Duplantis, Ingebrigsten og Bol valin best í Evrópu

Frjálsíþróttasamband Evrópu krýndi frjálsíþróttafólk ársins við hátíðlega athöfn í Tallinn í gærkvöldi. Í fyrsta sinn í sögunni hlutu tveir íþróttamenn titilinn frjálsíþróttakarl Evrópu en það þótti ógerlegt að gera upp á milli þeirra Armand Duplantis og Jakob Ingebrigsten sem báðir áttu frábært ár. Femke Bol var valin frjálsíþróttakona Evrópu og er hún vel að titlinum komin. Grikkinn Elina Tzengko og Litháinn Mykolas Alekna voru valin efnilegasta frjálsíþróttafólk álfunnar.

Duplantis og Ingebrigsten samstíga

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem þeir Ingebrigsten og Duplantis deila titli en þeir voru báðir valdir efnilegustu frjálsíþróttakarlar Evrópu árið 2018. Það ár urðu þeir báðir Evrópumeistarar í fyrsta sinn og það má segja að þeir hafi verið nokkuð samstíga síðan þá. Þeir urðu báðir Ólympíumeistarar í fyrsta sinn í Tókýó í fyrra og urðu síðan báðir heimsmeistarar í fyrsta sinn í Oregon í sumar. Þá vörðu þeir báðir Evrópumeistaratitla sína í ár.

Duplantis bætti eigið heimsmet þrívegis í ár og varð heimsmeistari bæði innan- og utanhúss ásamt því að verja Evrópumeistaratitil sinn eins og áður sagði. Þá vann hann einnig Demantamótaröðina í ár. Heimsmet Duplantis stendur nú í 6,21m en hann stökk yfir sex metra á 16 mótum í ár og hefur nú stokkið oftar yfir sex metra en Sergei Bubka gerði á sínum ferli.

Ingebrigsten byrjaði árið á að setja heimsmet í 1500m hlaupi innanhúss þegar hann hljóp á 3:30,60 í Lievin í febrúar. Hann vann alls fimm verðlaun á stórmótum í ár, silfur í 1500m á HM innanhúss og HM utanhúss, gull í 5000m á HM utanhúss og gull í 1500m og 5000m á EM. Þetta er í þriðja sinn í röð sem Norðmaður hlýtur nafnbótina frjálsíþróttakarl Evrópu en Karsten Warholm gerði það árin 2019 og 2021 (valið fór ekki fram árið 2020).

Bol í sérflokki

Það lék enginn vafi á hver myndi hljóta titilinn frjálsíþróttakona Evrópu. Femke Bol vann til alls sjö verðlauna á stórmótum í ár. Hún varð Evrópumeistari í 400m, 400m grind og 4x400m hlaupum ásamt því að vinna silfur í 400m grind og 4x400m á HM utanhúss og silfur í 400m og 4x400m á HM innanhúss. Þá vann hún einnig Demantamótaröðina í ár. Bol hljóp sex sinnum undir 53 sekúndur í 400m grind á árinu og á núna sex af sjö bestu tímum sögunnar í Evrópu.

Tzengko og Alekna efnilegust

Elina Tzengko frá Grikklandi og Mykolas Alekna frá Litháen voru valin efnilegasta frjálsíþróttafólk Evrópu í ár. Þau urðu bæði Evrópumeistarar í sínum greinum, Tzengko í spjótkasti og Alekna í kringlukasti. Þau eru bæði 19 ára og urðu yngstu Evrópumeistarar sögunnar í sínum greinum. Auk Evrópumeistaratitilsins vann Alekna einnig silfurverðlaun á HM utanhúss.