðnasonAmsterdam 201661,20m22
Guðni Valur GuðnasonBerlín 201861,36m16
Gunnar HusebyÓsló 194641,74m14
Gunnar HusebyBrussel 195043,78m11
Hallgrímur JónssonBern 195442,90m19
Hallgrímur JónssonStokkhólmur 195845,47m21
Jón ÓlafssonÓsló 194642,40m13
Óskar JakobssonPrag 197859,44m11
Vésteinn HafsteinssonSplit 199057,36m12
Vésteinn HafsteinssonHelsinki 199457,18m14
Íslenskir kringlukastarar á Evrópumeistaramótum og árangur þeirra.

Guðni kastaði 61,80m í undankeppninni á miðvikudag sem gaf honum tólfta og síðasta sætið inn í úrslitin. Það er lengsta kast sem Íslendingur hefur náð á Evrópumeistaramóti til þessa. Það verður spennandi að sjá hvort Guðni nái að bæta besta árangur Íslendings í kringlukasti á EM í kvöld. Til þess að ná því þyrfti hann að enda ofar en 11. sæti.

Það er ekki á hverjum degi sem Íslendingar keppa til úrslita í stórmóti í frjálsum íþróttum. Það gerðist reyndar síðast í gær þegar sleggjukastarinn Hilmar Örn Jónsson keppti fyrstur Íslendinga í úrslitum sleggjukasts karla á EM. Við fáum hins vegar ekki að sjá Íslending í úrslitum stórmóts aftur fyrr en í fyrsta lagi í mars á næsta ári þegar bæði EM og HM innanhúss eru á dagskrá. Það er því um að gera að fylgjast vel með í kvöld þegar Guðni stígur í hringinn á Ólympíuleikvanginum í München. Keppnin hefst kl. 18:20 og verður Guðni fjórði í kaströðinni. Keppnin verður í beinni á RÚV 2 og hefst útsending kl. 18:10.