Arnar og Andrea Íslandsmeistarar í maraþoni – Andrea á þriðja besta tíma íslenskrar konu frá upphafi

Reykjavíkurmaraþonið fór fram í dag en hlaupið er jafnframt Meistaramót Íslands í maraþoni. Arnar Pétursson kom fyrstur í mark á tímanum 2:35:18 og var því krýndur Íslandsmeistari í maraþoni karla. Andrea Kolbeinsdóttir var fyrst kvenna í mark á tímanum 2:47:22 og er Íslandsmeistari kvenna í maraþoni.

Andrea kom í mark rúmum átján mínútum á undan hinnu sænsku Inu Ehlers sem varð önnur kvenna í hlaupinu. Andrea fór í gegnum 21,1km á 1:22:30 og 31,9km á 2:06:42. Eins og áður sagði kom hún í mark á tímanum 2:47:22 sem er þriðji besti tími íslenskrar konu frá upphafi. Einungis Íslandsmethafinn Martha Ernstsdóttir (2:35:15) og Elín Edda Sigurðardóttir (2:44:48) hafa hlaupið hraðar. Helen Ólafsdóttir, sem var í þriðja sæti afrekalistans fyrir hlaupið í dag, á nú fjórða besta tíma íslenskrar konu (2:53:22). Þetta var fyrsta maraþonhlaup Andreu sem hefur lagt fyrir sig utanvegahlaup upp á síðkastið. Önnur íslenskra kvenna í mark var Verena Karlsdóttir og fékk hún því silfur á MÍ í maraþoni. Hún hljóp á tímanum 3:07:53. Thelma Björk Einarsdóttir hljóp á 3:12:17 og fékk bronsið.

Arnar háði harða baráttu við Rúmenann Silviu Stoica í hlaupinu í dag en þeir voru hnífjafnir nánast allt hlaupið. Þeir fóru í gegnum 21,1 km á 1:15:55 og 31,9km á 1:58:05. Þeir voru enn hnífjafnir eftir 38km sem þeir hlupu á 2:20:18. Arnar reyndist síðan sterkari á lokasprettinum og kom í mark 19 sekúndum á undan Rúmenanum en þetta er í fimmta sinn í röð sem Arnar vinnur Reykjavíkurmaraþonið. Írinn Donal Coakley kom þriðji í mark á tímanum 2:41:35. Annar Íslendingurinn í mark var Grétar Guðmundsson á 2:47:22 og fékk hann því silfur á MÍ í maraþoni. Björn Snær Atlason hljóp á 2:54:38 og fékk brons.

Íslandsmethafinn í heilu og hálfu maraþoni karla, Hlynur Andrésson, hljóp hálft maraþon í dag. Hann kom í mark á tímanum 1:08:52 sem er rúmum sex mínútum frá Íslandsmeti hans. Anna Berglind Pálmadóttir var fyrst íslenskra kvenna í hálfa maraþoninu á 1:27:10.

Snorri Einarsson var fyrstur Íslendinga í mark í 10km hlaupinu á tímanum 34:38 og Sigþóra Brynja Kristjánsdóttir var fyrst íslenskra kvenna á 38:13.

Öll úrslit Reykjavíkurmaraþonsins má nálgast hér.