Irma átta sentímetrum frá Íslandsmetinu í þrístökki innanhúss

FH-ingurinn Irma Gunnarsdóttir stökk 12,75m í þrístökki á Stökkmóti FH sem fram fór í frjálsíþróttahöllinni í Kaplakrika fyrr í dag. Þetta er einungis átta sentímetrum frá 25 ára gömlu Íslandsmeti Sígríðar Önnu Guðjónsdóttur í þrístökki innanhúss.

Irma átti góða stökkseríu í dag en hún átti alls fjögur stökk yfir 12,50m. Irma var þarna að bæta sig um fimm sentímetra innanhúss en hún situr áfram í þriðja sæti afrekalistans. Jóhanna Ingadóttir á annað lengsta þrístökk íslenskrar konu innanhúss, 12,80m.

Utanhúss á Irma best 12,89m sem setur hana í fjórða sæti afrekalistans í þrístökki utanhúss. Íslandsmet kvenna utanhúss er líka 25 ára gamalt og í eigu Sigríðar Önnu (13,18m).

Liðsfélagi Irmu, Daníel Ingi Egilsson, keppti einnig í þrístökki á mótinu í dag. Hann stökk lengst 14,44m í dag sem er 20 sentímetrum frá hans besta innanhúss. Daníel á best 15,31m utanhúss frá því fyrr í sumar en einungis Íslandsmethafinn Vilhjálmur Einarsson hefur stokkið lengra. Íslandsmetið innanhúss er í eigu Kristins Torfasonar (15,27m).

Úrslit mótsins má nálgast hér.