Fyrr í vikunni fjölluðum við hér á Silfrinu um tilnefningar World Athletics til frjálsíþróttakonu ársins. Á fimmtudaginn síðastliðinn var svo birt hvaða 10 karlar eru tilnefndir til frjálsíþróttakarls ársins og ætla ég hér að renna stuttlega yfir tilnefningarnar. Áhugafólk getur tekið þátt í kosningu á samfélagsmiðlum WA og haft þannig áhrif á niðurstöðuna en samfélagsmiðlakosningin hefur 25% vægi í heildartalningunni.
Kristjan Ceh, Slóvakíu
Kristjan Ceh átti frábært tímabil í sumar og kastaði m.a. nýtt slóvaskt met í kringlukasti á demantamóti í Birmingham, kastaði 71,27 m. Hann hampaði heimsmeistaratitli og sigraði Demantamótaröðina en þurfti að lúta í lægra haldi fyrir Mykolas Alekna á Evrópumeistaramótinu.

Alison dos Santos, Brasilíu
Í fjarveru Karsten Warholm stærsta hluta sumarsins steig dos Santos allrækilega upp í löngu grindinni. Á heimsmeistaramótinu sigraði hann á nýju suður-amerísku meti, 46,29 sekúndum sem jafnframt er þriðji besti tími sögunnar.
Mondo Duplantis, Svíþjóð
Mondo Duplantis þríbætti eigið heimsmet í stangarstökki í ár, fyrst 6,19 og svo 6,20 m innanhúss á síðasta degi HM inni í Belgrad og svo 6,21 metra utanhúss á síðasta degi HM í Eugene.
Soufiane El Bakkali, Marokkó
El Bakkali tapaði ekki einu einasta hindrunarhlaupi í sumar og sigraði því bæði á HM og í Demantamótaröðinni. Hann hljóp hraðast allra í ár á heimavelli í Rabat og fór þá í annað skiptið á ævinni undir 8 mínútur í 3000 m hindrun.
Grant Holloway, Bandaríkjunum
Holloway sigraði bæði á HM inni og úti, og tók sigurinn svo einnig á Demantamótaröðinni.

Jakob Ingebrigtsen, Noregi
Norðmaðurinn átti gott tímabil í sumar. Hann varð heimsmeistari í 5000 metra hlaupi í Eugene og fékk silfur í 1500 m bæði innanhúss og utan. Í báðum greinum fékk hann gullverðlaun á EM í München.
Eliud Kipchoge, Kenía
Þrátt fyrir að eiga minna en mánuð í að verða 38 ára gamall ber Eliud Kipchoge ennþá höfuð og herðar yfir alla aðra í maraþonhlaupum. Hann sigraði bæði Tokýó og Berlínarmaraþonið og setti í því síðara nýtt heimsmet, kom í mark á tímanum 2:01:09.
Noah Lyles, Bandaríkjunum
Noah Lyles stóðst prófraunina sem landi hans Erriyon Knighton lagði fyrir hann. Lyles var krýndur heimsmeistari í 200 metra hlaupi í Eugene en þar bætti hann bandaríska met Michael Johnson um 0,01 sekúndu, kom í mark á 19,31. Aðeins Usain Bolt og Yohan Blake eiga betri tíma.
Anderson Peters, Grenada
Spjótkastarinn Anderson Peters kastaði spjótinu lengst allra í ár, 93,07 metra á Meistaramóti Norður-, og Mið-Ameríku og eyja í Karíbahafi (NACAC) og færðist þar með upp í fimmta sæti á lista yfir bestu spjótkastara heims. Peters hampaði heimsmeistaratitli í sumar og fékk silfur á Samveldisleikunum.

Pedro Pichardo, Portúgal
Pichardo varð bæði heims- og Evrópumeistari í sumar en hann sigraði á HM með stökki upp á 17,95 metra sem var lengsta stökk ársins. Á HM innanhúss fór hann heim með silfur um hálsinn.