McLaughlin-Levrone og Duplantis valin frjálsíþróttafólk ársins

Heimsmeistararnir og heimsmethafarnir Sydney McLaughlin-Levrone og Mondo Duplantis voru valin frjálsíþróttafólk ársins 2022 af Alþjóðafrjálsíþróttasambandinu. Serbneski spjótkastarinn Adriana Vilagos og bandaríski spretthlauparinn Erriyon Knighton voru valin efnilegasta frjálsíþróttafólk ársins. Viðurkenningarnar voru veittar við hátíðlega athöfn í höll Alberts prins af Mónakó í gær.

McLaughlin-Lovrone og Duplantis, sem bæði voru valin efnilegust fyrir fjórum árum, áttu frábært tímabil. McLaughlin-Levrone bætti eigið heimsmet í 400m grindahlaupi tvívegis í sumar – fyrst í 51,41 á bandaríska meistaramótinu og síðan í 50,68 á heimsmeistaramótinu þegar hún vann sitt fyrsta HM-gull. Hún vann síðan sín önnur gullverðlaun á HM í 4x400m boðhlaupinu.

Duplantis varð einnig tvöfaldur heimsmeistari á árinu og bætti eigið heimsmet í þrígang – fyrst í 6,19m á móti í Belgrade þann 7. mars og síðan tveimur vikum síðar í 6,20m á HM innanhúss í sömu borg. Heimsmetið féll síðan í þriðja sinn á HM utanhúss í Oregon þegar hann stökk 6,21m. Duplantis vann 18 af þeim 19 mótum sem tók þátt í á árinu og stökk 6 metra eða hærra alls 23 sinnum. Hann hefur nú stokkið yfir 6 metra oftar en nokkur annar í sögunni.

Vilagos varð heimsmeistari U20 í ár þegar hún kastaði 63,52m. Hún bætti þar með mótsmetið sem og Evrópumetið í aldursflokknum. Þá vann hún til silfurverðlauna á EM í München.

Knighton, sem var valinn sá efnilegasti annað árið í röð, átti einnig frábært ár. Hann hljóp 200m á 19,49 í apríl en fékk tímann ekki staðfestan sem heimsmet U20. Hann vann silfur á bandaríska meistaramótinu þegar hann hljóp á 19,69 og fékk þann tíma staðfestan sem heimsmet U20. Þá vann hann til bronsverðlauna á HM í Oregon þegar hann hljóp á 19,80.