Site icon Frjálsíþróttavefurinn Silfrið

Irma og Kolbeinn með bætingar

Nú er innanhússtímabilið hafið og hefur margt af besta frjálsíþróttafólki landsins byrjað tímabilið af krafti. Hæst ber að nefna Íslandsmet Baldvins Þórs Magnússonar í 5000m hlaupi sem fjallað var um hér á Silfrinu um daginn.

Aðventumót Ármanns fór fram í Laugardalshöll í gær. Langstökkvarinn Irma Gunnarsdóttir opnaði tímabilið vel og stökk 6,14m sem er bæting hjá henni innanhúss um 6cm. Hún átti góða seríu og stökk alls þrisvar sinnum yfir 6 metra. Með þessu stökk Irma upp fyrir þær Jóhönnu Ingadóttur og Sveinbjörgu Zophoníasdóttur í þriðja sæti afrekalistans í langstökki kvenna innanhúss á eftir Sunnu Gestsdóttur og Íslandsmethafanum Hafdísi Sigurðardóttur.

Spretthlauparinn Kolbeinn Höður Gunnarsson hefur einnig byrjað tímabilið af krafti. Hann opnaði tímabilið með því að hlaupa 60m á 6,86 á Minningarmóti Ólivers í Boganum þann 4. desember. Hann bætti svo um betur á Aðventumóti Ármanns í gær þegar hann hljóp á 6,82 og bætti sig um 1/100. Hann var einungis 2/100 frá tæplega 30 ára gömlu Íslandsmeti Einars Þórs Einarssonar. FH-ingurinn Dawid Boc varð annar í hlaupinu á 7,06 og Ármenningurinn Anthony Vilhjálmur Vilhjálmsson þriðji á 7,08. Þeir bættu báðir sinn persónulega árangur í hlaupinu. Kolbeinn vann einnig 200m hlaupið í gær á 21,83.

Júlía Kristín Jóhannesdóttir úr Breiðabliki vann 60m hlaup kvenna á nýju persónulegu meti, 7,77. Liðsfélagi hennar, Birna Kristín Kristjánsdóttir, varð önnur á 7,81. Júlía vann einnig 200m hlaup kvenna á 25,69 en ÍR-ingurinn Ingibjörg Sigurðardóttir varð önnur á nýju persónulegu meti, 25,98.

Hin 15 ára Sóley Kristín Einarsdóttir vann hástökk kvenna með stökki upp á 1,70m. Hún reyndi við 1,73m, sem hefið verið bæting á aldursflokkameti Evu Maríu um 1cm, en hún felldi þá hæð í þrígang. FH-ingurinn Daníel Ingi Egilsson vann þrístökk karla með 14,35m. Blikinn Guðjón Dunbar Diaquoi varð annar á nýju persónulegu meti, 14,24m, sem er 21cm frá aldursflokkameti Þorsteins Ingvarssonar í 16-17 ára flokki. FH-ingurinn Svanhvít Ásta Jónsdóttir vann þrístökk kvenna með 11,59m.

Öll úrslit Aðventumóts Ármanns má sjá hér.

Íslendingar í Bandaríkjunum komnir í gang

Spretthlaupararnir Dagur Andri Einarsson og Óliver Máni Samúelsson, sem báðir keppa fyrir Hillsdale háskólann í Michigan, opnuðu tímabilið um síðustu helgi þegar þeir kepptu í 60m hlaupi á Oiler Opener & Multi mótinu í Ohio. Dagur hljóp á 7,05 í undanriðlunum og 7,06 í úrslitunum en hann á best 6,99 frá árinu 2018. Óliver hljóp á 7,15 í undanriðlunum en hann á best 7,07 frá árinu 2020.

Hástökkvarinn Eva María Baldursdóttir sem keppir fyrir Háskólann í Pittsburgh opnaði tímabilið einnig um síðustu helgi þegar hún stökk 1,70m á YSU Indoor Track & Field Icebreaker mótinu í Ohio.

Næsta mót á dagskrá hér innanlands er Áramót Fjölnis sem verður haldið í Laugardalshöll þann 29. desember.

Exit mobile version