EM í München: Norðurlandaþjóðirnar ekki unnið fleiri verðlaun síðan í Róm ’74

Evrópumeistaramótið í München, sem lauk í gær, var frábær skemmtun frá upphafi til enda. Góður árangur náðist í mörgum greinum en alls féllu átta meistaramótsmet á mótinu. Norðulandabúar gerðu gott mót og unnu til alls fjórtán verðlauna en þau hafa ekki verið fleiri síðan á EM í Róm árið 1974.

Flottur árangur hjá íslenska hópnum

Íslendingar áttu þrjá keppendur á mótinu, kúluvarparann Ernu Sóleyju Gunnarsdóttur, sleggjukastarann Hilmar Örn Jónsson og kringlukastarann Guðna Val Guðnason. Erna Sóley, sem var að keppa á sínu fyrsta stórmóti í fullorðinsflokki, varð fyrst íslenskra kvenna til að keppa í kúluvarpi á stórmóti. Hún varpaði kúlunni 16,41m í undankeppninni og hafnaði í 22. sæti. Hilmar Örn var að keppa á sínu fyrsta Evrópumeistaramóti. Hann komst í úrslit þar sem hann kastaði 70,03m og hafnaði í 12. sæti. Hilmar Örn er fyrsti Íslendingurinn sem keppir til úrslita í sleggjukasti á stórmóti. Guðni Valur komst einnig í úrslit í kringlukasti en þetta var í fyrsta sinn sem hann kemst í úrslit á stórmóti. Guðni Valur kastaði 61,00m metra í úrslitunum og endaði ellefti. Hann jafnaði þar með besta árangur Íslendings í kringlukasti á EM en Óskar Jakobsson hafnaði í 11. sæti á EM í Prag árið 1978.

Norðurlandabúar stóðu sig vel

Íþróttafólkið frá hinum Norðurlöndunum stóð sig einnig einkar vel í München. Norðmenn, Svíar, Finnar og Danir unnu til samtals fjórtán verðlauna, þar af sex gullverðlauna, og hafa verðlaunin ekki verið fleiri síðan á EM í Róm árið 1974.

Norðmenn stóðu sig best af Norðurlandaþjóðunum og unnu til sex verðlauna, þar af þrennra gullverðlauna. Þar á eftir komu Finnar með tvenn gullverðlaun og fern í heildina. Þá unnu Svíar eitt gull og tvö silfur og Danir eitt brons.

NafnLandGreinVerðlaun
Armand DuplantisSvíþjóðStangarstökkGull
Eivind HenriksenNoregurSleggjukastBrons
Ida KarstoftDanmörk200mBrons
Jakob IngebrigstenNoregur1500mGull
Jakob IngebrigstenNoregur5000mGull
Karsten WarholmNoregur400m grGull
Kristiina MäkeläFinnlandÞrístökkSilfur
Lassi EtelätaloFinnlandSpjótkastBrons
Pål Haugen LillefosseNoregur StangarstökkBrons
Perseus KarlströmSvíþjóð20km gangaSilfur
Thobias MontlerSvíþjóðLangstökkSilfur
Topi RaitanenFinnland3000m hGull
Wilma MurtoFinnlandStangarstökkGull
Zerei Kbrom MezngiNoregur10.000mSilfur
Norðulandabúar sem unnu til verðlauna í München.

Í Róm árið 1974 unnu Norðurlandabúar til samtals sextán verðlauna, þar af fimm gullverðlauna. Finnar unnu þá fern gullverðlaun (Pentti Kahma í kringlukasti, Hannu Siitonen í spjótkasti, Nina Helmén í 3000m og Riitta Salin í 400m) og Danir ein (Jesper Tørring í hástökki).

Í Gautaborg árið 2006 unnu Norðurlandabúar til sex gullverðlauna líkt og nú í München. Þá voru verðlaunin hins vegar tólf í heildina, tveimur færri en nú. Svíar unnu þá þrenn gullverðlaun á heimavelli (Christian Olsson í þrístökki, Susanna Kallur í 100m grindahlaupi og Carolina Klüft í sjöþraut), Finnar tvenn (Olli-Pekka Karjalainen í hástökki og Jukka Keskisalo í 3000m hindrunarhlaupi) og Norðmenn ein (Andreas Thorkildsen í spjótkasti).

Norðurlandabúar hafa aldrei unnið til jafnmargra verðlauna á Evrópumeistaramóti og í Ósló árið 1946. Þá voru verðlaunin 42 talsins, þar af 18 gullverðlaun. Svíar áttu þá frábært mót og unnu til alls ellefu gullverðlauna. Finnar fengu fjögur gull og Danir, Norðmenn og Íslendingar eitt hver. Gunnar Huseby varð þá Evrópumeistari í kúluvarpi. Hann varði síðan titil sinn í Brussel fjórum árum síðar og er eini Íslendingurinn sem á tvenn verðlaun frá Evrópumeistaramóti utanhúss.

RÚV rifjaði upp afrek Gunnars þegar 70 ár voru liðin frá sigri hans í Ósló. Það innslag má sjá hér.