Nú er innanhússtímabilið hafið og hefur margt af besta frjálsíþróttafólki landsins byrjað tímabilið af krafti. Hæst ber að nefna Íslandsmet Baldvins Þórs Magnússonar í 5000m hlaupi sem fjallað var um hér á Silfrinu um daginn.
Aðventumót Ármanns fór fram í Laugardalshöll í gær. Langstökkvarinn Irma Gunnarsdóttir opnaði tímabilið vel og stökk 6,14m sem er bæting hjá henni innanhúss um 6cm. Hún átti góða seríu og stökk alls þrisvar sinnum yfir 6 metra. Með þessu stökk Irma upp fyrir þær Jóhönnu Ingadóttur og Sveinbjörgu Zophoníasdóttur í þriðja sæti afrekalistans í langstökki kvenna innanhúss á eftir Sunnu Gestsdóttur og Íslandsmethafanum Hafdísi Sigurðardóttur.
Spretthlauparinn Kolbeinn Höður Gunnarsson hefur einnig byrjað tímabilið af krafti. Hann opnaði tímabilið með því að hlaupa 60m á 6,86 á Minningarmóti Ólivers í Boganum þann 4. desember. Hann bætti svo um betur á Aðventumóti Ármanns í gær þegar hann hljóp á 6,82 og bætti sig um 1/100. Hann var einungis 2/100 frá tæplega 30 ára gömlu Íslandsmeti Einars Þórs Einarssonar. FH-ingurinn Dawid Boc varð annar í hlaupinu á 7,06 og Ármenningurinn Anthony Vilhjálmur Vilhjálmsson þriðji á 7,08. Þeir bættu báðir sinn persónulega árangur í hlaupinu. Kolbeinn vann einnig 200m hlaupið í gær á 21,83.
Júlía Kristín Jóhannesdóttir úr Breiðabliki vann 60m hlaup kvenna á nýju persónulegu meti, 7,77. Liðsfélagi hennar, Birna Kristín Kristjánsdóttir, varð önnur á 7,81. Júlía vann einnig 200m hlaup kvenna á 25,69 en ÍR-ingurinn Ingibjörg Sigurðardóttir varð önnur á nýju persónulegu meti, 25,98.
Hin 15 ára Sóley Kristín Einarsdóttir vann hástökk kvenna með stökki upp á 1,70m. Hún reyndi við 1,73m, sem hefið verið bæting á aldursflokkameti Evu Maríu um 1cm, en hún felldi þá hæð í þrígang. FH-ingurinn Daníel Ingi Egilsson vann þrístökk karla með 14,35m. Blikinn Guðjón Dunbar Diaquoi varð annar á nýju persónulegu meti, 14,24m, sem er 21cm frá aldursflokkameti Þorsteins Ingvarssonar í 16-17 ára flokki. FH-ingurinn Svanhvít Ásta Jónsdóttir vann þrístökk kvenna með 11,59m.
Öll úrslit Aðventumóts Ármanns má sjá hér.
Íslendingar í Bandaríkjunum komnir í gang
Spretthlaupararnir Dagur Andri Einarsson og Óliver Máni Samúelsson, sem báðir keppa fyrir Hillsdale háskólann í Michigan, opnuðu tímabilið um síðustu helgi þegar þeir kepptu í 60m hlaupi á Oiler Opener & Multi mótinu í Ohio. Dagur hljóp á 7,05 í undanriðlunum og 7,06 í úrslitunum en hann á best 6,99 frá árinu 2018. Óliver hljóp á 7,15 í undanriðlunum en hann á best 7,07 frá árinu 2020.
Hástökkvarinn Eva María Baldursdóttir sem keppir fyrir Háskólann í Pittsburgh opnaði tímabilið einnig um síðustu helgi þegar hún stökk 1,70m á YSU Indoor Track & Field Icebreaker mótinu í Ohio.
Næsta mót á dagskrá hér innanlands er Áramót Fjölnis sem verður haldið í Laugardalshöll þann 29. desember.