“I’m the only gay in the (Olympic) village”

Hinsegin Ólympíufarar

Þegar ég var að horfa á Ólympíuleikana í Peking árið 2008 þá hugsaði ég með mér “hvar er hinsegin íþróttafólkið”? Aðeins 11 keppendur af þeim 10.708 sem kepptu í Peking voru komnir út úr skápnum eða 0.001%. Er hlutfall hinsegin fólks í heiminum svo lágt? Nei svo sannarlega ekki. Meðaltalið í Bandaríkjunum er 3.8% og fer hækkandi með auknum réttindum hinsegin fólks og miðað við það hlutfall ættu að vera í kringum 400 keppendur en ekki 11.   
Þessir 11 keppendur hafa í dag unnið samtals 4 gull, 4 silfur og 2 brons sín á milli á 3 Ólympíuleikum.  Sem gefur Team Hinsegin 74 sætið í heildarfjölda Ólympíuverðlauna, fyrir ofan þjóðir á borð við Nígeríu, Saudi Arabíu og Írak. Sem eru ekki beint þekktar fyrir að styðja við réttindi hinsegin fólks. En af þessum 11 þá var samt enginn að keppa í frjálsum.     
Á þessum tíma var ég 14 ára gamall samkynhneigður sís frjálsíþróttastrákur í skápnum sem þráði ekkert heitar en að finna fyrirmyndir sem sýndu og sönnuðu að maður gat verið stoltur af því að vera hinsegin og í frjálsum á nákvæmlega sama tíma. Það var í raun ekki fyrr en mörgum árum seinna að mér tókst að finna þær fyrirmyndir sem mig svo sárvantaði. En í dag eru komnar margar flottar fyrirmyndir sem mig langar að deila með ykkur. Þar á meðal er hann Kerron Clement sem var einmitt í skápnum þegar hann keppti í Peking.

(Ég mun einblína á sís keppendur með kynhneigð aðra en gagnkynhneigð í þessari samantekt. En langar að skrifa 2 aðra pistla í framtíðinni. Fyrri um Intersex keppendur og seinni um Trans og Kynsegin keppendur 😊).

Kerron Clement – Samkynhneigður.

Kerron Clement er einn sigursælasti 400m grindahlaupari sögunnar. Hann vann Ólympíugull í Ríó 2016 og silfur i Peking 2008, varð heimsmeistari 2007 í Osaka og varði titilinn í Berlín 2009 auk þess að fá brons 2017 í London. Aðeins Edwin Moses og Felix Sanchez hafa unnið fleiri gull á stórmótum. Hann hefur einnig unnið Ólympíugull og tvo heimsmeistaramótstitla í 4x400m. Árið 2005 setti hann heimsmet í 400m innanhús þegar hann sló heimsmet Michael Johnson sem stóð til 2018 þegar að Michael Norman bætti það um 5 brot (44.52). Hann kom út úr skápnum árið 2019 á National Coming Out Day (11. október). Fyrir neðan má sjá myndband af sigri hans á Ólympíuleikunum 2016 og hér má svo sjá flott viðtal við Kerron þar sem hann lýsir sinni upplifun af því að vera hinsegin íþróttamaður.

Yulimar Rojas – Samkynhneigð

Þrístökksdrottningin er einn litríkasti karakterinn í frjálsum í dag. Upphaflega var hún kúluvarpari en fannst það leiðinlegt og skipti yfir í hástökk og þróaðist þaðan yfir í þrístökkvara. Ég spái því að undir lok hennar ferils þá verði hún búinn að brjóta 16 metra múrinn í þrístökki (á 15.74 sem er heimsmetið) og mögulega setja heimsmet í langstökki (á 7.27 lengst og það er hennar aukagrein!). Hún er margfaldur heimsmeistari og ríkjandi Ólympíumeistari. Yulimar er eitt af andlitum réttindabaráttu hinsegin fólks í Venesúela. Hérna má sjá myndband af heimsmetsstökki hennar innanhúss.

Shawnacy Barber – Samkynhneigður

Shawn Barber er einn besti stangarstökkvari sögunnar. Hann varð heimsmeistari í Peking árið 2015 ,aðeins 20 ára gamall, þegar hann sigraði keppendur á borð við Sam Kendricks (6,06),  Renaud Lavillenie (6,16) og Piotr Lisek (6,02). Hann er einn af aðeins örfáum stangarstökkvurum sem hafa stokkið yfir 6 metra. Shawn kom úr skápnum þegar hann var 22 ára. Fyrir neðan má sjá myndband af 6 metra stökki Shawn Barber.

Caster Semenya – Samkynhneigð og Intersex

Caster Semenya er einn besti 800m hlaupari sögunnar í kvennaflokki. Hún á 5 gull frá stórmótum í þeirri grein (2 ÓL og 3 HM) og á 4 besta tíma sögunnar 1:54,25. Saga Caster er ótrúlega áhugaverð og ég væri örugglega margar blaðsíður að segja frá hennar sögu. Þó svo að hún sé samkynhneigð þá hefur fókusinn aðallega verið á að hún sé intersex. Fyrir neðan má sjá áhugavert myndband um intersex og íþróttir og svo myndband af sigurhlaupi Caster Semenya á ÓL 2016.

Kajsa Bergqvist – Tvíkynhneigð

Hérna höfum við einn besta hástökkvara sögunnar. Hún hefur stokkið yfir 2.08 inni, sem er heimsmet, og er aðeins ein af þrem konum sem hefur náð yfir þá hæð. Hinar eru Blanka Vlasic (2.08) og Stefka Kostadinova (2.09). Hún hefur orðið heimsmeistari, inni og úti, og Evrópumeistari. Ásamt því að vinna bronsverðlaun í Sydney árið 2000. Hér er myndband af 2.08 stökki hennar (stökkið byrjar á 1:20).

Colin Jackson – Samkynhneigður

Colin Jackson er algjör goðsögn/geit í grindahlaupi karla. Hann er fyrrum heimsmethafi í bæði 110m (12,91) grind og 60m grind (7,30). Að mínu mati þá er hans mesta afrek að verða Evrópumeistari í grindahlaupi fjórum sinnum í röð, 1990-2002. Það er svo margt sem getur farið úrskeiðis í grind þannig að það er aðdáunarvert að vinna svona oft í röð á 12 ára tímabili. Samtals er hann með 17 verðlaun frá ÓL, HM og EM. Með fylgir myndband af fjórða EM sigrinum í röð.

Kelly Holmes -Samkynhneigð

Við endum þessa samantekt á hermanninum Kelly Holmes. Hún byrjaði snemma í frjálsum en hætti sem unglingur til að fara í herinn. Sem betur fer hélt hún áfram að æfa í hernum og varð meðal annars meistari í júdókeppni hermanna. En hún snéri sér aftur að frjálsum að fullu þegar hún varð 27 ára gömul árið 1997. Vann brons árið 2000 í Sydney en náði þeim frábæra árangri á næstu Ólympíuleikum að verða meistari í bæði 800m og 1500m. Hérna má sjá myndband af Ólympíusigri hennar í 800 m hlaupi árið 2004 í Aþenu.