Lokadagur Evrópumeistaramótsins í München fór fram í dag. Keppt var til úrslita í sjö greinum en kvöldið endaði á 4x100m boðhlaupunum sem bjóða alltaf upp á mikla spennu.
García sigraði Wightman
Fyrstu gullverðlaun kvöldins féllu í skaut Spánverja í 800m hlaupi karla. Mariano García, sem varð heimsmeistari innanhúss í vetur, tók forystuna í hlaupinu þegar bjallan gall. Heimsmeistarinn í 1500m hlaupi, Bretinn Jake Wightman, var þá í fjórða sæti en þegar um 100 metrar hafði hann unnið sig upp í annað sætið. García og Wightman börðust síðan um gullið á síðustu 100 metrunum. Sá spænski reyndist sterkari og kom í mark á tímanum 1:44,85, sex hundraðshlutum á undan Bretanum. Írinn Mark English varð þriðji á 1:45,19.
Weber vann sjöttu gullverðlaun heimamanna
Þjóðverjinn Julian Weber sigraði í spjótkasti karla með kasti upp á 87,66m. Hann vann þar með sjöttu gullverðlaun heimamanna og þau fimmtándu í heildina. Þetta eru fyrstu verðlaun Webers á stórmóti en hann hafnaði í fjórða sæti bæði á ÓL í fyrra og á HM í ár. Tékkinn Jakub Vadlejch, sem leiddi keppnina fram í fjórðu umferð, vann silfrið með 87,28m. Finninn Lassi Etelätalo vann bronsið með 86,44m sem er bæting hjá honum um tæpa tvo metra.
Crippa með sín önnur verðlaun
10.000m hlaup karla var nokkuð opið og enginn hlaupari greinilega sigurstranglegastur fyrirfram. Ítalinn Yemaneeberhan Crippa, sem vann bronsið í 5000m hlaupinu, var þó talinn líklegur til afreka.
Þegar um tveir hringir voru eftir af hlaupinu ákvað Norðmaðurinn Zerei Kbrom Mezngi óvænt að keyra upp hraðann. Það fylgdi honum enginn eftir og Norðmaðurinn náði að byggja upp u.þ.b. 30 metra forskot. Á síðasta hringnum fór hins vegar að draga aðeins úr Mezngi og Crippa byrjaði að nálgast Norðmanninn. Ítalinn fór svo fram úr Mezngi þegar um 50 metrar voru eftir og kom fyrstur í mark á tímanum 27:46,13. Norðmaðurinn náði að hanga á öðru sætinu og kom í mark á tímanum 27:46,94 sem er bæting hjá honum um rúma hálfa mínútu. Frakkinn Yann Schrub varð þriðji á 27:47,13 sem er bæting um tólf sekúndur.
Skrzyszowska vann sín fystu verðlaun
Hin breska Cindy Sember, sem hafði hlaupið hraðast allra í Evrópu í ár í 100m grindahlaupi, átti besta tímann í undanúrslitunum (12,62s). Pia Skrzyszowska frá Póllandi náði næstbesta tímanum (12,66s) og Luca Kozák frá Ungverjalandi þeim þriðja besta (12,69s) sem var bæting á hennar eigin landsmeti um einn hundraðshluta. Hin danska Mette Graversgaard var áttunda inn í úrslitin (12,87s) en hún var einungis þremur hundraðshlutum frá landsmeti sínu.
Í úrslitahlaupinu hlekktist Sember á annarri grind, hún missti taktinn og verðlaunin runnu henni úr greipum. Skrzyszowska gerði hins vegar engin mistök og kom fyrst í mark á tímanum 12,53s. Þetta eru fyrstu verðlaun hennar á stórmóti. Kozák hljóp á sama tíma og í undanúrslitahlaupinu og fékk silfur. Það var síðan hin tvítuga Ditaji Kambundji frá Sviss sem kom þriðja í mark á 12,74s. Hún er yngri systir Mujingu Kambundji sem varð Evrópumeistari í 200m og vann silfur í 100m. Kambundji systurnar fara því heim með þrjár medalíur. Graversgaard endaði sjötta á 12,99s.
Mahuchikh Evrópumeistari
Hin tvítuga Yaroslava Mahuchikh varð Evrópumeistari í hástökki kvenna í fyrsta sinn en áður hafði hún orðið Evrópumeistari í flokkum U18, U20 og U23. Það dugði Mahuchikh að stökkva yfir 1,95m til að vinna gullið í kvöld en það er lægsta sigurstökk á Evrópumeistaramóti síðan Rosemary Witschas frá Austur-Þýskalandi stökk sömu hæð þegar hún varð Evrópumeistari í Róm árið 1974.
Smáþjóðaleikameistarinn Marija Vukovic frá Svartfjallalandi stökk einnig yfir 1,95m í kvöld en þurfti til þess þrjár tilraunir á meðan Mahuchikh fór yfir í sinni fyrstu. Vukovic fékk því silfrið. Hin sautján ára Angelina Topic frá Serbíu stökk 1,93m og fékk brons.
Dramatík í boðhlaupunum
Síðustu greinar mótsins voru 4x100m hlaup karla og kvenna. Bretar komu fyrstir í mark í karlahlaupinu á tímanum 37,67s. Þeir bættu þar með 32 ára gamalt meistaramótsmet Frakka um tólf hundraðshluta. Frakkar unnu silfur (37,94s) og Pólverjar brons á nýju landsmeti (38,15s). Svisslendingar settu einnig landsmet (38,36s) sem dugði þeim í fimmta sætið. Heimamenn, sem áttu góða möguleika á verðlaunum, klikkuðu á fyrstu skiptingunni og kláruðu ekki hlaupið
Taflið snérist hins vegar við í kvennahlaupinu. Bretar klikkuðu á fyrstu skiptingu og kláruðu ekki hlaupið en Þjóðverjar komu fyrstar í mark á tímanum 42,34s og bættu Evrópumeistaratitli við bronsið sem þær unnu á HM í Oregon. Pólverjar komu aðrar í mark og settu landsmet, 42,61s, og Ítalir nældu í brons á 42,84s.
Þetta voru sjöundu gullverðlaun heimamanna og bættu þau þar með árangur sinn frá því í Berlín 2018 þegar þau unnu sex gull. Heimamenn unnu flest gullverðlaun á mótinu en Bretar unnu næstflest eða sex. Þjóðverjar hafa ekki unnið jafnmörg gullverðlaun síðan í Búdapest árið 1998 þegar þau urðu átta talsins. Spánverjar náðu þriðja sætinu í verðlaunatöflunni. Þá komust bæði Norðmenn og Finnar á topp tíu.

Þá er þessu frábæra Evrópumeistaramóti lokið en næsta EM utanhúss verður í Róm að tveimur árum liðnum.