Framfarir, hollvinafélag millivegalengda- og langhlaupara, stendur fyrir víðavangshlauparöð nú á haustdögum í 19. sinn. Í ár eru hlaupin þrjú talsins og fór það fyrsta fram á Frisbígolfvellinum í Fossvogi í gær, laugardaginn 1. október.
Hlaupnar eru tvær vegalengdir, eitt „stutt“ og eitt „langt“ hlaup. Í gær var stutta hlaupið 900 metra langt en það langa var 6.300 metrar. Arnar Pétursson vann bæði stutta og langa hlaupið í karlaflokki. Arnar hljóp sutta hlaupið á 2:44 og var einungis tveimur sekúndum á undan Jökli Bjarkasyni sem kom í mark á 2:46. Þorvaldur Gauti Hafsteinsson var þriðji á 3:02. Sama röð var á köppunum í langa hlaupinu. Arnar hljóp þá á 22:45, Jökull á 23:19 og Þorvaldur á 25:26.
Í kvennaflokki vann Íris Dóra Snorradóttir bæði sutta og langa hlaupið. Hún kom í mark á 3:21 í stutta hlaupinu, einungis þremur sekúndum á undan Söru Mjöll Smáradóttur sem var önnur. Guðný Lára Bjarnadóttir var þriðja á 3:32. Þær stöllur röðuðu sér í sömu sæti í langa hlaupinu. Íris hljóp þá á 25:45, Sara á 29:12 og Guðný á 29:49. Hér má sjá heildarúrslit hlaupsins.
Annað hlaupið í hlauparöðinni verður við Borgarspítalann laugardaginn 8. október. Hér er hægt að nálgast frekari upplýsingar um hlaupið.