Arftakar Vésteins kynntir – Ståhl og Pettersson hvor í sína áttina

Í síðustu viku var greint frá því að Vésteinn Hafsteinsson muni hætta þjálfun og flytja heim til Íslands til þess að taka við starfi afreksstjóra ÍSÍ. Þetta eru frábærar fréttir fyrir íslenskt íþróttastarf en Vésteinn þekkir vel til afreksíþróttastarfs, bæði sem þjálfari og íþróttamaður. Hann keppti sjálfur á fernum Ólympíuleikum (1980, 1984, 1992 og 1996) og hefur þjálfað tvo Ólympíumeistara í kringlukasti, Gerd Kanter árið 2008 og Daniel Ståhl árið 2021.

Þessi ákvörðun Vésteins þýðir að lærisveinar hans, m.a. Svíarnir Daniel Ståhl, Simon Pettersson og Fanny Roos, hafa þurft að finna sér að nýjan þjálfara. Vésteinn þjálfaði Ståhl í tólf ár, Pettersson í tíu og Roos í rúm sex og á þessum tíma hafa þau öll náð frábærum árangri. Það er því verðugt verkefni að fylgja í fótspor Vésteins sem til að mynda var valinn þjálfari ársins í Svíþjóð eftir að hafa þjálfað þá Ståhl og Pettersson til gull- og silfurverðlauna á Ólympíuleikunum í Tókýó. Þá fékk Vésteinn heiðursverðlaun á Friidrottsgalan, verðlaunahátíð sænska frjálsíþróttasambandsins, um síðustu helgi.

Vésteinn með heiðursverðlaun sænska frjálsíþróttasambandsins.

Þegar ákvörðun Vésteins var kynnt í síðustu viku var ekki orðið ljóst hver myndi taka við þjálfun þremenninganna en Vésteinn hafði þó sínar hugmyndir um framhaldið. „Þegar ég sagði þeim frá ákvörðun minni hafði ég þá þegar hugsað um framtíðarlausnir fyrir þau. Ég sagði: „Nú megið þið vera í sjokki í smá stund, síðan komið þið til mín og við ræðum þetta.“ Nú hef ég talað við þau öll þrjú og það hefur komið ljós að hugmyndir mínar fyrir hvert og eitt þeirra voru næstum alveg eins og þeirra eigin hugmyndir,“ sagði Vésteinn í viðtalið við sænska frjálsíþróttasambandið.

„Ég verð þeim innan handar eins lengi og þau vilja en reynsla mín er að þess þarf yfirleitt ekki lengi. Þetta verður jákvæð breyting fyrir mig og getur orðið jákvætt fyrir þau líka. Síðan verður maður líka að muna að þau eru engir unglingar lengur. Þau ættu ekki að finna upp hjólið á ný, ekki breyta neinu sérstöku í tækninni það sem eftir er ferilsins,“ sagði Vésteinn sem hefur þjálfað þremenningana og byggt upp frábært afreksstarf í Växjö undanfarin ár.

Nú fyrir helgi var svo greint frá því að þjálfaraleit þremenninganna hafi borið árangur. Athygli vekur að Pettersson og Ståhl munu fara hvor í sína áttina.

Pettersson flytur heim

Ákvörðun Vésteins kom Pettersson á óvart en hann er spenntur fyrir því sem framtíðin ber í skauti sér. „Vésteinn hefur verið meginstoðin í mínum árangri. Við höfum unnið saman í tíu ár og það er hann sem hefur gefið mér möguleikann á að þróast í þann íþróttamann sem ég er í dag. Ég er ótrúlega þakklátur fyrir allt sem ég hef fengið,“ sagði Pettersson í viðtali við sænska frjálsíþróttasambandið. „Fyrst varð ég mjög undrandi þegar hann sagði mér frá ákvörðun sinni. En nú liður mér samt vel með þetta og ég er mjög ánægður fyrir hans hönd.“

Pettersson mun nú flytja frá Växjö á bernskuslóðir sínar í Sixarby í Uppland norður af Uppsala. Þar mun Henrik Wennberg taka við þjálfun hans en hann er þjálfari og íþróttastjóri hjá liðinu Uppsala IF.

Hinn nýi þjálfari Simon Pettersson, Henrik Wennberg.

„Þetta er ótrúlega hvetjandi. Vésteinn er einn af farsælustu kastþjálfurum sögunnar og ég mun aldrei geta farið fram úr því sem hann hefur gert. En mitt verkefni er að hjálpa Simon að kasta lengra og betur en hann hefur gert áður,“ sagði Wennberg í viðtali við Sveriges Radio. „Núna verð ég að kynna mér eins mikið og ég get hvernig Simon hefur æft síðustu tíu árin. Ég verð að eyða miklum tíma með Vésteini og fá eins miklar upplýsingar og ég get frá honum. Því betur sem ég þekki Simon því betri þjálfari verð ég. Ég er ekki bara að fara að þjálfa kringlukast, ég er að fara þjálfa Simon Pettersson.“

