EM í München: Þrjú meistaramótsmet féllu á fimmta degi

Fimmta degi Evrópumeistaramótsins í München er nú lokið. Guðni Valur Guðnason hafnaði í 11. sæti í kringlukastinu og jafnaði þar með besta árangur sem Íslendingur hefur náð í greininni á Evrópumeistaramóti líkt og lesa má um hér. Keppt var til úrslita í sjö öðrum greinum og hér að neðan verður farið yfir það helsta sem þar bar á góma.

Mótsmet hjá Warholm og Bol

Hollendingurinn fljúgandi Femke Bol sigraði örugglega í 400m grindahlaupi á nýju meistaramótsmeti, 52,67s. Metið, sem var í eigu Rússans Natalya Antyukh, var 52,92s og hafði staðið frá árinu 2010. Bol afrekaði því það sem engum hefur tekist áður – að vinna gull í 400m og 400m grindahlaupi á sama Evrópumeistaramótinu. Hún getur síðan bætt við þriðja gullinu í boðhlaupinu á morgun. Úkraínukonur röðuðu sér í annað og þriðja sætið í hlaupinu. Viktoriya Tkachuk varð önnur á 54,30s og Anna Ryzhykova þriðja á 54,86s.

Miklar vangaveltur hafa verið uppi um formið á Ólympíumeistaranum Karsten Warholm. Hann meiddist aftan í læri í upphafi tímabilsins og náði sér ekki á strik á HM þar sem hann endaði sjöundi. Hann virðist þó vera að nálgast sitt fyrra form og vann 400m grindahlaup karla örugglega á tímanum 47,12s. Hann bætti þar með 40 ára gamalt meistaramótsmet Þjóðverjans Harald Scmid um 36 hundraðshluta. Frakkinn Wilfried Happio varð annar á 48,56s og Tyrkinn Yasmani Copelli þriðji á 48,78s. Ludvy Vaillant frá Frakklandi og heimamaðurinn Joshua Abuaku urðu fjórði og fimmti, báðir einungis einum hundraðshluta á eftir Tyrkjanum.

Bekh-Romanchuk Evrópumeistari líkt og eiginmaðurinn

Úkraínukonan Maryna Bekh-Romanchuk varð fyrir miklum vonbrigðum í langstökkinu í gær þegar hún tapaði bronsinu til Jazmin Sawyers í síðustu umferðinni. Hún var staðráðin í að bæta upp fyrir það í þrístökkinu í kvöld. Það gerði hún svo sannarlega því hún stökk í fyrsta skiptið á ferlinum yfir 15 metra og tók gullið. Hún stökk 15,02m og er það lengsta stökkið í Evrópu í sjö ár. Einungis heimsmeistarinn Yulimar Rojas hefur stokkið lengra í ár, 15,67m. Finninn Kristiina Mäkelä vann silfur á finnsku meti, 14,64m, og Hanna Minenko frá Ísrael vann bronsið með 14,45m.

Eiginmaður Marynu, Mykhailo Romanchuk, varð Evrópumeistari í 1500m skriðsundi fyrir þremur dögum síðan. Þau hafa því einhverju að fagna þessa dagana en vonandi veitir þessi frábæri árangur þeim hjónum gleði og ánægju um stundarsakir þrátt fyrir erfiða tíma um þessar mundir vegna Úkraínustríðsins.

Kambundji að endingu Evrópumeistari

Svisslendingurinn Mujinga Kambundji tapaði gullinu í 100m hlaupinu með aðeins fimm þúsundustu úr sekúndu fyrir þremur dögum síðan. Það var gífurlega svekkjandi fyrir Kambundji, sem varð heimsmeistari í 60m hlaupi innanhúss í vetur, sérstaklega í ljósi þess að á síðustu þremur Evrópumeistaramótum hafði hún lent alls sex sinnum í efstu fimm sætunum í 100m, 200m eða 4x100m hlaupum en aldrei unnið gull. Það var því afar sætt þegar hún vann gullið í 200m hlaupinu í kvöld og varð loksins Evrópumeistari.

Flestir bjuggust við sigri hinnar bresku Dinu Asher-Smith sem átti titil að verja. Hún fékk krampa í kálfana í 100m hlaupinu og skokkaði í mark þá. Hún byrjaði hins vegar 200m hlaupið best af öllum í kvöld en Kambundji var frábær á seinni 100 metrunum og kom fyrst í mark á tímanum 22,32s (+0,4). Asher-Smith hljóp á 22,43s og þurfti að sætta sig við silfrið. Hin danska Ida Karstoft vann bronsið á tímanum 22,72s.

Kambundji getur núna kallað sig heims- og Evrópumeistara. Mynd: Evrópska frjálsíþróttasambandið.

Bretar unnu tvöfalt í 200m hlaupi karla. Zharnel Hughes varð Evrópumeistari á tímanum 20,07s (-0,3) og Nethaneel Mitchell-Blake vann silfur á 20,17s. Ítalinn Filippo Tortu hljóp á 20,27s og nældi í bronsið.

Mögnuð Muir varði titilinn

Hin breska Laura Muir varði titil sinn í 1500m hlaupi kvenna og vann þar með sín fjórðu verðlaun á stórmótum á innan við mánuði. Hún vann brons í 1500m á HM í Oregon í lok júlí og vann síðan gull í 1500m og brons í 800m á Samveldisleikunum í byrjun ágúst. Muir kom í mark á tímanum 4:01,08 og var um einni og hálfri sekúndu á undan Íranum Ciara Mageean sem kom önnur í mark. Pólverjinn Sofia Ennaoui varð þriðja á 4:03,59.

Í kringlukasti karla sigraði Mykolas Alekna frá Litháen. Hann kastaði lengst 69,78m og bætti þar með tveggja daga gamalt meistaramótsmet Kristjan Ceh frá því í undankeppninni. Ceh endaði annar í kvöld með 68,28m. Bretinn Lawrence Okoye varð nokkuð óvænt þriðji með kasti upp á 67,14m sem er hans besta á árinu.

Finninn Topi Raitanen varð Evrópumeistari í 3000m hindrunarhlaupi karla á tímanum 8:21,80. Ítalarnir Ahmed Abdelwahed (8:22,35) og Osama Zoghlami (8:23,44) unnu silfur og brons.

Raitanen í forysti í hindrunarhlaupinu. Mynd: Evrópska frjálsíþróttasambandið.

Næstsíðasti dagur mótsins verður á morgun. Þá fara fram úrslit í stangarstökki karla þar sem Svíinn Mondo Duplantis gengur að gullinu vísu. Einungis er spurning um hversu hátt hann stekkur og hvort heimsmetið muni falla í enn eitt skiptið. Einnig verður keppt til úrslita í 800m hlaupi kvenna, spjótkasti kvenna, 3000m hindrunarhlaupi kvenna og 4x400m boðhlaupum karla og kvenna. Sýnt verður beint frá mótinu á RÚV 2 og hefst útsending kl. 17:55.