Evrópumeistaramótið í München er búið að vera frábær skemmtun. Engin breyting var þar á í gær þegar sjötti og næstsíðasti dagur mótsins fór fram.
Duplantis sló enn eitt metið
Svíinn Mondo Duplantis hefur verið ósigrandi í stangarstökki karla í ár. Hann varð heimsmeistari innanhúss og utanhúss auk þess að hafa slegið heimsmetið þrisvar sinnum í ár. Fyrir gærkvöldið stóð heimsmetið í 6,21m en Duplantis var eini Evrópubúinn sem hafði stokkið yfir 5,90m á tímabilinu. Það var því engin spurning um hver myndi vinna stangarstökkið heldur einungis hversu hátt Svíinn myndi stökkva.
Duplantis byrjaði á að stökkva hátt yfir 5,65m og sleppti síðan 5,75m. Það sama gerði Frakkinn Renaud Lavillenie. Það var mikil barátta um silfrið og bronsið en fimm menn stukku yfir 5,75m. Norðmaðurinn Pål Haugen Lillefosse var sá eini sem gerði það í fyrstu tilraun og var því í forystu. Duplantis tók síðan forystuna af Lillefosse þegar hann fór örugglega yfir 5,85m í fyrstu tilraun. Heimamaðurinn Bo Kanda Lita Baehre var sá eini, fyrir utan Svíann, sem fór yfir þá hæð. Það gerði hann í annarri tilraun og var því orðinn öruggur með silfrið. Hinir fimm felldu allir 5,85m og fékk Lillefosse því bronsið. Lavillenie endaði sjöundi.
Vel studdur að áhorfendum reyndi Lita Baehre við 5,90m en felldi í fyrstu tilraun. Duplantis lék sér hins vegar að þeirri hæð. Þjóðverjinn ákvað þá að sleppa næstu tilraunum á 5,90m og reyndi við 5,95m. Það tókst hins vegar ekki hjá Þjóðverjanum á meðan Duplantis flaug yfir. Svíinn var því orðinn öruggur með gullið og lét hækka rána í 6,06m sem yrði bæting á hans eigin meistaramótsmeti um einn sentímeter. Hann átti í engum vandræðum með að fara yfir og enn eitt meistaramótsmetið fallið. Duplantis ákvað að segja þetta gott eftir það enda ekki kjöraðstæður fyrir heimsmetstilraun en nokkuð kalt var í veðri og rigning.
Loksins kom gullið hjá Hodgkinson
Eftir að hafa unnið silfur á Ólympíuleikunum í fyrra, HM í síðasta mánuði og Samveldisleikunum í byrjun þessa mánaðar var Keely Hodgkinson staðráðin í að taka gullið í 800m hlaupinu í gær.
Heimakonan Christina Hering leiddi hlaupið framan af en þegar um 200 metrar voru eftir fór Bretinn í forystuna. Hún lét forystuna aldrei af hendi eftir það og kom fyrst í mark á 1:59,04. Frakkinn Rénelle Lamote varð önnur á 1:59,49 og hin pólska Anna Wielgosz þriðja á 1:59,87.

Bol með þriðja gullið á fjórum dögum
Hollendingurinn harðduglegi Femke Bol var mætt aftur á brautina í gærkvöldi – nú í 4x400m boðjhlaupið. Hún vann 400m hlaupið á miðvikudagskvöld og síðan 400m grindahlaupið á föstudagskvöld. Hún gat því unnið sitt þriðja gull á fjórum dögum.
Eftir fyrstu þrjá sprettina í hlaupinu voru Belgar í forystu og Bretar komu þar á eftir. Bol fékk keflið í þriðja sætinu og síðan voru Pólverjar í því fjórða. Bol hljóp frábærlega og vann hollensku sveitina upp í fyrsta sætið þegar um 100 metrar voru eftir. Hún kom með keflið fyrst í mark á tímanum 3:20,87. Natalia Kaczmarek vann Pólverjana upp í annað sætið og kom í mark tæpri sekúndu á eftir Bol. Nicole Yergin hélt í þriðja sætið fyrir Bretana en Belgarnir, með Camille Laus á síðasta spretti, þurftu að sætta sig við fjórða sætið. Þær settu þó landsmet (3:22,12) og gátu huggað sér við það.
Bretar leiddu 4x400m boðhlaup karla frá upphafi til enda. Þeir komu í mark á tímanum 2:59,35. Belgar komu fjórtán hundraðshlutum þar á eftir í mark og fengu silfur. Frakkar komu í mark fimmtán hundraðshlutum á eftir Belgunum og fengu bronsið.
Gega bætti mótsmetið
Albaninn Luiza Gega byrjaði 3000m hindrunarhlaup kvenna af krafti. Gega, sem varð fimmta á HM í Oregon þar sem hún setti nýtt landsmet (9:10,04), fór í gegnum fyrstu 1000 metrana á 3:00,33. Það var ljóst að engin gat haldið í við hana á þessum hraða og hún byggði upp gott forskot sem hún hélt allt til loka. Hún kom í mark á tímanum 9:11,31 sem var bæting á tólf ára gömlu meistaramótsmeti Rússans Yuliyu Zaripovu um rúmar sex sekúndur. Heimakonan Lea Meyer hljóp frábærlega og kom önnur í mark á 9:15,35 sem var einnig undir gamla meistaramótsmetinu. Þetta var bæting hjá Meyer um rúmar tíu sekúndur og greinilegt að stuðningurinn á heimavelli hafi hjálpað Þjóðverjanum heilmikið. Bretinn Lizzie Bird, sem hafði hlaupið hraðast allra á árinu, kom þriðja í mark á 9:23,18.
Gull til Grikkja í spjótinu
Hin nítján ára Elina Tzengko frá Grikklandi vann spjótkast kvenna örugglega. Grikkinn var þar með yngsti Evrópumeistari í spjótkasti kvenna frá upphafi. Hún kastaði lengst 65,81m, tæpum þremur metrum lengra en Adriana Vilagos frá Serbíu sem fékk silfrið. Hin gamalreynda Barbora Spotáková vann bronsið með 60,68m. Ungverjinn Réka Szilágyi sat í öðru sætinu fyrir lokaumferðina en þurfti að horfa upp á bæði Vilagos og Sptákovu fara fram úr sér. Hún náði ekki að svara þeim í sínu síðasta kasti og endaði fjórða.

Síðasti dagur mótsins fer fram í dag. Þá verður keppt til úrslita í hástökki kvenna, 800m hlaupi karla, spjótkasti karla, 10.000m hlaupi karla, 100m grindahlaupi kvenna og 4x100m boðhlaupum karla og kvenna. Mótið er í beinni útsendingu á RÚV 2 og hefst útsending kl. 16:55.