Site icon Frjálsíþróttavefurinn Silfrið

Stórmót ÍR: Guðbjörg jafnaði eigið Íslandsmet

26. Stórmót ÍR fer fram í Laugardalshöll um helgina og er fyrri degi þess nú lokið. Yfir 500 íþróttamenn á öllum aldri eru skráðir til keppni, þar af rúmlega 30 Færeyingar. Góð stemning var í höllinni og frábær árangur náðist í nokkrum greinum á þessum fyrri degi.

Mikil spenna var fyrir mótinu en þau sem slá Íslandsmet um helgina fá 100.000 kr. verðlaunafé og þau sem ná lágmarki á stórmót fá 300.000 kr. Um er að ræða fyrsta frjálsíþróttamótið á Íslandi þar sem slíkir fjárhagshvatar eru til staðar. Líkt og við fjölluðum um í gær voru nokkur Íslandsmet í hættu um helgina. ÍR-ingarnir Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir og Tiana Ósk Whitworth voru til alls líklegar í 60m hlaupinu sem fór fram í dag. Þá eygja FH-ingarnir Irma Gunnarsdóttir og Daníel Ingi Egilsson góða möguleika á Íslandsmetinu í þrístökki en sú grein fer fram á seinni degi mótsins. Þá bættist eitt Íslandsmet á hættulistann í dag en nýbakaði Íslandsmethafinn í 60m hlaupi, Kolbeinn Höður Gunnarsson úr FH, skráði sig til keppni með skömmum fyrirvara. Eflaust hafa fréttir af verðlaunafénu eitthvað með það gera.

Guðbjörg jafnaði metið

Eins og áður segir voru bæði Guðbjörg Jóna og Tiana Ósk til alls líklegar 60m hlaupinu í dag en þetta var fyrsta hlaup þeirra beggja á tímabilinu. Birna Kristín Kristjánsdóttir úr Breiðabliki var einnig skráð til keppni en hún hafði hlaupið hraðast á 7,76 á tímabilinu til þessa.

Það fór svo að Guðbjörg vann hlaupið nokkuð örugglega á tímanum 7,43s sem er jöfnun á hennar eigin Íslandsmeti frá því í fyrra. Guðbjörg missti því af hundrað þúsund kallinum með aðeins einum hundraðshluta. Tími Guðbjargar er einnig Stórmótsmet. Tiana kom önnur í mark á tímanum á 7,64s en hún á best 7,45s frá því í fyrra. Birna varð síðan þriðja á 7,70s sem er einungis þremur hundraðshlutum frá hennar besta.

Kolbeinn nálægt nýja metinu

Kolbeinn Höður var langsigurstranglegastur í 60m hlaupi karla í dag. Íslandsmet hans í greininni (6,68s) er einungis níu daga gamalt og því ágætis líkur á því að hann gæti bætt það í dag. Kolbeinn var einnig sá keppandi um helgina sem var líklegastur til að ná lágmarki á stórmót og hljóta þannig 300.000 kr. verðlaunaféð. Lágmarkið á EM innanhúss er 6,63s og þurfti Kolbeinn því að bæta sig um fimm hundraðshluta til að ná því.

Kolbeinn sigraði í hlaupinu með yfirburðum. Hann kom í mark á tímanum 6,72s sem er nýtt Stórmótsmet. Kolbeinn náði þó ekki að bæta Íslandsmetið í dag. Engu að síður frábær tími sem sýnir að metið var ekkert einsdæmi. Liðsfélagi Kolbeins, Gylfi Ingvar Gylfason, varð annar á tímanum 6,98 sem er jöfnun á hans besta árangri. Færeyingurinn Jónas Isaksen varð þriðji á 7,07s.

Irma og Daníel með bætingar

Irma Gunnarsdóttir vann langstökk kvenna nokkuð örugglega. Hún stökk lengst 6,36m sem er bæting hjá henni um 20cm. Með þessu stekkur Irma úr sjötta sæti afrekaskrárinnar í langstökki kvenna innanhúss upp í það annað. Einungis Hafdís Sigurðardóttir hefur hefur stokkið lengra en Íslandsmet hennar er 6,62m. Irma átti mjög góða stökkseríu í dag og hún stökk fimm sinnum yfir 6,10m. Birna Kristín varð önnur með 6,11m sem er bæting hjá henni um 3cm innanhúss en hún á best 6,12m utanhúss.

Daníel Ingi Egilsson sigraði í langstökki karla með stökki upp á 7,35m. Þetta er bæting á hans besta árangri um 11cm. Færeyingurinn Eiri Jógvansson Glerfoss veitti Daníel harða keppni í dag en hann stökk lengst 7,29m og hafnaði í öðru sætinu. Það er greinilegt að bæði Irma og Daníel eru í góðu formi og spennandi verður að sjá hvort Íslandsmetin í þrístökki falli á morgun.

Færeyskur sigur í 400m

Færeyingurinn Jónas Isaksen sigraði í 400m hlaupi karla á tímanum 49,49s. ÍR-ingurinn Sæmundur Ólafsson varð annar á tímanum 49,60s en þetta er í fyrsta sinn sem hann hleypur undir 50 sekúndum innanhúss. Bjarni Anton Theódórsson varð þriðji á 50,47s.

Af öðrum úrslitum má nefna að Ingibjörg Sigurðardóttir úr ÍR vann 400m hlaup kvenna á tímanum 59,22s en liðsfélagi hennar, Sara Mjöll Smáradóttir, varð önnur á 62,33. Íris Anna Skúladóttir úr FH vann 1500m hlaup kvenna á 4:47,15 og Sigurður Karlsson úr ÍR vann 1500m hlaup karla á 4:31,86. ÍR-ingurinn Guðni Valur Guðnason vann kúluvarp karla með 17,63m og Ármenningurinn María Helga Högnadóttir vann kúluvarp kvenna með 11,34m sem er persónulegt met hjá henni.

Hér má nálgast öll úrslit dagsins. Mótið heldur svo áfram á morgun en hér má sjá tímaseðil mótsins.

Exit mobile version