FH-ingurinn Kolbeinn Höður Gunnarsson bætti í gærkvöldi Íslandsmetið í 60m hlaupi innanhúss á 1. móti Nike mótaraðarinnar. Kolbeinn hljóp vel í undanúrslitum hlaupsins og kom í mark á tímanum 6,81s sem var bæting á hans besta árangri um einn hundraðshluta úr sekúndu. Tíminn var jafnframt einum hundraðshluta frá 30 ára gömlu Íslandsmeti Einars Þórs Einarssonar.
Kolbeinn átti síðan frábært úrslitahlaup og stórbætti Íslandsmetið þegar hann kom í mark á tímanum 6,68s. Liðsfélagar Kolbeins, Dawid Boc og Gylfi Ingvar Gylfason, hlupu einnig vel úrslitunum. Dawid kom í mark á 6,97s og Gylfi á 6,98s sem er persónulegt met hjá honum. Dawid hljóp á 6,93s í undanúrslitahlaupinu sem er hann besti tími frá upphafi.
Af öðrum úrslitum mótsins má nefna að FH-ingurinn Daníel Ingi Egilsson vann langstökk karla með stökki upp á 7,24m sem er persónulegt met hjá honum. Kringlukastarinn Guðni Valur Guðnason vann kúluvarp karla með 16,74m. Elín Sóley Sigurbjörnsdóttir sigraði í 800m hlaupi kvenna á tímanum 2:15,36 og Irma Gunnarsdóttir vann langstökk kvenna með 6,14m sem er jöfnun á hennar besta árangri í greininni innanhúss.
Hér má sjá heildarúrslit mótsins.