Víðavangshlauparöð Framfara og Fætur toga hélt áfram í gær en þá fór annað hlaupið fram við Borgarspítalann í Reykjavík í gær. Líkt og í fyrsta hlaupinu unnu þau Arnar Pétursson og Íris Dóra Snorradóttir tvöfalt.
Í styttra hlaupinu var hlaupinn um 900m hringur. Íris Dóra hljóp hann á 4:48 og var einungis þremur sekúndum á undan þeim Söru Mjöll Smáradóttur og Emblu Margréti sem voru jafnar í öðru og þriðja sætinu á 4:51. Karlahlaupið var einnig afar jafnt en einungis munaði einni sekúndu á fyrsta og öðrum manni. Arnar kom í mark á tímanum 3:58 en Jökull Bjarkason var annar á 3:59. Þriðji í hlaupinu var Hlynur Ólason á 4:06.
Lengra hlaupið var um 6,3km langt og það sigraði Íris Dóra örugglega á 32:09. Embla Margrét varð önnur á 33:20 og Sara Mjöll þriðja á 35:37. Í karlahlaupinu kom Arnar fyrstur í mark á 28:13. Jökull náði aftur öðru sætinu og kom í mark á 28:52 og í þriðja sætinu var Adrian Graczyk á 29:51. Heildarúrslit hlaupsins má sjá hér.
Þriðja og síðasta hlaupið í hlauparöðinni fer fram við Ræktunarstöð Reykjavíkur í Fossvogi þann 29. október. Í millitíðinni eða þann 15. október mun Víðavangshlaup Íslands fara fram við tjaldsvæðið í Laugardal.