Berlínarmaraþonið fór fram við frábærar aðstæður í dag og olli það ekki vonbrigðum frekar en fyrri daginn. Keníumaðurinn Eliud Kipchoge bætti eigið heimsmet um hálfa mínútu þegar hann kom í mark á tímanum 2:01:09 og Tigist Assefa frá Eþíópíu vann kvennahlaupið á tímanum 2:15:37 sem er þriðji besti tími sögunnar.
Kipchoge byrjaði hlaupið hratt og það varð strax ljóst að hann ætlaði sér stóra hluti. Hann hljóp fyrstu 5km á 14:14 og 10km á 28:22 sem var hraði upp á lokatíma undir tveimur klukkustundum. Þessi tvöfaldi Ólympíumeistari hljóp fyrri helming hlaupsins á 59:50 sem er sami millitími og þegar hann hljóp maraþon á 1:59:40 í Vín fyrir þremur árum síðan (það er besti tími sem nokkur maður hefur hlaupið maraþon á en telst ekki vera heimsmet þar sem hann notaðist m.a. við fjölda héra sem skiptust á að hlaupa með honum).
Á seinni hluta hlaupsins byrjaði að draga örlítið úr Kipchoge en hann fór í gegnum 25km á 1:11:08 sem var þó vel undir heimsmetshraða. Á þeim tímapunkti byrjaði Andamlak Belihu frá Eþíópíu, sem var sá eini sem hafði náð að halda í við Kipchoge, að missa Keníumanninn frá sér. Kipchoge fór í gegnum 30km á 1:25:40, 35km á 1:40:10 og 40km á 1:54:53. Þá hafði landi Kipchoge, Mark Korir, náð að vinna sig upp í annað sætið en var rúmum fjórum mínútum á eftir honum.
Kipchoge fékk góðan stuðning frá áhorfendum síðasta spölinn og kom í mark á tímanum 2:01:09 sem er 30 sekúndna bæting á heimsmetinu sem hann setti í sömu borg fyrir fjórum árum. Korir hélt öðru sætinu og kom í mark á tímanum 2:05:58. Tadu Abate frá Eþíópíu varð þriðji á 2:06:28 en Belihu endaði fjórði á 2:06:40.
Kipchoge var að vonum sáttur eftir hlaupið. „Ég er gríðarlega ánægður með að hafa bætt heimsmetið hér í Berlín,” sagði Keníumaðurinn. „Ég vildi hlaupa fyrri helminginn hratt. Eftir 38km vissi ég síðan að ég gæti bætt heimsmetið. Aðstæðurnar voru frábærar og stuðningurinn frá áhorfendunum var góður.”
Assefa sigraði óvænt
Kvennahlaupið var aðeins jafnara en hjá körlunum. Sex konur voru í forystuhópnum þegar hlaupið var hálfnað en þær hlupu fyrsta helming hlaupsins á 1:08:13. Þegar 30km voru búnir af hlaupinu hafði forystuhópnum fækkað um helming. Eþíópíukonurnar Tigist Assefa, Tigist Abayechew og Meseret Gola virtust þá ætla að bítast um sigurinn.
Eftir 35km hafði Assefa nokkuð óvænt náð um 20 sekúndna forystu. Þessi 28 ára fyrrum 800m hlaupari hafði einungis hlaupið eitt maraþon fyrir daginn í dag. Það var í Riyadh í mars á þessu ári þar sem hún hljóp á 2:34:01. Það var því ljóst að hún myndi stórbæta sig.
Assefa jók forskot sitt frekar á lokakílómetrunum og kom í mark á tímanum 2:15:37 sem er nýtt eþíópískt met og þriðji besti tími sögunnar en einungis Brigid Kosgei og Paula Radcliffe hafa hlaupið vegalengdina hraðar. Rosemary Wanjiru frá Kenía vann sig upp í annað sætið og kom í mark á 2:18:00. Abayechew varð þriðja aðeins þremur sekúndum á eftir Wanjiru. Gola gaf verulega eftir og endaði fimmta á 2:20:58.
Þetta er frábær árangur hjá Assefu sem er að stíga sín fyrstu skref í maraþonhlaupum. Hún hljóp svokallað neikvætt splitt í dag, þ.e.a.s. hún hljóp síðari helming hlaupsins hraðar en sá fyrri. Síðari helminginn hljóp hún á 1:07:24 sem er fjórum sekúndum hraðar en hennar besti tími í hálfu maraþoni.