Guðni Valur Guðnason mun keppa til úrslita í kringlukasti á Evrópumeistaramótinu í München í kvöld. Það er því ekki úr vegi að rifja upp þátttöku íslenskra kringlukastara á EM í gegnum tíðina.
Alls hafa sjö Íslendingar keppt í kringlukasti á EM. Guðni hefur gert það oftast eða alls þrisvar sinnum að meðtöldu EM í München. Hann er nú kominn í úrslit í fyrsta sinn. Guðni er þar með kominn í fámennan en góðmennan hóp þriggja Íslendinga sem hafa komist í úrslit í kringlukasti á EM.
Óskar Jakobsson afrekaði það fyrstur Íslendinga á EM í Prag árið 1978. Þá kastaði hann 60,86m í undankeppninni og var fimmti maður inn í úrslitin. Í úrslitunum kastaði hann síðan 59,44m og hafnaði í 11. sæti. Vésteinn Hafsteinsson keppti síðan til úrslita í kringlukasti á EM í Split árið 1990. Í undankeppninni kastaði hann 60,40m og var sjötti inn í úrslitin þar sem hann kastaði 57,36m og endaði tólfti. Síðan þá hefur enginn komist í úrslit fyrr en nú.
Það er þó vert að nefna að Gunnar Huseby hafnaði í 11. sætinu í undankeppni kringlukastsins í Brussel 1950 þegar hann kastaði 43,78m. Þá voru hins vegar einungis átta úrslitasæti í boði en ekki tólf eins og nú. Í Brussel keppti Gunnar einnig í kúluvarpi og varði þá Evrópumeistaratitil sinn þeirri grein.
Nafn | Mót | Árangur | Sæti |
Erlendur Valdimarsson | Aþena 1969 | 49,84m | 15 |
Erlendur Valdimarsson | Helsinki 1971 | NM | – |
Guðni Valur Guðnason | Amsterdam 2016 | 61,20m | 22 |
Guðni Valur Guðnason | Berlín 2018 | 61,36m | 16 |
Gunnar Huseby | Ósló 1946 | 41,74m | 14 |
Gunnar Huseby | Brussel 1950 | 43,78m | 11 |
Hallgrímur Jónsson | Bern 1954 | 42,90m | 19 |
Hallgrímur Jónsson | Stokkhólmur 1958 | 45,47m | 21 |
Jón Ólafsson | Ósló 1946 | 42,40m | 13 |
Óskar Jakobsson | Prag 1978 | 59,44m | 11 |
Vésteinn Hafsteinsson | Split 1990 | 57,36m | 12 |
Vésteinn Hafsteinsson | Helsinki 1994 | 57,18m | 14 |
Guðni kastaði 61,80m í undankeppninni á miðvikudag sem gaf honum tólfta og síðasta sætið inn í úrslitin. Það er lengsta kast sem Íslendingur hefur náð á Evrópumeistaramóti til þessa. Það verður spennandi að sjá hvort Guðni nái að bæta besta árangur Íslendings í kringlukasti á EM í kvöld. Til þess að ná því þyrfti hann að enda ofar en 11. sæti.
Það er ekki á hverjum degi sem Íslendingar keppa til úrslita í stórmóti í frjálsum íþróttum. Það gerðist reyndar síðast í gær þegar sleggjukastarinn Hilmar Örn Jónsson keppti fyrstur Íslendinga í úrslitum sleggjukasts karla á EM. Við fáum hins vegar ekki að sjá Íslending í úrslitum stórmóts aftur fyrr en í fyrsta lagi í mars á næsta ári þegar bæði EM og HM innanhúss eru á dagskrá. Það er því um að gera að fylgjast vel með í kvöld þegar Guðni stígur í hringinn á Ólympíuleikvanginum í München. Keppnin hefst kl. 18:20 og verður Guðni fjórði í kaströðinni. Keppnin verður í beinni á RÚV 2 og hefst útsending kl. 18:10.