Síðari degi Stórmóts ÍR er nú lokið. Mikil spenna ríkti fyrir deginum en þrír FH-ingar gerðu atlögu að Íslandsmetunum í sínum greinum – Daníel Ingi Egilsson og Irma Gunnarsdóttir í þrístökki og Kolbeinn Höður Gunnarsson í 200m hlaupi.
Daníel Ingi hjó nærri metinu
Daníel Ingi sigraði langstökkskeppnina í gær með stökki upp á 7,35m sem var bæting á hans besta árangri. Í þrístökkskeppninni í dag hafði hann augun á Íslandsmeti Kristins Torfasonar sem sett var á Stórmóti ÍR árið 2011 (15,27m). Fyrir daginn í dag hafði Daníel Ingi lengst stokkið 15,08m innanhúss og 15,31m utanhúss.
Fyrsta stökk Daníels í dag mældist 14,54m. Annað stökkið var afar gott og mældist 15,21m – bæting um 13cm og einungis 6cm frá Íslandsmetinu. Daníel átti einnig mjög gott þriðja stökk en það mældist 15,14m. Daníel gaf síðan allt í síðustu þrjú stökkin með góðum stuðningi frá áhorfendum í Laugardalshöllinni. Hann náði þó ekki að lengja sig og fékk Íslandsmeti Kristins því að lifa enn einn daginn. Engu að síður frábær dagur hjá Daníel sem nálgast óðfluga Íslandsmetið. Guðjón Dunbar Diaquoi úr Breiðabliki varð annar með 14,26m, sem er bæting hjá honum um 2cm, og Pétur Friðrik Jónsson úr UFA þriðji með 11,04m.
Irma setti mótsmet
Líkt og Daníel eygði Irma Gunnarsdóttir von á Íslandsmetinu í þrístökki kvenna. Íslandsmetið er í eigu Irmu sjálfrar (13,13m). Hún stórbætti sig í langstökkinu í gær og vonaðist eflaust eftir svipuðum árangri í dag.
Irma gerði ógilt í fyrstu umferð en hitti vel á það í þeirri annarri. Stökkið mældist 12,82m sem var bæting á Stórmótsmeti Jóhönnu Ingadóttur frá árinu 2012 um 14cm. Irma var þó hvergi nærri hætt og bætti mótsmetið aftur strax í næstu umferð. Þá stökk hún 12,85m. Hún lengdi svo mótsmetið enn aftur í fjórðu umferð þegar hún stökk 12,97m. Irma gerði ógilt í fimmta stökkinu. Hún gaf síðan allt í síðasta stökkið en náði þó ekki að lengja sig. Stökkið mældist 12,83m og var fjórða stökk Irmu yfir 12,80m í dag. Frábær árangur þó Íslandsmetið hafi ekki fallið í þetta sinn. Liðsfélagar Irmu, þær Svanhvít Ásta Jónsdóttir og Agla María Kristjánsdóttir höfnuðu í öðru og þriðja sætinu. Svanhvít stökk lengst 11,40m og Agla 11,08m.
Kolbeinn bætti eigið mótsmet
Eftir frábært 60m hlaup í gær var Kolbeinn Höður aftur mættur á brautina í 200m hlaupinu í dag. Kolbeinn sigraði hlaupið örugglega á tímanum 21,63s sem var bæting á hans eigin Stórmótsmeti um einn hundraðshluta. Gamla mótsmetið var sett árið 2015 og var á þeim tíma Íslandsmet í greininni. Síðan þá hefur Kolbeinn bætt Íslandsmetið enn frekar og er það núna 21,21s. Færeyingarnir Jónas Isaksen og Eiri Jógvansson Glerfoss röðuðu sér í annað og þriðja sæti hlaupsins. Jónas hljóp á 22,31s og Eiri á 22,90s.
Tiana Ósk Whitworth úr ÍR sigraði í 200m hlaupi kvenna á tímaum 25,26s. Elísabet Ósk Jónsdóttir úr Breiðabliki varð önnur á 26,80s og Kristín Rut Blöndal úr ÍR þriðja á 26,99s.
Fyrsta 800m hlaup Kristins Þórs frá 2018
Kristinn Þór Kristinsson úr Selfossi vann 800m hlaup karla örugglega á tímanum 1:56,48. Það var gaman að sjá Kristinn Þór aftur á brautinni en hann hefur verið að glíma við langvinn meiðsli og hefur ekki keppt í 800m hlaupi síðan árið 2018. Kristinn á annan besta tíma Íslendings frá upphafi í 800m hlaupi innanhúss (1:51,17) og á hann jafnframt Stórmótsmetið í greininni sem sett var árið 2015 (1:52,30). Annar í hlaupinu í dag var Fjölnir Brynjarsson úr FH en hann kom í mark á tímanum 1:59,31 sem er bæting á hans besta árangri. Fjölnismaðurinn Daði Arnarson kom síðan þriðji í mark á tímanum 2:00,63.
FH-stúlkur unnu fjórfalt í 800m hlaupi kvenna líkt og í 1500m hlaupinu í gær. Elín Sóley Sigurbjörnsdóttir kom fyrst í mark á tímanum 2:16,01. Embla Margrét Hreimsdóttir (2:20,03), Íris Anna Skúladóttir (2:20,40) og Íris Dóra Snorradóttir (2:20,42) bættu allar sinn besta árangur og röðuðu sér í annað, þriðja og fjórða sætið.
Af öðrum úrslitum má nefna að Guðmundur Heiðar Guðmundsson úr FH vann 60m grindahlaup karla á 8,68s en Árni Haukur Árnason úr ÍR varð annar einungis einum hundraðshluta á eftir Guðmundi. Birna Kristín Kristjánsdóttir vann 60m grindahlaup kvenna á 8,90s og Jana Gajic varð önnur á 10,06s. Þær keppa báðar fyrir Breiðablik. Þorsteinn Jóhannsson vann 3000m hlaup karla á tímanum 8:56,66. ÍR-ingurinn Sóley Kristín Einarsdóttir sigraði í hástökki kvenna með 1,70m. Þá sigraði Daníel Breki Elvarsson úr Selfossi í hástökki karla með 1,82m.
Yfir 500 keppendur á öllum aldri kepptu á mótinu um helgina. Alls litu 846 persónuleg met dagsins ljós, þar af voru 14 mótsmet. Öll úrslit mótsins má sjá hér.