Ståhl og Roos til Malmö

Ólympíumeistarinn Ståhl er einnig spenntur fyrir því sem koma skal. „Nú þegar ég hef áttað mig betur á þessu finnst mér þetta bara spennandi og skemmtilegt. Véstinn hefur gert okkur að útskrifuðum afreksmönnum. Ég veit nákvæmlega hvernig ég á að kasta, hvað ég þarf að bæta og hvað ég þarf að æfa,“ sagði Ståhl í viðtali við sænska frjálsíþróttasambandið. „Hann hefur verið númer eitt hjá mér síðan 1. október 2011. Ég hef trúað hverju einasta orði hans frá þeim degi sem hann sagði: „Þú getur orðið heimsmeistari og Ólympíumeistari, ef þú trúir á mig þá gerist það.“ Hann er enginn venjulegur þjálfari. Hann vinnur myrkranna á milli og saman höfum við í Växjö breytt sænskum kastheimi.“

„Það er að sjálfsögðu mjög leiðinlegt að Vésteinn muni hætta, við ætluðum að vinna saman í átt að ÓL í París. En þetta er samt frekar eðlilegt, við höfum unnið saman í tólf ár og hann hefur núna ákveðið að flytja heim og vinna að öðru. Ég varð næstum orðlaus þegar hann sagði mér þetta fyrst en þegar hann skýrði þetta nánar skildi ég hann alveg. Þetta er frábært fyrir Véstein.“

Kúluvarparinn Fanny Roos lítur einnig björtum augum á framtíðina. „Ég hef náð mjög góðum árangri síðan ég byrjaði að vinna með Vésteini haustið 2016. Hann hefur kennt mér ótrúlega mikið og ég varð, líkt og hinir, frekar undrandi þegar hann sagði okkur að hann ætlaði að hætta. En nú þegar ég hef aðeins hugsað um þetta þá skil ég hann og held að þetta muni ganga vel,“ sagði hún við sænska frjálsíþróttasambandið.

Nú er það orðið ljóst að Ståhl og Roos munu bæði flytja til Malmö og æfa undir handleiðslu Staffan Jönsson sem þjálfar m.a. kúluvarparann Wictor Petersson.

„Að taka við af Vésteini er auðvitað sérstakt og verkefni sem ég tek mjög auðmjúkur við. Það sem þau hafa byggt upp í Växjö er einstakt og eitthvað sem við höfum ekki haft áður í Svíþjóð. Á sama tíma er það mjög skemmtilegt að fá að taka við tveimur stjörnum í heimsklassa og byggja upp eitthvað frábært hér í Malmö. Ég hef þekkt Daniel og Fanny í 15 ár. Að fá að vinna með þeim verður mjög gaman,“ sagði Jönsson í viðtali við sænska frjálsíþróttasambandið.

„Vésteinn er vinur, kollegi og lærifaðir og hann hefur alltaf verið til staðar fyrir mig þegar ég hef þjálfað Wictor. Það er samband sem ég mun geta átt áfram, eitthvað sem ég er mjög ánægður með,“ sagði Jönsson sem mun formlega taka við þjálfun Ståhl og Roos eftir innanhússtímabilið. Roos stefnir á að keppa á EM í mars og mun Vésteinn vera henni innan handar fram yfir það mót.

„Daniel er 30 ára og Fanny eru 28 ára og þau hafa náð góðum árangri. Mitt verkefni snýr að stórum hluta að því að sjá til þess að þeim líði vel en við munum halda 90% af þeirra tækni og líkamsbyggingu. Ef við munum gera einhverjar breytingar verða þær minniháttar því þau gera nú þegar svo mikið rétt. Það eru þó atriði sem ég vil vinna með. Fanny getur orðið sterkari. Daniel er nú þegar mjög sterkur en það eru tæknileg atriði sem ég vil greina betur með honum. Ég trúi því að það séu atriði sem hægt er að bæta. En í stórum dráttum verða ekki miklar breytingar,“ sagði Jönsson.

Staffan Jönsson og Wictor Petersson, nýr þjálfari og æfingafélagi þeirra Daniel Ståhl og Fanny Roos.

Landsliðsþjálfari Svía, fyrrum hástökkvarinn Kajsa Bergqvist, er afar ánægð með lendinguna. „Það er frábært að tvær góðar lausnir hafi fundist á aðeins einni viku. Þetta var mjög vel unnið af öllum aðilum og ég er sannfærð um að þetta muni koma sér vel fyrir Simon, Daniel og Fanny. Henrik og Staffan búa báðir yfir góðri þekkingu, mikilli reynslu og og brennandi ástríðu fyrir sænskum frjálsíþróttum,“ sagði hún við sænska frjálsíþróttasambandið.

Það verður áhugavert að fylgjast með þessum fyrrum lærisveinum Vésteins í sumar þar sem hápunkturinn verður án efa HM í Búdapest. Vésteinn á þó enn eftir eitt stórmót, EM innanhúss sem mun fara fram í Istanbúl í byrjun mars. Þar stefnir Roos eflaust á verðlaun en hún vann til silfurverðlauna á EM innanhúss fyrir tveimur árum.