Arnar Pétursson og Andrea Kolbeinsdóttir urðu Íslandsmeistarar í víðavangshlaupi þegar Víðavangshlaup Íslands fór fram fyrr í dag. Þau vörðu þar með bæði titla sína frá því í fyrra. Hlaupinn var 8km hringur við tjaldsvæðið í Laugardal og kom Arnar í mark á tímanum 29:43 en Andrea á 32:01.
Skíðagöngugarpurinn og Ólympíufarinn Snorri Einarsson var í öðru sæti í karlaflokki á tímanum 31:14. Sigurður Karlsson nældi í bronsið á 31:32. Í kvennaflokki voru nöfnurnar Íris Anna Skúladóttir og Íris Dóra Snorradóttir í öðru og þriðja sæti. Íris Anna kom í mark á tímanum 33:42 og Íris Dóra á 34:27.
Einnig var keppt í unglingaflokkum í dag. Jökull Bjarkason og Guðný Lára Bjarnadóttir urðu Íslandsmeistarar í 18-19 ára flokki. Þau Þorvaldur Gauti Hafsteinsson og Embla Margrét Hreimsdóttir urðu meistarar í 15-17 ára flokki. Í flokki 13-14 ára nældu Patrekur Ómar Haraldsson og Helga Lilja Maach í gull. Þá unnu Baldur Elías Norðfjörð Sveinsson og Margrét Lóa Hilmarsdóttir gull í flokki 12 ára og yngri.
Heildarúslit hlaupsins má nálgast hér.