Chepngetich nálægt heimsmetinu

Ruth Chepngetich frá Keníu varð önnur konan í sögunni til þess að hlaupa maraþon undir 2:15 þegar hún sigraði í Chicago-maraþoninu fyrr í dag. Chepngetich kom í mark á tímanum 2:14:18 sem er einungis fjórtán sekúndum frá heimsmeti Brigid Kosgei frá árinu 2019. Nú er Bretinn Paula Radcliffe, sem átti heimsmetið lengi vel, komin niður í þriðja sætið yfir bestu tíma sögunnar. Landi Chepngetich, Benson Kipruto, sigraði í karlahlaupinu á tímanum 2:04:24, sem er sá þriðji besti í sögu Chicago-maraþonsins.

Chepngetich byrjaði hlaupið í dag á leifturhraða. Hún hljóp fyrstu 5km á 15:11 og fyrstu 10km á 30:40. Þegar hún var hálfnuð sýndi klukkan 1:05:44 sem er rúmri mínútu hraðar en Kosgei hljóp á þegar hún setti heimsmetið. Engin átti roð í Keníukonuna í dag en á þessum tímapunkti í hlaupinu voru um fjórar mínútur í næstu konur.

Á seinni helming hlaupsins byrjaði aðeins að hægjast á Chepngetich en hún var þó enn langt undir heimsmetshraðanum þegar hún hljóp í gegnum 35km á 1:50:25. Þá hafði forskot hennar aukist í fimm mínútur en næsta kona var heimakonan Emily Sisson. Á síðustu sjö kílómetrunum hægðist enn frekar á Chepngetich og það fór svo að hún réttmissti af heimsmetinu. Hún kom í mark á tímanum 2:14:18 eins og áður segir en þetta er annað árið í röð sem hún vinnur Chicago-maraþonið. Sisson kom önnur í mark á tímanum 2:18:29 sem var bæting á Norður-Ameríkumetinu um 43 sekúndur. Landa Chepngetich, Vivian Kiplagat, varð þriðja á 2:20:52.

Karlahlaupið var mun jafnara en kvennahlaupið. Þegar hlaupið var hálfnað voru tíu hlauparar enn í baráttunni en þeir fóru í gegnum 21,1km á 1:02:24. Þegar 35km voru búnir af hlaupinu voru einungis fjórir hlauparar enn í baráttunni um sigurinn – Keníumaðurinn Benson Kipruto, sem sigraði í Boston-maraþoninu í fyrra, og Eþíópíumaðurinn Seifu Tura, sem sigraði í Chicago-maraþoninu í fyrra, ásamt Keníumönnunum Bernard Koech og John Korir.

Kipruto reyndist þeirra sterkastur á lokakílómetrunum og kom í mark á tímanum 2:04:49. Einungis heimsmethafinn Eliud Kipchoge og fyrrum heimsmethafinn Dennis Kimetto hafa hlaupið hraðar í Chicago. Tura endaði annar á 2:04:49 og Korir þriðji á 2:05:01, sem var bæting hjá honum um rúmar fjórar mínútur. Koech kom í mark á 2:07:15 í fjórða sætinu.

Kipruto kemur sigri hrósandi í mark. Mynd: AFP/Getty Images.