Site icon Frjálsíþróttavefurinn Silfrið

EM í víðavangshlaupum: Norðmenn unnu tvöfalt – Hlynur í 55. sæti

EM í víðavangshlaupum fór fram í Piemonte á Ítalíu í dag. Hlynur Andrésson var eini keppandi Íslands á mótinu en hann endaði í 55. sæti af þeim 80 keppendum sem komu í mark í karlahlaupinu. Hlaupið var um 10km langt og kom Hlynur í mark á tímanum 31:53.

Þetta er í þriðja sinn sem Hlynur keppir á mótinu en hann lenti í 41. sæti árið 2018 og 39. sæti árið 2019. Hann er eini Íslendingurinn sem hefur tekið þátt í þessu móti sem var fyrst haldið árið 1994.

Kort af brautinni í La Mandria garðinum.

Brautin var staðsett við kastalann í La Mandria garðinum og innihélt hringurinn sem hlaupinn var m.a. 600m langan kafla með 23m hækkun og lækkun ásamt 50m kafla sem hlaupinn var innanhúss í gegnum kastalann. Karlarnir hlupu sex 1,5km hringi og einn 1km hring. Norðmaðurinn Jakob Ingebrigsten sigraði örugglega á tímanum 29:33 og varði þar með titil sinn frá því í Dublin í fyrra. Bretinn Emile Cairess vann silfur á tímanum 29:42 og Belginn Isaac Kimeli brons á 29:45. Frakkar unnu gull í liðakeppninni, heimamenn silfur og Spánverjar brons.

Konurnar hlupu fjóra 1,5km hringi og tvo 1km hringi – alls 8km. Karoline Grøvdal frá Noregi og Konstanze Klosterhalfen frá Þýskalandi háðu mikla baráttu um gullið. Grøvdal reyndist sterkari á lokametrunum og kom í mark á tímanum 26:25 en Klosterhalfen kom í mark einungis fjórum sekúndum þar á eftir. Grøvdal varði þar með titil sinn frá því í fyrra líkt og Ingebrigsten en hún hefur nú alls unnið til sjö verðlauna í fullorðinsflokki á þessu móti.

Mikil barátta var um bronsið en einungis munaði níu sekúndum á þriðja og níunda sætinu. Löndur Klosterhalfen, þær Alina Reh og Hanna Klein, komu á sama tíma í mark í þriðja og fjórða sætinu (27:19) en Reh var dæmd sjónarmun á undan. Þær þýsku unnu gull í liðakeppninni, Bretar unnu silfur og Írar brons.

Einnig var keppt í blönduðu 4x1500m boðhlaupi. Heimamenn gerðu sér lítið fyrir og sigruðu það eftir frábæran lokasprett hjá Gaiu Sabbatini. Spánverjar unnu silfrið og Frakkar brons. Heildarúrslit mótsins má sjá hér.

Exit mobile version