World Athletics afhjúpar tilnefningar til frjálsíþróttakonu ársins

Þó að frjálsíþróttasumrinu sé lokið og flestir farnir að huga að næsta keppnistímabili, nú eða þegar byrjaðir í tilviki víðavangshlaupara, er World Athletics ennþá að taka til eftir partí sumarsins. Nú þegar búið er að staðfesta heimsmet Tobi Amusan í 100 m grindahlaupi (12,12 s), Sydney McLaughlin í 400 m grindahlaupi (51,41 s) og Mondo Duplantis í stangarstökki (6,21 m) er aðeins eitt verk eftir en það er að útnefna frjálsíþróttafólk ársins 2022.

Í dag (12. október) afhjúpaði World Athletics hvaða tíu konur eru tilnefndar til frjálsíþróttakonu ársins. Tilnefningar til frjálsíþróttakarls ársins verða birtar á morgun (13. október). Við förum hér stuttlega yfir tilnefningarnar.

Tobi Amusan, Nígeríu
Sumarið var ansi magnað hjá Tobi Amusan en auk þess að hafa orðið heimsmeistari í 100 m grind og sett nýtt heimsmet vann hún Demantamótaröðina, Samveldisleikana og Afríska meistaramótið.

Chase Ealey, Bandaríkjunum
Chase Ealey kastaði kúlunni lengst allra í ár, 20,51 metra. Hún vann til gullverðlauna á HM utanhúss og silfur á HM innanhúss. Hennar helsta afrek á árinu er þó án efa sigur á Reykjavík International Games í febrúar síðastliðnum.

Shelly-Ann Fraser-Pryce, Jamaíka
Fraser-Pryce vann á árinu sinn fimmta heimsmeistaratitil í 100 m hlaupi en auk þess stóð hún uppi sem sigurvegari á Demantamótaröðinni. Í sumar hljóp hún sjö sinnum undir 10,70 sekúndum, þar af best 10,62, oftar en nokkur önnur kona á einu tímabili í sögunni.

Kimberly Garcia, Perú
Þú manst ef till vill ekki eftir því, lesandi góður, en Kimberly Garcia varð tvöfaldur heimsmeistari í sumar. “Í hvaða greinum?” spyrð þú. Jú, í 20 km og 35 km göngu. Með sigri sínum í 20 km göngunni vann hún fyrstu verðlaun Perú á heimsmeistaramóti í frjálsum íþróttum.

Shericka Jackson, Jamaíka
Jackson varð í sumar heimsmeistari í 200 metra hlaupi og bætti þar með upp fyrir glórulaus mistök sín á Ólympíuleikunum í fyrra. Á Jamaíska meistaramótinu hljóp Jackson á næst hraðasta tíma sögunnar, 21,45 sekúndum.

Faith Kipyegon, Kenía
Kipyegon vann heimsmeistaratitil í 1500 metra hlaupi í sumar auk Demantamótaraðartitils. Hún hljóp á nýju kenísku meti, 3:50,37 sekúndum og var aðeins 0,3 sekúndum frá heimsmetinu.

Yaroslava Mahuchikh, Úkraínu
Rétt eins og aðrir á þessum lista vann Mahuchikh heimsmeistaratitil á árinu, að vísu aðeins innanhúss en í Eugene þurfti hún að sætta sig við silfrið. Hún stökk hæst allra í ár, 2,05 metra, en það er jöfnun á úkraínsku landsmeti utanhúss. Metið á Inha Babakova frá 1995.

Sydney McLaughlin, Bandaríkjunum
Heimsmeistari í 400 m grind og 4×400 metra hlaupi. Tvíbætti eigið heimsmet, fyrst 51,41 sekúnda á bandaríska meistaramótinu og svo 50,68 sekúndur í úrslitum HM. Þarf að segja meira?

Shaunae Miller-Uibo, Bahamas
Shaunae Miller-Uibo vann til gullverðlauna í 400 metra hlaupi á báðum heimsmeistaramótum ársins, innanhúss í Belgrad og utanhúss í Eugene.

Yulimar Rojas, Venesúela
Eins og Miller-Uibo stóð þrístökkvarinn Rojas uppi sem sigurvegari á HM innanhúss og utanhúss auk þess að sigra Demantamótaröðina í sumar. Á HM innanhúss í Belgrad bætti hún heimsmet sitt, stökk 15,74 m.

Þú getur haft áhrif á niðurstöðuna með því að taka þátt í kosningu á samfélagsmiðlum World Athletics. Atkvæði almennings hafa 25% vægi. Kosningu lýkur á miðnætti 31. október en úrslitin verða svo tilkynnt í desember.