Ísak Óli krýndur Íslandsmeistari í sjöþraut fimmta árið í röð

Meistarmót Íslands í fjölþrautum innanhúss fór fram í Laugardalshöll um helgina. Skagfirðingurinn Ísak Óli Traustason var krýndur Íslandsmeistari í sjöþraut karla. Ísak nældi í alls 5074 stig um helgina en hann var sá eini í karlaflokki sem náði að klára þrautina. Akureyringurinn Birnir Vagn Finnson endaði annar með 2785 stig og Blikinn Ægir Örn Kristjánsson endaði þriðji með 1918 stig. Birnir og Ægir mættu hvorugur til leiks seinni dag þrautarinnar og luku því einungis fjórum greinum af sjö.

Þetta er fimmta árið í röð sem Ísak verður Íslandsmeistari í sjöþraut og áttunda árið í röð sem hann kemst á pall. Árangur Ísaks í einstaka greinum má sjá í töflunni hér að neðan. Þess má geta að besti árangur Ísaks í sjöþraut er 5355 stig frá árinu 2021.

GreinÁrangurStig
60m7,27789
Langstökk6,78762
Kúluvarp13,57702
Hástökk1,83653
60m grind8,55848
Stangarstökk4,10645
1000m2:58,88675

Engin kona mætti til leiks í fimmtarþraut á mótinu og var því engin krýnd Íslandsmeistari þetta árið.

FH-ingurinn Ísold Sævarsdóttir varð Íslandsmeistari í fimmtarþraut stúlkna 18-19 ára en hún halaði samtals inn 3786 stigum. ÍR-ingurinn Brynja Rós Brynjarsdóttir varð önnur með 3373 stig og Júlía Kristín Jóhannesdóttir úr Breiðabliki þriðja með 3241 stig.

Þorleifur Einar Leifsson úr Breiðabliki varð Íslandsmeistari í sjöþraut pilta 18-19 ára eftir harða keppni við liðsfélaga sinn Markús Birgisson. Einar endaði þrautina með 4667 stig en Markús með 4556 stig.

Hekla Magnúsdóttir úr Ármanni varð Íslandsmeistari í sjöþraut stúlkna 16-17 ára með 3373 stig en Sara Kristín Lýðsdóttir úr FH varð önnur með 2955 stig. Liðsfélagi Heklu, Þorsteinn Pétursson, var krýndur Íslandsmeistari í sjöþraut pilta 16-17 ára en hann fékk samtals 4061 stig. Oliver Jan Tomczyk úr HSK/Selfoss fékk 3675 stig og varð annar og Grétar Björn Unnsteinsson úr Fjölni varð þriðji með 3610 stig.

Í flokki 15 ára og yngri voru Hjálmar Vilhelm Rúnarsson úr HSK/Selfoss og Júlía Mekkín Guðjónsdóttir úr ÍR krýnd Íslandsmeistarar.

Öll úrslit mótsins má sjá hér.