Akureyringurinn Baldvin Þór Magnússon bætti í gær Íslandsmetið í mílu hlaupi innanhúss á Michigan Invitational mótinu í Ann Arbor, Michigan. Baldvin kom fimmti í mark á tímanum 3:59,60 og bætti þar með þriggja ára gamalt Íslandsmets Hlyns Andréssonar um fjórar sekúndur. Hobbs Kessler vann hlaupið á 3:57,11 en úrslit hlaupsins má sjá hér.
Baldvin var fyrsti Íslendingurinn til að brjóta fjögurra mínútna múrinn í mílu innanhúss þegar hann hljóp á 3:58,08 í fyrra sem er enn besti tími Íslendings innanhúss frá upphafi. Hlaupið fór hins vegar fram á 300m braut og fékkst tíminn því ekki staðfestur sem Íslandsmet.
Íslandsmetið í mílu hlaupi utanhúss er orðið rúmlega 40 ára gamalt en það er í eigu Jóns Diðrikssonar, 3:57,63. Jón er enn eini Íslendingurinn sem hefur brotið fjögurra mínútna múrinn utanhúss eins og lesa má um hér.
Baldvin er greinilega í hörkuformi en hann bætti Íslandsmetið í 5000m innanhúss í byrjun desember. Það má með sanni segja að innanhússtímabilið hjá íslensku frjálsíþróttafólki fari af stað með látum en nú þegar hafa fjögur Íslandsmet fallið. Auk meta Baldvins hefur Irma Gunnarsdóttir slegið metið í þrístökki kvenna og Kolbeinn Höður Gunnarsson slegið metið í 60m hlaupi karla. Tímabilið er rétt að byrja og því enn nægur tími til að bæta í metaregnið.