Nýtt ár, nýtt tímabil

Gleðilegt nýtt ár kæru lesendur og megi það færa okkur öllum gleði og hamingju en ekki síður fullt af nýjum heimsmetum og fersk rifrildi um nýjustu gerðir skóbúnaðar. En áður en að því kemur er rétt að líta á dagatalið og skoða hvaða mót í vetur verður vert að fylgjast með á stóra alþjóðlega sviðinu.

World Athletics Indoor Tour

Þegar World Athletics (þá IAAF) settu af stað innanhúsmótaröðina IAAF World Indoor Tour árið 2016 voru mótin aðeins fjögur talsins, á tveimur vikum. Nú árið 2023 hefur mótaröðin sprungið út og verða mótin í vetur 54 talsins, í fjórum þrepum: World Athletics Indoor Tour Gold, Silver, Bronze og Challenger. Fyrsta mótið er 21. janúar en það síðasta ekki fyrr en 11. mars. Eins og gefur að skilja má búast við stærstu nöfnunum á gullþrepinu, svo við ætlum að einblína á það þrep en vel getur þó verið þess virði að fylgjast líka með hinum þremur. Þá má nefna að Reykjavíkurleikarnir okkar eru hluti af Challenger þrepinu, en meira um þá þegar nær dregur.

Gullveislan byrjar þann 27. janúar með Init Indoor Meeting í Karlsruhe í Þýskalandi. Þetta mót var fyrst haldið árið 1985 og fer því að styttast í fertugasta mótið. Eins og ávallt má búast við sterkri keppni og ljóst að keppendur vilja sýna strax á fyrsta stóra mótinu hversu vel þeir koma undan vetri, enda ekki nema rétt rúmur mánuður í EM í Istanbúl, þegar mótið fer fram. Nú þegar er búið að staðfesta nokkur stór nöfn, til að mynda langstökkvarann Malaika Mihambo. Ekki mun hún þó keppa í langstökki heldur í 60 metra hlaupi og mun þar etja kappi við Dina Asher-Smith, Ewa Swoboda og Alexöndru Burghardt.

Malaika Mihambo, sem varði heimsmeistaratitill sinn í langstökki í Eugene í sumar mætir fersk til leiks á heima velli í Karlsruhe þann 27. janúar næstkomandi. Að vísu í 60 m hlaupi.

Eftir Karlsruhe fer mótaröðin vestur yfir haf til Boston þann 4. febrúar en ásamt Millrose Games í New York, þann 11. febrúar, eru þetta einu mótin í gullþrepinu sem ekki eru haldin í Evrópu. Á meðan keppendur færa sig frá Boston til New York er keppt í Torun í Póllandi þann 8. febrúar. Eftir New York eru mót í Liévin í Frakklandi og Madrid á Spáni áður en mótaröðinni lýkur í Birmingham á Englandi þann 25. febrúar og er þá minna en vika í EM.

Eins og góðri mótaröð sæmir er keppt til stiga, en þó ekki í öllum greinum. Í kvennaflokki er í ár keppt til stiga í 60 m, 800 m, 3000/5000 m, stangarstökki, þrístökki, og kúluvarpi, en í karlaflokki eru það 400 m, 1500 m, 60 m grind, hástökk og langstökk sem gefa stig. Á næsta ári er svo víxlað. Gefin eru 10, 7, 4 og 3 stig fyrir fyrstu fjögur sætin auk þriggja aukastiga fyrir heimsmet. Aðeins þrír bestu árangrar telja þó til stiga. Stigahæsti keppandinn í hverri grein eftir að mótaröðinni lýkur hlýtur 10.000 dollara í vinning auk þess að fá sjálfkrafa keppnisrétt á HM innanhúss í Glasgow næsta vetur.

Nánar verður fjallað um hvert þessara móta þegar nær dregur en í töflunni hér að neðan má sjá dagskránna í gullþrepinu.

HvaðHvenærHvar
Init Indoor Meeting27. janúarKarlsruhe, Þýskalandi
New Balance Indoor Grand Prix4. febrúarBoston, Bandaríkjunum
ORLEN Copernicus Cup8. febrúarToruń, Póllandi
Millrose Games11. febrúarNew York, Bandaríkjunum
Meeting Hauts-de-France Pas-de-Calais15. febrúarLiévin, Frakklandi
Villa de Madrid Indoor Meeting22. febrúarMadrid, Spáni
Birmingham World Indoor Tour Final25. febrúarBirmingham, Englandi
Mót World Athletics Indoor Tour Gold mótaraðarinnar veturinn 2023