Íris Dóra og Arnar sigurvegarar í Víðavangshlauparöð Fætur toga og Framfara

Víðavangshlauparöð Fætur toga og Framfara, hollvinafélags millivegalengda- og langhlaupara, lauk í gær þegar þriðja og síðasta hlaupið fór fram við Ræktunarstöð Reykjavíkur í Fossvogi. Eins og í hinum tveimur hlaupunum urðu Íris Dóra Snorradóttir og Arnar Pétursson hlutskörpust í báðum hlaupum gærdagsins. Þau tryggðu sér þar með sigur í stigakeppni hlauparaðarinnar með fullt hús stiga.

Í gær var hlaupinn um 1100m langur hringur við Ræktunarstöðina og var undirlagið að mestu malarstígar. Í stutta hlaupinu var hlaupinn einn hringur en í því langa voru hringirnir sex talsins. Stutta hlaupið hjá konunum var afar jafnt og spennandi en aðeins skildu tvær sekúndur að fyrstu þrjár konurnar. Sem fyrr segir var það Íris Dóra Snorradóttir sem bar sigur úr býtum á tímanum 5:10. Sara Mjöll Smáradóttir var önnur í mark aðeins einni sekúndu á eftir Írisi og Guðný Lára Bjarnadóttir kom í mark einni sekúndu þar á eftir og varð þriðja.

Íris Dóra sigraði síðan með yfirburðum í langa hlaupinu en hún hljóp hringina sex á tímanum 27:18. Mikil barátta var um 2. og 3. sætið en, líkt og í stutta hlaupinu, kom Sara Mjöll önnur í mark á tímanum 29:53. Þremur sekúndum þar á eftir komu bæði Jenný Harðardóttir og Guðný Lára í mark en Jenný var dæmd sjónarmun á undan.

Arnar Pétursson vann stutta hlaupið hjá körlunum nokkuð örugglega á tímanum 4:26 en Jökull Bjarkason kom annar í mark á tímanum 4:35. Þeir Búi Steinn Kárason og Grétar Örn Guðmundsson komu báðir í mark fjórum sekúndum á eftir Jökli í 3. og 4. sætinu en Búi var sjónarmun á undan Grétari í mark.

Arnar vann langa hlaupið einnig nokkuð örugglega. Hann hljóp hringina sex á tímanum 22:52 og var rúmri mínútu á unda Búa Steini sem náði öðru sætinu á tímanum 24:00. Jökull varð þriðji á tímanum 24:45. Heildarúrslit hlaupsins í gær má sjá hér.

Eins og áður segir sigruðu Íris Dóra og Arnar öll sex hlaupin í hlauparöðinni og unnu því stigakeppnina með fullt hús stiga eða 90 stig. Í karlaflokki var Jökull Bjarkason í öðru sæti stigakeppninnar með 83 stig og Árni Georgsson í því þriðja með 56 stig. Hjá konunum var Sara Mjöll Smáradóttir í öðru sætinu með 83 stig og Guðný Lára Bjarnadóttir því þriðja með 75 stig.

Einnig var keppt í stúlkna- og drengjaflokki þar sem þau Patrekur Ómar Haraldsson og Helga Lilja Maack urðu hlutskörpust í stigakeppninni. Heildarúrslit stigakeppninnar má nálgast hér.

Nú er víðavangshlaupatímabilinu lokið hér innanlands þetta árið en Norðurlandameistaramótið í víðavangshlaupum fer fram í Kristiansand í Noregi þann 6. nóvember og Evrópumeistaramótið fer fram í La Mandria á Ítalíu þann 11. desember.