MÍ á Langanesi árið 2030?

Þórshöfn á Langanesi er bær sem er líklega þekktastur fyrir sjávarútveg og nálægð við fallega náttúru. Færri vita að Þórshöfn hefur alið meistara í frjálsíþróttum þó sérhæfð aðstaða til iðkunar hafi verið lítil, þar til nú. Undanfarið hefur verið aukinn kraftur í starfinu sem kallar á bætta aðstöðu. Markmið var sett um að koma upp tartanbraut á íþróttasvæðinu við íþróttamiðstöð bæjarins þar sem er sundlaug, íþróttasalur og lyftingasalur. Vinnan að markmiðinu er strax hafin og síðasta sumar kláraðist fyrsti áfanginn þegar lögð var tartan kastbraut og steyptir kringlu- og kúluvarpshringir á íþróttasvæðinu. 

Björg fór á stúfana og fékk upplýsingar um þetta spennandi verkefni hjá formanni Ungmennafélags Langnesinga, Valgerði Sæmundsdóttur. 
 

Upphaf verkefnisins 

Hugmyndin af þessu verkefni er nokkurra ára gömul og hefur verið í mótun af og til. Fyrir þó nokkrum árum síðan náðist að klára eitt stærsta markmið félagsins en það var að koma starfsemi félagsins í húsnæði. Eftir að það verkefni kláraðist var komið að því að finna næsta stóra markmið til að vinna að. „Ég og núverandi varaformaður félagsins, Þorsteinn Ægir Egilsson, sátum þá í stjórn félagsins og fór hausinn á flug hjá stjórnarmönnum og alls konar hugmyndir komu upp. Fyrir valinu varð að koma upp frjálsíþróttaaðstöðu á íþróttasvæðinu við íþróttahúsið með tartanbraut,“ segir Valgerður. Jónas Egilsson, þá starfandi skrifstofustjóri hjá Langanesbyggð, hjálpaði verkefninu að verða að veruleika.

„Það sem hjálpaði okkur í stjórn félagsins við að taka þessa ákvörðun á sínum tíma, þ.e. að fara í uppbyggingu á íþróttasvæðinu, var ung og efnileg stúlka, hún Erla Rós Ólafsdóttir. Hún er afrekskona í spjótkasti og okkar fremsti íþróttamaður en á þessum tíma var hún afar efnileg í sinni grein. Foreldrar hennar sýndu þessu verkefni mikinn áhuga, eðlilega, enda stolt af sinni stelpu,“ segir Valgerður.  

Fyrsti áfangi kláraður 

Verkefnið lagðist því miður í dvala í tvö ár en árið 2019 ákváð ný stjórn UMFL að keyra verkefnið aftur í gang. Fyrsti áfangi verkefnisins var kláraður sumarið 2021 en þá var steyptur kringlu- og kúluvarpshringur og lögð tartan kastbraut. Þessi áfangi náðist með góðu samstarfi Ungmennafélagsins við Langanesbyggð og nú með Jónas Egilsson sem sveitarstjóra. Næsta markmið er ekki langt undan en áætlað er að gera 100m hlaupabraut með langstökksgryfju í næsta áfanga. Lokamarkmið er síðan að klára 400m hring í kringum völlinn.

„Fyrir lítið félag er þetta risastórt markmið og getur tekið langan tíma að klára en með góðu samstarfi og samstilltu átaki mun þetta verkefni klárast. Fyrsti áfanginn hefur sýnt okkur það að þetta er hægt og að íþróttaaðstaðan okkar er mun betri,“ segir Valgerður. 

Margir leggja hönd á plóg 

Aðspurð um fjármögnun á verkefninu segir Valgerður að sveitarsjórnin stjórni ferðinni og tekur ákvarðanir um framhaldið og hversu mikið er gert í einu. Sveitarfélagið ber stærstan þungan af kostnaði í þessu verkefni en UMFL leggur sitt að mörkum með frumkvæði í verkefninu sem og peningasöfnunun. Stjórn félagsins tók m.a. þá ákvörðun í fyrra að allur dósa- og flöskupeningur sem safnast næstu þrjú árin væru eyrnamerktir þessu verkefni. En í samfélaginu eins og þessu er samstaðan mikilvæg og margir Þórshafnabúar hafa lagt hönd á plóg. Einstaklingar og fyrirtæki hafa styrkt verkefnið með peningaupphæðum, brottfluttur Langnesingur kom og hélt uppistand á svæðinu, bakað hefur verið rúgbrauð og velunnarar hafa gefið félaginu ýmiss konar söluvarning. Ágóðinn af þessu öllu hefur runnið óskiptur í verkefnið.

„Ekki má svo gleyma Langanesþrautinni sem við bjuggum til og byrjuðum með árið 2021. Þar búa einstaklingar til lið og safna saman áheitum í einn pott með því að liðin hjóla, labba eða hlaupa saman frá Fonti á Langanesi til Þórshafnar. Vegalengdin er um 50 km. og auðvitað er markmiðið það sama og alltaf, að safna fyrir nýrri og bættir íþróttaðstöðu,“ segir Valgerður. 

Áhuginn á frjálsum íþróttum hefur aukist 

Verkefnið hefur strax borið árangur og eflir það samfélagið í að halda áfram að vinna að langtímamarkmiðinu. „Ég tel að áhugi á frjálsum íþróttum hafi aukist með bættri aðstöðu og er ég sannfærð um að sú þróun muni halda áfram. Með frekari uppbyggingu vonast ég eftir ennþá meiri áhuga og virkni barna og unglinga á íþróttum en til að það gengi eftir er aðstaðan ein og sér ekki nóg heldur þarf alltaf samstillt átak barna, foreldra, íþróttafélagsins og samfélagsins alls. Ef við förum eftir þeim gildum verður framtíðin björt hjá okkur,“ segir Valgerður.

Það verður spennandi að fylgjast áfram með þessu flotta verkefni á Þórshöfn og hver veit nema að Meistaramót Íslands fari einn daginn fram á Langanesi? 

Myndir í greininni eru fengnar af Facebook síðu Ungmennafélags Langaness.